Samkeppnishæfni - 

07. desember 2009

Næðir um loftslagsvísindin

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Næðir um loftslagsvísindin

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn hófst í morgun en þar munu ríki heims freista þess m.a. að komast að niðurstöðu um aðgerðir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og að hjálpa fátækum ríkjum til að aðlagast loftslagsbreytingum. Á síðustu vikum hefur farið fram mikil umræða á opinberum vettvangi um niðurstöður rannsókna í loftslagsmálum og ekki er þar allt vísindamönnum til framdráttar.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn hófst í morgun en þar munu ríki heims freista þess m.a. að komast að niðurstöðu um aðgerðir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og að hjálpa fátækum ríkjum til að aðlagast loftslagsbreytingum. Á síðustu vikum hefur farið fram mikil umræða á opinberum vettvangi um niðurstöður rannsókna í loftslagsmálum og ekki er þar allt vísindamönnum til framdráttar.

Það hefur legið fyrir um mjög langa hríð að koldíxoxíð (CO2) er gróðurhúsalofttegund sem hjálpar til við að halda hitastigi á jörðinni hæfilegu fyrir allt líf. Styrkur þess í andrúmsloftinu hefur verið  að hækka undanfarna áratugi m.a. vegna brennslu kola, olíu og jarðgass. Um þetta er ekki deilt enda hefur raunin orðið sú að á síðustu 150 árum eða svo hefur hlýnað á jörðinni um 0,8°C. Þessi hlýnun hefur ekki orðið jafnt og þétt heldur í tímabilum en svo hefur kólnað á milli.

Það er þó langt í frá svo að menn hafi enn fullkominn skilning á loftslagskerfi jarðar. Til þess er það allt of flókið og ótal þættir sem spila saman og hafa áhrif. Það er ekki bara aukið útstreymi  sem skiptir máli því einnig hefur aukinn mannfjöldi, sístækkandi borgir, niðurbrot á landi til akuryrkju og annara nota mikil áhrif.

Eins er óvissa um hvernig loftslagskerfið sjálft bregst við hlýnun andrúmsloftsins og hvaða áhrif hún hefur á rakajafnvægi, skýjamyndun, geislun sólar og fleira. Þó hafa menn reynt að meta áhrif allra þessara breytinga og milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) hefur á 7 ára fresti birt vandaðar úttektir byggðar á þeirri þekkingu sem menn búa yfir á hverjum tíma.

Í nefndinni vinna saman vísindamenn og embættismenn ríkja heims og komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig best sé að setja fram niðurstöður rannsókna og aðrar upplýsingar. Einnig er þar fjallað um afleiðingar loftslagsbreytinga og þá möguleika sem til staðar eru til að draga úr útstreymi. Nefndin hefur sett fram spár um vænta hlýnun fram til næstu aldamóta sem byggja m.a. á gefnum forsendum um hagþróun, mannfjölda og útstreymi.

Fyrir rúmum tveimur vikum fóru að birtast á vefnum upplýsingar um samskipti hóps vísindamanna sem hafa verið mjög framarlega í starfi IPCC og ýmis gögn á þeirra vegum. Þessar upplýsingar eru komnar úr tölvukerfi Loftslagsrannsóknastofnunarinnar (CRU) við háskólann í Austur Anglíu (UEA) í Englandi. Þar kom m.a. fram að hópurinn virðist hafa reynt að hafa áhrif á það hverjir fengju að birta greinar í vísindatímaritum ásamt því að hafa áhrif á ritstjórnir ákveðinna tímarita. Einnig mun hópurinn hafa velt því fyrir sér hvernig unnt væri að hafa áhrif á niðurstöður IPCC og fela óþægileg gögn ásamt því að hvetja til þess að tölvupóstum væri eytt. Þá var því viðhorfi lýst að slæmt væri að niðurstöður vísindamanna samræmdust ekki væntingum um hlýnun jarðar og leitað leiða til að setja fram niðurstöður þannig fram að hlýnun jarðar sýndist sem mest á síðustu áratugum.

Þetta gerðist eftir að margir höfðu reynt án árangurs um langa hríð að fá aðgang að þeim gögnum hjá rannsóknarstofnuninni sem útreikningar hennar byggjast á. Tilgangurinn var sá að geta sannreynt niðurstöðurnar og nýtt til frekari rannsókna. Til þess að reikna út hitastig jarðar út frá mælingum á jörðu hafa menn annars vegar reitt sig á hitastigsmælingar sem eru til í um 150 ár og síðan metið hitabreytingar m.a. út frá árhringjum trjáa og seti á vatnsbotnum. Við þetta koma upp margir óvissuþættir, gögn eru ekki samfelld og leiðrétta þarf hitamælingar og tengja saman niðurstöður sem fengnar eru með ólíkum aðferðum.

Mikilvægt er að öll kurl komi til grafar í þessum málum sem fyrst. Viðkomandi háskóli hefur sett af stað rannsókn á málinu og yfirmaður stofnunarinnar stigið til hliðar. Þá hefur verið skipuð óháð nefnd til að gera úttekt á málinu og milliríkjanefnd S.Þ. mun gera slíkt hið sama.

Þetta mun þó ekki hafa áhrif á þá niðurstöðu að andrúmsloft jarðar hefur hlýnað og að athafnir manna hafi haft þar áhrif á. En ekki er ólíklegt að í ljós komi að meiri óvissa ríki um loftslag á fyrri öldum en menn hafa talið og þá um leið að erfiðara verði að spá fyrir um ókomna tíð. Þrátt fyrir það hafa hamfaraspár verið dregnar fram í dagsljósið á ný í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn, þar sem menn velta m.a. vöngum yfir því hvað muni gerast ef allur Suðurskautsísinn bráðnar en þar er enn stöðugt frost allan ársins hring. Einnig hafa menn ímyndað sér hvað gerist ef Grænlandsjökull bráðnar en það mun taka mörg hundruð ár þótt hlýni enn og Golfstraumurinn hverfi á braut svo dæmi séu tekin.

Niðurstöður loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn munu þó vart taka mið af þessari umræðu. Í þeim efnum ræður fyrst og fremst pólitískt mat á því hvað einstaka ríki telja sig geta gert án þess að stefna í hættu efnahag sínum og þjóðarhagsmunum. Á lokadögum ráðstefnunnar er von á þjóðarleiðtogum um eða yfir 100 ríkja og m.a. hefur Bandaríkjaforseti breytt áætlunum sínum til að geta verið þar samtímis öðrum leiðtogum.

Pétur Reimarsson   

Samtök atvinnulífsins