09. júlí 2025

Myndasafn: Hringferðinni lauk fyrir vestan

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Myndasafn: Hringferðinni lauk fyrir vestan

Áhersla lögð á atvinnuuppbyggingu og stuðning stjórnvalda á Vestfjörðum.

Hringferð Samtaka atvinnulífsins lauk með vinnufundi á Ísafirði þann 26. júní. Dagskráin endurspeglaði fjölbreytt atvinnulíf á Vestfjörðum og vakti jafnframt athygli á skorti á eftirfylgni og áhugaleysi stjórnvalda.

Fyrsti viðkomustaður dagsins var hjá Arctic Fish , sem rekur fiskeldi og slátrunarstöð í nokkrum fjörðum fyrir vestan. Þar fengu þátttakendur innsýn í ört vaxandi grein sem byggir á tækniframþróun, sjálfbærni og verðmætasköpun fyrir svæðið.

Að lokinni heimsókninni var haldið í Edinborgarhúsið á Ísafirði þar sem um 30 manns tóku þátt í vinnufundi. Margir þátttakendur komu víða að enda svæðið stórt og dreifbýlt. Umræðurnar voru mjög uppbyggilegar og ríkti einhugur um þau fjölmörgu tækifæri sem felast í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum.

Þrátt fyrir bjartsýni lýstu margir fundarmanna áhyggjum af áhugaleysi stjórnvalda gagnvart svæðinu – nema þegar kæmi að aukinni skattlagningu. Þeir sögðu stuðning og nærveru hins opinbera oft vanta til að tryggja að tækifæri nýtist til fulls.

Eftir hádegi var komið við á Hótel Ísafirði og Logn veitingahúsi þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár. Þar kom fram hvernig ferðaþjónusta er að styrkjast á svæðinu, m.a. með auknum metnaði, fjárfestingu og aukinni þjónustu við gesti. Tækifæri greinarinnar felast helst í lækkun árstíðarsveiflu, með fjölgun ferðamanna utan sumartímabilsins.

Síðasta heimsóknin var til Jakob Valgeir ehf. í Bolungavík. Fyrirtækið rekur bolfiskútgerð og vinnur saltfisk sem er fluttur á erlenda markaði. Þar kom skýrt fram hversu mikilvæg hefðbundin útgerð og vinnsla er enn sem burðarás í atvinnulífinu fyrir vestan – og hvernig fyrirtæki á borð við Jakob Valgeir ná árangri á alþjóðlegum vettvangi.

Hér að neðan má sjá myndir úr ferðinni.

Samtök atvinnulífsins