1 MIN
Myndasafn: Frá Reyðarfirði niður á Höfn
Hringferð Samtaka atvinnulífsins um Austurland hófst mánudaginn 23. júní með heimsókn í jarðhitalaugar VÖK þar sem vel var tekið á móti samtökunum í fallegu umhverfi við Urriðavatn. Þar gafst gott tækifæri til að ræða uppbyggingu ferðaþjónustu og nýtingu náttúruauðlinda.
Næst var haldið til Reyðarfjarðar þar sem kröftugur og vel sóttur fundur fór fram í Fróðleiksmolanum. Málefni atvinnulífsins á Austurlandi voru rædd af miklum áhuga, ekki síst þær áskoranir og tækifæri sem svæðið stendur frammi fyrir.
Að fundi loknum var Alcoa Fjarðarál heimsótt þar sem farið var yfir starfsemi fyrirtækisins, samfélagsábyrgð þess og framtíðarhorfur í orkusæknum iðnaði. Því næst var haldið til Eskifjarðar í heimsókn til sjávarútvegsfyrirtækisins Eskju sem hefur gert frábært mót í vöruþróun og útflutningi á fiskafurðum síðustu ár.
Þriðjudaginn 24. júní lá leiðin til Hafnar í Hornafirði. Á leiðinni var komið við í Breiðdalsvík þar sem heimsótt var Hótel Bláfell áður en haldið var á vinnufund á Hótel Höfn. Á vinnufundinum voru málefni svæðisins rædd við fjölbreyttan hóp fundargesta með áherslu á útflutningsgreinar og þróun atvinnulífs á svæðinu.
Dagurinn endaði með heimsókn til sjávarútvegsfyrirtækisins Skinneyjar-Þinganess á Höfn þar sem starfsemin var kynnt og rætt um mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og verðmætasköpun á landsbyggðinni.
Hér að neðan má sjá myndir úr heimsókninni.
















































































