15. desember 2025

Munu skattahækkanir fella kjarasamninga?

Arnar Birkir Dansson

1 MIN

Munu skattahækkanir fella kjarasamninga?

Nú nálgast óðfluga eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar. Ýmis mál hafa komið fram, sum góð, önnur ekki, eins og gengur. Of mörg eiga þó sameiginlegt að hækka skatta og gjöld á fyrirtæki og almenning til að loka gati í rekstri ríkissjóðs. Betur færi á því að stjórnvöld einblíndu á kostnaðarhliðina og hefðu hemil á ríkisútgjöldum, í stað þess að senda reikninginn á skattgreiðendur.

Hækkun skatta á leigutekjur

Eitt nýjasta útspilið sem kynnt var í sérstökum húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar er breyting á lögum um fjármagnstekjuskatt. Í stuttu máli á að hækka skatt á leigutekjur einstaklinga úr 11% í 16,5%. Yfirlýst markmið aðgerðanna er að letja einstaklinga að fjárfesta í íbúðum til útleigu. Eigendastefna hefur lengi verið burðarás í húsnæðisstefnu á Íslandi og talsvert fleiri á eiga sitt eigið húsnæði hér miðað við þau lönd sem við helst berum okkur saman við. En það má ekki verða að trúaratriði að allir verði að eiga sitt húsnæði því fyrir suma hentar einfaldlega betur að leigja. Gera má ráð fyrir að hækkun fjármagnstekjuskatts dragi úr framboði leiguíbúða og/eða leiði til hækkunar á leiguverði.

Aukin vörugjöld á bifreiðar

Annað nýlegt útspil ríkisstjórnarinnar felst í breytingum á vörugjöldum ökutækja. Fyrir flest ökutæki hækka vörugjöld en misjafnt er eftir stærð og útblæstri bíls hver hækkunin er. Gjöldin munu þó lækka á rafbíla, en á móti lækkar hreinorkustyrkur Orkustofnunar og því misjafnt hver kostnaðaráhrifin verða. Mest munu skattarnir hækka á litla og eyðslugranna bensínbíla en með þessu vilja stjórnvöld hvetja til aukinnar notkunar rafmagnsbíla. Heildarniðurstaðan verður þó sú að skattar á ökutæki munu hækka til muna við breytinguna, sem fyrirséð er að leiti út í verðlag.

Verðbólguáhrif skattahækkananna

Skattahækkanir auka kostnað fyrirtækja og neytenda, en þær geta einnig haft áhrif á verðbólgu. Um er að ræða hlutfallslega stóra liði í útgjöldum heimila, húsnæði og bifreiðar. Húsnæðisliðurinn er stærsti liður vísitölu neysluverðs og verðbreytingar í honum hafa því mikil áhrif á verðbólgu í landinu. Að mati SA munu skattabreytingarnar ná til um 55% þeirra leigusamninga sem hafa áhrif á þennan stóra lið verðbólgunnar. Vegna breytinganna telja samtökin að verðbólga gæti aukist um allt að 0,75% við þessa skattabreytingu yfir næsta ár.

Þrátt fyrir að Íslendingar kaupi líklega fleiri rafbíla eftir breytingar á vörugjöldum, þá munu verðbreytingar á eldsneytisbílunum engu síður hafa mikil áhrif á verðbólgu. Er það fyrst og fremst af tæknilegum ástæðum en þegar einni vöru er skipt út fyrir aðra (eldsneytisbíl fyrir rafbíl) tekur tíma fyrir breytinguna að koma inn í seigfljótandi vog vísitölu neysluverðs. Mikil hlutfallsleg verðhækkun eldsneytisbíla miðað við hreinorkubíla, eykur því, a.m.k. til skemmri tíma litið, mælda verðbólgu. Þá þarf að hafa í huga að virðisaukaskattur leggst ofan á vörugjald sem magnar upp áhrif breytinga á vörugjöldum, það er að segja virðisaukaskatttekjur aukast jafnframt þegar vörugjald hækkar. Það er nær ómögulegt að segja nákvæmlega hver áhrifin á verðbólgu verða, en mat SA er að það geti verið frá 0,15-0,30%.

Undanfarna mánuði höfum við séð verðbólguna taka óvænt stökk, bæði til hækkunar en blessunarlega líka til lækkunar. Flestir greiningaraðilar telja þó að hún verði þrálát nokkuð fram á næsta ár. Í september 2026 verður skoðunarpunktur á forsenduákvæði kjarasamninga þar sem horft verður til þess hvort verðbólga verði undir 4,7%. Það er um prósentustigi hærra en síðasta verðbólgumæling og 0,4 prósentum hærra en þarsíðasta verðbólgumæling. Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar gætu valdið 0,90-1,05% hækkun á vísitölu neysluverðs. Miðað við núverandi verðbólgu er því raunhæft að spyrja: Munu skatthækkanir fella kjarasamninga?

Arnar Birkir Dansson

Hagfræðingur á efnahagssviði SA