Efnahagsmál - 

29. Apríl 2009

Mun verðhjöðnun fylgja efnahagshruni?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mun verðhjöðnun fylgja efnahagshruni?

Niðurstöður könnunar á stöðu og framtíðarhorfum hjá 500 stærstu fyrirtækjum landsins bera með sér margvísleg einkenni banka- og gjaldmiðilskreppunnar. Eins og í samsvarandi könnun í desember eru núverandi aðstæður í atvinnulífinu afleitar. Stjórnendur eiga almennt ekki von á að breyting verði til batnaðar á næstu sex mánuðum en ívið meiri bjartsýni kemur fram þegar horft er ár fram í tímann. Öll einkenni eftirspurnar- og verðbólguþrýstings eru horfin úr hagkerfinu.

Niðurstöður könnunar á stöðu og framtíðarhorfum hjá 500 stærstu fyrirtækjum landsins bera með sér margvísleg einkenni banka- og gjaldmiðilskreppunnar. Eins og í samsvarandi könnun í desember eru núverandi aðstæður í atvinnulífinu afleitar. Stjórnendur eiga almennt ekki von á að breyting verði til batnaðar á næstu sex mánuðum en ívið meiri bjartsýni kemur fram þegar horft er ár fram í tímann. Öll einkenni eftirspurnar- og verðbólguþrýstings eru horfin úr hagkerfinu.

Auk atvinnuleysis og slaka á vinnumarkaði hefur orðið hrun í fjárfestingum í atvinnulífinu, velta dregist saman, framlegð minnkað og hagnaður horfið. Í samræmi við þetta hafa verðbólguvæntingar fyrirtækja snarbreyst og gera þau ráð fyrir verðhjöðnun á næstu tólf mánuðum. Alvarlegt er að lítil bjartsýni ríkir um þróun eftirspurnar á erlendum mörkuðum á næstu sex mánuðum og eru því ekki líkur á að veikt gengi krónunnar nægi í bráð til að styðja við útflutningsdrifinn hagvöxt. Horfur um veltu, fjárfestingar og útflutning gefa til kynna að samdráttur landsframleiðslu kunni að verða nokkuð meiri á árinu en opinberar spár gera ráð fyrir.

Aðstæður í efnahagslífinu

Stjórnendur hjá um 95% fyrirtækjanna telja núverandi aðstæður í efnahagslífinu vera slæmar (37%) eða mjög slæmar (58%), um 5% telja þær hvorki góðar né slæmar, en ekkert þeirra fyrirtækja sem svöruðu könnuninni telja aðstæður hins vegar vera góðar. Þessi niðurstaða er ámóta afleit og fram kom í sambærilegri könnun í desember en mun verri en fram hefur komið í fyrri reglubundnum könnunum um sama efni eða allt frá árinu 2002.

Þegar horft er sex mánuði fram í tímann búast um 29% fyrirtækjanna við að aðstæður verði þá nokkuð betri, um 33% telja að þær verði verri og um 38% búast þá við að aðstæður verði óbreyttar frá því sem nú er. Aukinnar bjartsýni gætir þegar horft er tólf mánuði fram í tímann, en þá býst meirihluti fyrirtækjanna eða 59% við að aðstæður verði betri, um 18% að þær verði verri en um 22% vænta óbreyttra aðstæðna.

Niðurstöður könnunarinnar um aðstæður í efnahagslífinu má draga saman í svonefnda vísitölu efnahagslífsins, en hún sýnir samandregið mat fyrirtækja á núverandi efnahagsaðstæðum. Sams konar vísitölur má reikna miðað við mat stjórnenda á horfum eftir sex og tólf mánuði. Til samanburðar eru á eftirfarandi mynd einnig sýndar niðurstöður um sama efni úr fyrri könnunum. Lægsta gildi vísitölunnar er 0, þegar allir telja aðstæður verri en hæst 200, þegar allir telja þær betri. Jafnvægi er við gildið 100, þegar jafn margir telja aðstæður betri og þeir sem telja þær verri.

Vísitala efnahagslífsins

Þegar niðurstöður könnunarinnar eru þannig virtar í sögulegu samhengi blasir við að mat stjórnenda á ríkjandi aðstæðum í efnahagslífinu hefur aldrei verið jafn slæmt og fram kemur í þessari könnun og í könnun í lok síðasta árs, en vísitala efnahagslífsins sýnir lágmarksstöðu bæði í desember 2008 og mars 2009. Myndin staðfestir raunar einnig að afleitar aðstæður verða ekki eingöngu raktar til skyndilegs hruns viðskiptabankanna í byrjun október sl., heldur áttu versnandi aðstæður sér lengri aðdraganda, allt aftur til ársins 2007.

Jákvætt verður hins vegar að teljast að nokkur bjartsýni kemur fram hjá stjórnendum um aðstæður þegar horft er fram í tímann, sérstaklega til lengri tíma litið eða eftir tólf mánuði. Gefur þetta von um að stjórnendur eygi möguleika á að atvinnulífið hafi þá fundið viðspyrnu og muni þá smám saman takast að vinna sig út úr núverandi efnahagslægð. Engu að síður er rétt að vekja athygli á að í viðkomandi spurningu er spurt hvort aðstæður verði þá betri eða verri en nú. Þegar núverandi aðstæður eru verri en áður eru dæmi um kemur ekki á óvart að gert sé ráð fyrir að þær verði skárri að ári liðnu.

Staða og horfur á vinnumarkaði

Nægt framboð vinnuafls var til staðar í nánast öllum þeim fyrirtækjum sem svöruðu könnuninni, en skortur á vinnuafli var einungis til staðar hjá um 3% þátttökufyrirtækja. Eftirfarandi mynd sýnir þá kólnun sem orðið hefur á vinnumarkaðnum þar sem dregið hefur úr eftirspurn eftir vinnuafli og hlutfall þeirra fyrirtækja sem skortir starfsfólk hefur smám saman farið lækkandi allt frá desember 2007.

Mat fyrirtækja á vinnuaflsþörf


Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er þess ekki að vænta að ráðið verði í mörg ný störf á næstu sex mánuðum en á hinn bóginn er búist við að verulega muni draga úr uppsögnum miðað við síðustu sex mánuði. Hjá um 64% fyrirtækja er búist við því að starfsmannafjöldi verði óbreyttur á næstu sex mánuðum, um 14% gera ráð fyrir að fjölga starfsfólki en 22% eiga von á fækkun. Er þessi niðurstaða í ágætu samræmi við gögn Vinnumálastofnunar sem sýna að dregið hefur úr aukningu atvinnuleysis síðasta mánuðinn. Eftirfarandi mynd varpar ljósi á þá þróun sem komið hefur fram um ráðningaráform fyrirtækja í sambærilegum könnunum undanfarin misseri. Umframeftirspurn eftir vinnuafli fór minnkandi allt frá desember 2007, en fjöldaatvinnuleysi hófst síðan í kjölfar falls viðskiptabankanna í október síðastliðnum.

Áætluð breyting á starfsmannafjölda


Kólnun á vinnumarkaði birtist einnig í gjörbreyttum væntingum um launaþróun. Hjá einungis um 9% þeirra fyrirtækja sem svara könnuninni er búist við að meðallaun á starfsmann muni hækka á næstu sex mánuðum, í flestum tilvikum eða um 60% er búist við að laun verði óbreytt, en hjá um 31% fyrirtækja er búist við að laun lækki. Í könnun fyrir ári síðan bjóst hins vegar um 59% fyrirtækja við því að laun myndu hækka á næstu sex mánuðum.

Væntingar um breytingu launa


Í könnuninni er einnig spurt um möguleika fyrirtækja til að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu. Könnunin staðfestir að framleiðsluslaki mældur með þessum hætti hefur vaxið hratt allt frá því snemma á síðasta ári eins og sjá má á eftirfarandi mynd. Í könnuninni í september 2007 taldi einungis um 41% fyrirtækja að nýting afkasta væri undir hámarksgetu og að ekkert vandamál væri að bregðast við aukinni eftirspurn. Svipuð niðurstaða hafði komið fram á næstu misserum þar á undan. Þetta hlutfall hækkaði síðan í 50% í mars 2008, 69% í október og er nú 81%. Staðfestir þetta að yfirgnæfandi meirihluti atvinnufyrirtækja er nú rekin undir hámarksafkastagetu. Þá sýnir könnunin að 90% fyrirtækjanna búast við að þessar aðstæður vari næstu sex mánuði.

Nýting afkastagetu


Eftirspurn á innlendum og erlendum mörkuðum

Innlend eftirspurn hefur sem kunnugt er dregist mjög hratt saman að undanförnu og í heild er ekki spáð mikilli breytingu þar á á næstu sex mánuðum. Helmingur þátttökufyrirtækja telja að eftirspurn verði óbreytt á næstu sex mánuðum, um 22% búast við að hún muni aukast nokkuð og um 27% búast við samdrætti í eftirspurn.

Eins og eftirfarandi mynd ber með sér er ekki mikill munur eftir atvinnugreinum á spám fyrirtækjanna um þróun innlendrar eftirspurnar í þeim atvinnugreinum sem byggjast að verulegu leyti á innlendum markaði.

Spá um þróun innlendrar eftirspurnar


Athygli vekur að þrátt fyrir veikt gengi krónunnar um þessar mundir ríkir lítil bjartsýni um þróun eftirspurnar eftir vöru og þjónustu á erlendum mörkuðum. Telja aðeins um 10% fyrirtækja í sjávarútvegi að eftirspurn á erlendum mörkuðum muni aukast á næstu sex mánuðum, um 40% búast við óbreyttri eftirspurn, en um 50% vænta samdráttar í eftirspurn. Í iðnaði og framleiðslu eru horfurnar skárri en þó ekki bjartar. Er þar ámóta stórt hlutfall fyrirtækja sem búast við aukinni erlendri eftirspurn (38%) og þeirra sem vænta samdráttar (40%), en röskur fimmtungur (22%) væntir ekki breytingar.

Velta, hagnaður og EBITDA-framlegð

Spár fyrirtækjanna um breytingu á veltu milli áranna 2008 og 2009 eru svartsýnni en fram hefur komið í fyrri könnunum. Telja um 56% fyrirtækjanna að velta á árinu 2009 verði nokkuð minni (35%) eða miklu minni (21%) en á árinu 2008, um fjórðungur býst við óbreyttri veltu og einungis um 18% vænta aukningar. Engu minni samdrætti virðist spáð í útflutningsstarfsemi en í öðrum greinum, sbr. að um 71% fyrirtækja í sjávarútvegi búast við að velta verði nokkuð minni (57%) eða miklu minni (14%) á þessu ár en í fyrra.

Spá um breytingu á veltu


Í heild spá fyrirtækin 9,8% lækkun á veltu milli ára. Ef gengið er út frá 12% meðalhækkun verðlags milli ára felst í þessu 19,5% samdráttur að raunvirði. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins frá því í janúar er gert ráð fyrir tæplega 10% magnsamdrætti í landsframleiðslu á þessu ári. Þar er gengið út frá því að 1,6% raunvöxtur verði í samneyslu milli ári. Er því ljóst að gera má ráð fyrir að samdráttur í umsvifum einkafyrirtækja milli ára verði ennþá meiri en sem nemur minnkum landsframleiðslu. Reynist spá fyrirtækjanna um samdrátt í veltu þeirra nærri lagi, er ástæða til að óttast að samdráttur í landsframleiðslu á þessu ári verði ennþá meiri en opinberar spár gera ráð fyrir.

Samkvæmt svörum í könnuninni virðist einsýnt að hagnaður fyrirtækja sem hlutfall af veltu verði minni á árinu 2009 en 2008, en tæpur helmingur (49%) fyrirtækjanna telja að svo verði, á móti því sem um 32% búast við meiri hagnaði, en óbreytts hagnaðar er vænst hjá um 19% fyrirtækjanna. Ekki kemur fram mikill munur á þessu mati eftir atvinnugreinum, en lakastar horfur eru þó í sjávarútvegi, þar sem um 75% fyrirtækja búast við minni (50%) eða miklu minni (25%) hagnaði á árinu 2009. Í engri atvinnugrein koma fram skýr merki um aukinn hagnað á árinu 2009.

Spá um hagnað 2009

Í könnuninni er einnig spurt um breytingar á EBITDA-framlegð (þ.e. hagnaði fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir) undanfarna sex mánuði og líklegar breytingar næstu sex mánuði. Niðurstaðan fyrir atvinnulífið í heild er neikvæð, þar sem framlegð síðustu sex mánuði minnkaði hjá um 54% fyrirtækjanna, óbreytt framlegð var hjá um 27% þeirra en aðeins 19% fyrirtækjanna gefa til kynna aukningu. Heldur jákvæðari útkoma kemur þó fram í sjávarútvegi, þar sem um 47% fyrirtækja sýna aukningu, á móti því sem framlegð minnkar hjá um 29% fyrirtækja. Að öðru leyti kemur ekki fram mikill munur eftir atvinnugreinum.

Horfur um breytingu á framlegð á næstu sex mánuðum eru sömuleiðis fremur neikvæðar, þar sem einungis um 19% fyrirtækja búast við aukningu á móti því sem minni framlegðar er vænst hjá tæpum helmingi (48%) fyrirtækjanna. Horfur eru neikvæðastar í sjávarútvegi, þar sem um 67% fyrirtækja vænta minni (43%) eða mikið minni (24%) framlegðar og einungis um 5% búast við nokkurri aukningu. Í öðrum atvinnugreinum eru horfur að mestu áþekkar því sem fram kemur fyrir atvinnulífið í heild.

Fjárfesting

Ljóst er að fjárfesting í atvinnulífinu hefur algjörlega hrunið í kjölfar falls viðskiptabankanna í október síðastliðnum. Stjórnendur hjá um 73% þeirra fyrirtækja sem svara könnuninni gera ráð fyrir að fjárfesting á árinu 2009 verði minni (25%) eða miklu minni (48%) en á árinu 2008, en aðeins um 4% fyrirtækja búast við aukningu. Er þessi mynd ámóta dökk í öllum atvinnugreinum. Gefa svör fyrirtækjanna um fjárfestingarútgjöld þeirra á árunum 2008-2010 til kynna að fjárfesting á árinu 2009 dragist saman um u.þ.b. 45% að nafnvirði eða um 53% að raunvirði miðað við spá um tæplega 5% verðhækkun fjárfestinga milli ára.

Til samanburðar má geta þess að í þjóðhagsáætlun fjármálaráðuneytis frá janúar á þessu ári er gert ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting dragist saman að magni til um 27% á þessu árið miðað við árið 2008. Áætlanir fyrirtækjanna fyrir árið 2010 felur síðan í sér verulega aukningu fjárfestingar á ný, en þær hljóta þó að teljast mjög óvissar.

Spá um verðbólgu, stýrivexti og gengi

Um 40% fyrirtækja gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki á næstu tólf mánuðum en þó ívið fleiri eða 42% að hún lækki. Þegar svör fyrirtækjanna eru virt í heild spá þau að jafnaði 2% verðhjöðnun næstu 12 mánuðina. Í samsvarandi könnun í desember sl. spáðu fyrirtæki hins vegar 16,4% verðbólgu næsta árið. Könnunin sýnir því að verðbólguvæntingar stjórnenda fyrirtækja hafa lækkað mikið að undanförnu. Þessi viðhorf styrkjast þegar litið er til mats þátttökufyrirtækja um verðbreytingu á eigin framleiðsluvörum og þjónustu næstu sex mánuði, en þar hefur einnig orðið veruleg breyting frá fyrri könnunum. Einungis um 17% fyrirtækja búast við verðhækkun á næstu sex mánuðum. Í samsvarandi könnun í október sl. gerðu 69% fyrirtækja ráð fyrir hækkun.

Stýrivextir Seðlabankans eru nú 15,5%, en þeir voru 17% þegar könnunin var gerð. Stjórnendur voru beðnir að spá því hverjir stýrivextir verði eftir 12 mánuði eða í mars 2010. Að jafnaði er því spáð að þeir verði þá 8,4%.

Tæplega þrír fjórðu (74%) þátttakenda í könnuninni gera ráð fyrir að krónan muni styrkjast á næstu tólf mánuðum, aðeins um 13% búast við að hún muni veikjast og um 13% að gengi hennar verði óbreytt.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent Gallup. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með um 10 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 3. - 22. mars 2009 og voru spurningar alls 32. Í upphafleg úrtaki voru 500 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun), en í endanlegu úrtaki voru 446 fyrirtæki. Svarhlutfall var 66,8%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Skýrsla Capacent Gallup (PDF)

Samtök atvinnulífsins