Efnahagsmál - 

22. Maí 2013

Mögulega verði samið til skamms tíma

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mögulega verði samið til skamms tíma

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins telja skynsamlegt að samið verði til skamms tíma við gerð næstu kjarasamninga vegna óvissu í efnahagsmálum. Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í dag. Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út í lok nóvember en Samtök atvinnulífsins hafa sett fram þá hugmynd að skammtímasamningar gætu t.d. gilt til áramóta 2014-15. Tíminn fram að því verði notaður til að leggja grunn að samkomulagi til lengri tíma.

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins telja skynsamlegt að samið verði til skamms tíma við gerð næstu kjarasamninga vegna óvissu í efnahagsmálum. Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í dag. Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út í lok nóvember en Samtök atvinnulífsins hafa sett fram þá hugmynd að skammtímasamningar gætu t.d. gilt til áramóta 2014-15. Tíminn fram að því verði notaður til að leggja grunn að samkomulagi til lengri tíma.

Í Morgunblaðinu í dag segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, mikla óvissu um gengisstöðugleika á næstu árum.

"Við höfum verið efins um að það séu forsendur til þess að reyna að ráðast í gerð langtímasamnings við þessar kringumstæður."

"Við höfum velt fyrir okkur ýmsum möguleikum. Eitt þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir er sú mikla óvissa sem er um þróun hagkerfisins næstu misserin, hvernig við munum bera okkur að og hvernig til tekst með samninga við kröfuhafa bankanna," segir hann. Mikilvægast sé að koma á stöðugleika í gengismálum og að ríkisfjármálin stuðli að því að náð verði og viðhaldið efnahagslegum stöðugleika," segir Þorsteinn.

Í samtali við Morgunblaðið segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að rétt geti verið að byrja á því að ganga frá einhvers konar skammtímasamningi á meðan menn átta sig á hver þróunin verður og hvernig ný ríkisstjórn ætlar að taka á verkefnunum, áður en menn skuldbinda sig til lengri tíma.

Til mikils að vinna
Í gær kynntu aðilar vinnumarkaðarins skýrslu um vinnumarkað og skipulag kjarasamninga í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Markmið með úttektinni er að leita fyrirmynda í nágrannaríkjum Íslands sem geti nýst við að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga hér á landi þannig að þeir stuðli að stöðugu verðlagi, auknum kaupmætti launa og samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Í samtali við Morgunblaðið segir Þorsteinn Víglundsson, mjög gagnlegt að fá upplýsingar um undirbúning og verklag við gerð kjarasamninga á Norðurlöndum. Það sé jafnframt jákvætt að allir séu reiðubúnir að vinna áfram að þessu verkefni.

"Það er augljóst af þeirri skýrslu sem þarna var kynnt að ávinningur Norðurlandanna af þessu verklagi hefur verið verulegur," segir hann. Þorsteinn bendir á að á níunda áratugnum glímdu önnur lönd á Norðurlöndum við svipuð vandamál og Íslendingar undanfarin tíu ár. "Þar var nærri 6% verðbólga að meðaltali á hverju ári, fast að 7% launabreytingar á hverju ári og gengisfellingar. Þó þeir næðu árangri í að auka kaupmátt var hann þó talsvert lakari en þessi lönd hafa náð á síðustu 20 árum," segir hann.

Í dag búa þessi lönd við góðan hagvöxt, mikinn verðstöðugleika, þar sem verðbólga er 1 ½% að jafnaði á undanförnum áratug og  kaupmáttur hefur vaxið jafnt og þétt.

"Við teljum til mikils að vinna að komast inn í svona umhverfi og verklag í tengslum við kjarasamninga. Það mun líka mæða mikið á ríkinu og ríkisfjármálunum í þeim efnum."

Byggt á umfjöllun Morgunblaðsins 22.5. 2013

Tengt efni:

Kjarasamningar og vinnumarkaður á Norðurlöndum

Umfjöllun ruv.is 22.5. 2013

Samtök atvinnulífsins