Efnahagsmál - 

03. Júlí 2008

Mjög slæmar aðstæður í efnahagslífinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mjög slæmar aðstæður í efnahagslífinu

Um 76% stjórnenda í 400 stærstu fyrirtækjum landsins telja að aðstæður í efnahagslífinu séu frekar eða mjög slæmar, um 22% telja þær hvorki góðar né slæmar og einungis 2% telja þær góðar. Þetta kemur fram í ársfjórðungslegri könnun Capacent Gallup um stöðu og horfur í atvinnulífinu sem gerð er fyrir SA, Seðlabankann og fjármálaráðuneytið. Þegar litið er hálft ár fram í tímann eru efnahagshorfur á hinn bóginn skárri. Telja stjórnendur hjá um 32% fyrirtækjanna að aðstæður verði þá betri, um 26% vænta óbreytts ástands en um 42% búast við verri aðstæðum. Vísitala efnahagslífsins miðað við núverandi aðstæður er lægri en áður hefur komið fram í sambærilegum könnunum, allt frá september 2002. Meirihluti fyrirtækjanna býst við óbreyttum starfsmannafjölda en um fjórðungur hyggst fækka starfsfólki.

Um 76% stjórnenda í 400 stærstu fyrirtækjum landsins telja að aðstæður í efnahagslífinu séu frekar eða mjög slæmar, um 22% telja þær hvorki góðar né slæmar og einungis 2% telja þær góðar. Þetta kemur fram í ársfjórðungslegri könnun Capacent Gallup um stöðu og horfur í atvinnulífinu sem gerð er fyrir SA, Seðlabankann og fjármálaráðuneytið. Þegar litið er hálft ár fram í tímann eru efnahagshorfur á hinn bóginn skárri. Telja stjórnendur hjá um 32% fyrirtækjanna að aðstæður verði þá betri, um 26% vænta óbreytts ástands en um 42% búast við verri aðstæðum. Vísitala efnahagslífsins miðað við núverandi aðstæður er lægri en áður hefur komið fram í sambærilegum könnunum, allt frá september 2002. Meirihluti fyrirtækjanna býst við óbreyttum starfsmannafjölda en um fjórðungur hyggst fækka starfsfólki.

Aðstæður í efnahagslífinu

Niðurstöður úr könnuninni má draga saman í vísitölu efnahagslífsins, sem sýnir mat fyrirtækja á núverandi efnahagsástandi og horfum eftir sex mánuði. Til samanburðar eru á eftirfarandi mynd sýndar niðurstöður um sama efni úr fyrri könnunum. Lægsta gildi vísitölunnar er 0, þegar allir telja aðstæður verri en hæst 200, þegar allir telja þær betri. Jafnvægi er við gildið 100, þegar jafn margir telja aðstæður betri og þeir sem telja þær verri.

Myndin ber skýrt með sér að aðstæður í efnahagslífinu hafa farið versnandi frá síðasta hausti, sérstaklega frá því í mars á þessu ári. Er vísitala efnahagslífsins miðað við núverandi aðstæður lægri en áður hefur komið fram í sambærilegum könnunum, sem ná allt frá september 2002. Aðstæður eru sem fyrr sagði heldur skárri þegar horft er sex mánuði fram í tímann og raunar betri en undanfarna sex mánuði.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu 

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu 

Þegar litið er til þess hvernig mat á núverandi aðstæðum í efnahagslífinu skiptist eftir atvinnugreinum er athyglisvert að lítill munur er þar á, eins og eftirfarandi mynd sýnir.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

 Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu 

Horfur um aðstæður í efnahagslífinu þegar litið er sex mánuði fram í tímann eru sömuleiðis fremur áþekkar þegar litið er til skiptingar eftir atvinnugreinum, en þó einna jákvæðastar í fjármála- og tryggingastarfsemi, eins og eftirfarandi mynd sýnir.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu 
Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

Staða og horfur á vinnumarkaði

Könnunin sýnir að mjög hefur dregið úr spennu á vinnumarkaði. Hjá einungis 19% svarenda er nú skortur á starfsfólki en mikill meirihluta þeirra eða 81% telja sig hins vegar hafa nægjanlegt starfsfólk. Eru aðstæður að þessu leyti svipaðar á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Það er helst í iðnaði og framleiðslu (25%) og ýmissi sérhæfðri þjónustu (34%) að nokkur skortur er á starfsfólki, en í öðrum atvinnugreinum telur yfir 90% þátttökufyrirtækja framboð vinnuafls vera nægjanleg.

Ráðningaráform á næstu sex mánuðum eru minni en fram hefur komið í könnunum undanfarin 4-5 ár eða svo. Um 16% þátttökufyrirtækja ráðgera fjölgun og um 26% búast við fækkun, en meirihluti fyrirtækjanna (58%) býst þó við óbreyttum starfsmannafjölda. Horfur um breytingar á starfsmannafjölda eru þó nokkuð breytilegar eftir atvinnugreinum, eins og eftirfarandi mynd sýnir. Er útlit fyrir mesta fækkun í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu sem og í byggingarstarfsemi og veitum. Eina atvinnugreinin þar sem búist er við fjölgun er ýmis sérhæfð þjónusta.

Fróðlegt er að skoða þróun vinnumarkaðarins undanfarin sex ár eða svo eins endurspeglast í svörum í könnuninni á þessu tímabili um áformaðar breytingar á starfsmannafjölda næstu sex mánuði.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu


Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

Kemur á myndinni með skýrum hætti fram hve mjög hefur dregið úr spennu á vinnumarkaði síðustu mánuðina og áform um ráðningar næstu sex mánuði dragast saman um leið og líklegum uppsögnum fjölgar. Er það í fyrsta sinn nú sem hlutfallslega fleiri fyrirtæki búast við fækkun starfsmanna (26%) en þau sem gera ráð fyrir fjölgun.

Innlend eftirspurn næstu sex mánuði

Um 41% fyrirtækja í könnuninni telja að innlend eftirspurn muni minnka nokkuð eða mikið á næstu sex mánuðum, um 45% búast við óbreyttri eftirspurn en einungis um 14% búast við nokkurri aukningu eftirspurnar. Eins og eftirfarandi mynd sýnir hefur bjartsýni um þróun innlendrar eftirspurnar farið minnkandi undanfarin hálft ár, rétt eins og mat á aðstæðum í efnahagslífinu.

Væntingar um þróun innlendrar eftirspurnar á næstu sex mánuðum er almennt neikvæð í öllum atvinnugreinum eins og eftirfarandi mynd sýnir.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

 Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu 

Erlend eftirspurn næstu sex mánuði

Horfur um eftirspurn í útflutningsstarfsemi eru mun jákvæðari en á innanlandsmarkaði. Telur um 42% þátttakenda að eftirspurn á erlendum mörkuðum muni aukast nokkuð eða mikið á næstu sex mánuðum, um 48% telur eftirspurn verða óbreytta, en um 10% vænta samdráttar. Horfur um erlenda eftirspurn eru engu að síður lakari en undanfarin misseri, eins og eftirfarandi mynd sýnir.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

Í iðnaði og framleiðslu búast 57% fyrirtækjanna við aukinni erlendri eftirspurn, 43% gera ráð fyrir óbreyttri eftirspurn og ekkert fyrirtækjanna býst við samdrætti í erlendri eftirspurn. Í sjávarútvegi er myndin blendnari, en þar gera 32% svarenda ráð fyrir nokkurri aukningu í eftirspurn, um 58% búast við óbreyttri stöðu en um 11% vænta samdráttar.

EBITDA-framlegð

Í könnuninni er spurt um breytingar á EBITDA-framlegð (þ.e. hagnaði fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir) undanfarna sex mánuði og líklegar breytingar næstu sex mánuði. Þegar litið er til atvinnulífsins í heild er niðurstaðan í jafnvægi miðað við þróun undanfarna sex mánuði. Framlegð jókst hjá um 34% þátttökufyrirtækja, dróst saman hjá um 30% þeirra og var óbreytt hjá öðrum 36%. Eins og eftirfarandi mynd sýnir er staðan þó talsvert breytileg eftir atvinnugreinum og var útkoman langhagstæðust í sjávarútvegi, þar sem framlegð jókst hjá um 60% fyrirtækjanna. Á hinn bóginn versnaði framlegð hjá um 60% fyrirtækja í fjármála- og tryggingastarfsemi. Má ætla að gengislækkun krónunnar og erfiðleikar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum séu meðal skýringa á þessari breytilegu þróun.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu
Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu 


Þegar spurt er um líklegar breytingar á framlegð sex mánuði fram í tímann er staðan talsvert lakari. Telja um 42% fyrirtækjanna að framlegð muni þá minnka, um 35% búast við óbreyttri framlegð en aðeins um 23% búast við aukningu. Breytileiki eftir atvinnugreinum er þó minni þegar horft er fram í tímann, eins og eftirfarandi mynd sýnir.

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu

Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu 

Verðbólguspá

Stjórnendur fyrirtækjanna voru beðnir að spá fyrir um hækkun vísitölu neysluverðs. Er niðurstaðan sú að þeir spá að meðaltali 7,2% verðbólgu næstu 12 mánuði.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent Gallup. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með um 10 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 29. maí til 19. júní 2008 og var hún með einfaldara sniði með 9 spurningum. Í upphaflegu úrtaki voru 500 stærstu fyrirtæki landsins miðað við heildarlaun, en í endanlegu úrtaki voru 452 fyrirtæki. Var úrtak könnunarinnar endurnýjað að þessu sinni og er það stærra en í fyrri könnunum. Svarhlutfall var 46,2%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðila að könnuninni á niðurstöðum hennar.

Sjá nánar:

Skýrsla Capacent Gallup um niðurstöðu könnunarinnar (PDF)

Samtök atvinnulífsins