Mjög brýnt að samkeppnislögin verði endurskoðuð

Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs SA, segir í samtali við Fréttablaðið að samtökin telji mjög brýnt að samkeppnislögin verði endurskoðuð.

"Við höfum lengi bent á að viðmiðunarmörk vegna samruna fyrirtækja eru hér alltof lág, bæði í samanburði við útlönd og í ljósi sífellt alþjóðlegri samkeppni. Það á ekki að vera hlutverk samkeppnisyfirvalda að stýra uppbyggingu atvinnulífsins heldur á það að beinast gegn mismunun, til dæmis vegna opinberrar íhlutunar og styrkja, og gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu," segir Gústaf.

Frá síðustu endurskoðun laganna hafa að sögn Gústafs komið í ljós verulegir ágallar á réttarfari samkeppnismála hérlendis. "Við leggjum til að Samkeppnisráð verði lagt niður, jafnræði eflt og andmælaréttur tryggður. Við viljum miklu skýrari ákvæði um húsleit og haldlagningu gagna. Ennfremur þarf að færa sektarheimildir til fyrra horfs þannig að Samkeppnisstofnun sé heimilt en ekki skylt að leggja á sektir," segir Gústaf.

Einnig vilja SA að setta verði ákvæði um fyrningarfrest brota og viðmiðunarmörk svonefndrar minniháttarreglu vegna samráða í fyrirtækjum verði hækkuð til samræmis við íslenskar aðstæður, eins og fram kemur í Fréttablaðinu.

Sjá fleiri tillögur SA og rökstuðning fyrir þeim í skýrslu samkeppnislagahóps SA (pdf-skjal), þar sem er að finna samanburð á íslenskri og erlendri samkeppnislöggjöf og tillögur eru gerðar til úrbóta.