Efnahagsmál - 

16. Ágúst 2006

Misráðin vaxtahækkun

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Misráðin vaxtahækkun

Hækkun Seðlabankans á stýrivöxtum í 13,5% er misráðin ákvörðun. Í framhaldi af samkomulagi SA við ASÍ og landssamböndin 22. júní hafa væntingar í efnahagslífinu gjörbreyst. Nú eru fyrirtæki og almenningur að búa sig undir samdrátt í eftirspurn og hægagang í atvinnulífinu. Neysluvísitalan hækkaði minna í tveimur síðustu mælingum en búast hefði mátt við og umsvif á fasteignamarkaðnum minnka hraðar en reikna hefði mátt með.

Hækkun Seðlabankans á stýrivöxtum í 13,5% er misráðin ákvörðun. Í framhaldi af samkomulagi SA við ASÍ og landssamböndin 22. júní hafa væntingar í efnahagslífinu gjörbreyst. Nú eru fyrirtæki og almenningur að búa sig undir samdrátt í eftirspurn og hægagang í atvinnulífinu. Neysluvísitalan hækkaði minna í tveimur síðustu mælingum en búast hefði mátt við og umsvif á fasteignamarkaðnum minnka hraðar en reikna hefði mátt með.

Aðgerðir gegn þenslu að skila árangri

Allt bendir nú til þess að tilraun SA og ASÍ til þess að stýra launaþróuninni og aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að draga úr eftirspurn séu að skila árangri fyrr og betur en vonast var eftir. Vísitala neysluverðs hækkaði innan við 1% í júní og innan við 0,5% í júlí jafnvel þótt sérstakar lækkanir vegna útsöluáhrifa séu teknar út úr mælingunum. Í væntingum SA og ASÍ var vonast eftir að hækkun neysluvísitölunnar á 3. ársfjórðungi yrði innan við 3,7% þannig að vísitalan þarf að hækka um meira en 3% í ágúst og september til þess að fara út fyrir þann ramma sem settur var í júnísamkomulaginu. Ekkert bendir til þess að neysluvísitalan hækki svo mikið heldur er miklu frekar að búast við því að verðbólgan verði verulega minni.

Rangar forsendur Seðlabankans

Í forsendum Seðlabankans fyrir vaxtahækkuninni þann 6. júlí og svo nú í dag er gengið út frá því að launaskrið sé verulegt í framhaldi af júnísamkomulaginu. Eftir því sem SA best vita um þróun á vinnumarkaðnum eftir samtöl við ótal fyrirtæki er einmitt hið gagnstæða að gerast. Fyrirtæki reyna að fara sem nákvæmast eftir samkomulaginu og engin launaskriðsbylgja hefur orðið. Samkomulagið hefur almennt beint launaþróuninni í ákveðinn farveg sem var að mörgu leyti óhjákvæmilegur vegna þróunar á vinnumarkaðnum og verðbólgunnar. Spár Seðlabankans um framvindu á vinnumarkaðnum byggja því á mislestri á aðstæðum og röngu mati á launaþróuninni.

Forsendur Seðlabankans eru ennfremur þær að hagvöxtur á næsta ári verði 1,8% sem er hærri spá en fyrr á árinu þegar bankinn spáði innan við 1% aukningu landsframleiðslu á árinu 2007. Sérstaklega er spá Seðlabankans um aukningu í íbúðafjárfestingum á næsta ári undrunarefni í ljósi þess að met verður slegið í þessum framkvæmdum á árinu 2006 og öll teikn eru á lofti um að eftirspurn á markaðnum sé verulega að dragast saman. Bankinn hefur í engu breytt þessari spá sinni við vaxtaákvörðunina nú.

Ætti að lækka vexti

Seðlabankinn byggir því vaxtahækkanirnar 6. júlí og nú í dag á röngu mati á þróun mála á tveimur lykilmörkuðum hagkerfisins, vinnumarkaðnum og fasteignamarkaðnum. Þetta er sérstaklega hættulegt þegar horft er til þróunar verðbólgunnar tvö til þrjú ár fram í tímann. Efnahagslífið er nú komið í niðursveiflu og bankinn ætti að vera kominn í vaxtalækkanaferil. Verðbólgan er á niðurleið vegna samkomulags SA og ASÍ og aðgerða ríkisstjórnarinnar. Júnísamkomulagið gerði ráð fyrir því að botninum yrði náð á síðari hluta næsta árs og þá væri verðbólgan komin að 2,5% markmiði Seðlabankans og jafnvægi komið á í efnahagslífinu. Allt bendir til þess að þetta gerist fyrr og að botninn verði jafnvel strax á fyrstu mánuðum næsta árs.

Gæti magnað verðbólguna 2008

Ef allt er eðlilegt eiga vextir að vera í lágmarki í botni hagsveiflunnar en þá virðist svo sem Seðlabankinn ætli að hafa þá í hámarki. Þegar litið er til 2008 og lengra fram í tímann má búast við nýrri uppsveiflu jafnvel þótt aðeins hluti af áformuðum stjóriðjuframkvæmdunum verði að veruleika. Því er brýnt að Seðlabankinn sé í stakk búinn til þess að hefja nýjan vaxtahækkunarferil þegar sú uppsveifla fer í gang. En eftir því sem bankinn hagar sér er sýnt að hann verði enn með vextina mjög háa þegar þetta fer að gerast og jafnvel enn í lækkunarferlinu. Seðlabankinn gæti því auðveldlega magnað uppsveifluna og verðbólguna á árinu 2008 og gert að engu þá atlögu að verðbólgunni sem SA, ASÍ og ríkisstjórnin hafa staðið fyrir. Í besta falli yrði vaxtatækið lítt virkt þar sem vextirnir væru svo háir að það væri varla unnt að hækka þá frekar.

Brýnt að Seðlabankinn taki mark á teiknum um niðursveiflu

Brýnt er að Seðlabankinn gangi í takt við efnahagslífið og taki mark á öllum þeim teiknum sem nú eru um niðursveifluna í efnahagslífinu. Seðlabankinn verður að hefja vaxtalækkunarferil strax við næstu vaxtaákvörðun þannig að hann gegni hlutverki sínu með eðlilegum hætti.

Samtök atvinnulífsins