Efnahagsmál - 

07. Febrúar 2002

Misjafnar reglur um innkaup sveitarfélaga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Misjafnar reglur um innkaup sveitarfélaga

Tilgangur laga um opinber innkaup er "að tryggja jafnræði bjóðenda við opinber innkaup og stuðla að virkri samkeppni og hagkvæmni í opinberum rekstri." Engu að síður eru sveitarfélög undanskilin stórum hluta laganna sem snýr að innkaupum undir viðmiðunarfjárhæðum EES-svæðisins. Þannig ber ríkinu að bjóða út innkaup á vörum yfir 5 milljónum króna og kaup á þjónustu og verkum yfir 10 milljónum króna. Sveitarfélög þurfa hins vegar ekki að bjóða út vöru- og þjónustukaup undir 16 milljónum króna né verkframkvæmdir undir 397 milljónum króna. Ætla má að opinber innkaup sveitarfélaga fyrir milljarða króna ár hvert, sem ekki eru boðin út nú, yrðu útboðsskyld ef umrædd ákvæði laganna næðu til þeirra.

Tilgangur laga um opinber innkaup  er "að tryggja jafnræði bjóðenda við opinber innkaup og stuðla að virkri samkeppni og hagkvæmni í opinberum rekstri." Engu að síður eru sveitarfélög undanskilin stórum hluta laganna sem snýr að innkaupum undir viðmiðunarfjárhæðum EES-svæðisins. Þannig ber ríkinu að bjóða út innkaup á vörum yfir 5 milljónum króna og kaup á þjónustu og verkum yfir 10 milljónum króna. Sveitarfélög þurfa hins vegar ekki að bjóða út vöru- og þjónustukaup undir 16 milljónum króna né verkframkvæmdir undir 397 milljónum króna. Ætla má að opinber innkaup sveitarfélaga fyrir milljarða króna ár hvert, sem ekki eru boðin út nú, yrðu útboðsskyld ef umrædd ákvæði laganna næðu til þeirra.

Ólíkar umferðarreglur
Sveitarfélögin hafa þannig frjálsar hendur um slík viðskipti og hefur þessu gjarnan verið líkt við að ekki gildi sömu umferðarreglur milli sveitarfélaga. SA berast iðulega kvartanir frá fyrirtækjum vegna þessa misjafna viðskiptaumhverfis. Markmiðið með innri markaði EES var að samræmdar reglur giltu á öllu svæðinu. Á Íslandi er hins vegar í gildi mismunandi viðskiptaumhverfi milli sveitarfélaga, sem er óviðunandi.

Úrbætur í nánd?
Lögin um opinber innkaup voru samþykkt á Alþingi í maí 2001. Í umsögn um frumvarpið gagnrýndu SA líkt og fleiri að stór hluti frumvarpsins tæki ekki til innkaupa á vegum sveitarfélaga og sögðu brýnt að þróa þau mál áfram. Pólitískur áhugi til þess kom jafnframt fram í meðförum þingsins og jafnframt hefur t.d. afstaða Reykjavíkurborgar verið jákvæð í þá veru. Á fundi Samtaka iðnaðarins um frumvarpið í apríl síðastliðnum sagði Helga Jónsdóttir borgarritari þannig að öll efnisleg rök væru fyrir því að sömu reglur giltu á landinu öllu. Nú hefur fjármálaráðherra skipað nefnd til að gera tillögur um gildissvið laganna gagnvart sveitarfélögum og er það mikið fagnaðarefni. Vonandi er þess ekki langt að bíða að sveitarfélögin verði sett undir þau ákvæði laganna sem snúa að innkaupum undir viðmiðunarfjárhæðum EES-svæðisins og að sömu umferðarreglur muni þannig gilda um öll opinber innkaup hér á landi.

Samtök atvinnulífsins