Vinnumarkaður - 

08. desember 2014

Minnsta verðbólga í 60 ár

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Minnsta verðbólga í 60 ár

Verðbólgan hefur farið hjaðnandi frá gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrr á árinu og er nú innan við 1%. Verðbólga ársins 2014 verður sú minnsta í 60 ár á Íslandi og verðtryggðar skuldir heimilanna hækka minna á þessu ári en á nokkru ári frá því verðtryggingin var tekin upp fyrir 35 árum. Á þetta benti Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, á fjölmennum félagsfundi SA þar sem rætt var um stöðuna á vinnumarkaði og komandi kjarasamninga.

Verðbólgan hefur farið hjaðnandi frá gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrr á árinu og er nú innan við 1%. Verðbólga ársins 2014 verður sú minnsta í 60 ár á Íslandi og verðtryggðar skuldir heimilanna hækka minna á þessu ári en á nokkru ári frá því verðtryggingin var tekin upp fyrir 35 árum. Á þetta benti Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, á fjölmennum félagsfundi SA þar sem rætt var um stöðuna á vinnumarkaði og komandi kjarasamninga.

„Í síðustu kjarasamningunum tókst okkur að ná skynsamlegri niðurstöðu sem hefur skilað launafólki auknum kaupmætti,“ sagði Björgólfur og sagðist þeirrar skoðunar að SA og ASÍ eigi að halda fast við þá stefnu sem mörkuð var í síðustu kjarasamningum. Hann sagði þó fleira þurfa að koma til.

„Við verðum að ætlast til þess að samningsaðilar á opinberum vinnumarkaði feti sömu leið. Telji menn nauðsynlegt að veita einstökum hópum opinberra starfsmanna sérstakar launahækkanir þá verður það að gerast með hagræðingu og lækkun kostnaðar. Engin leið er til að samningsaðilar á almennum vinnumarkaði sætti sig við skatta- eða gjaldskrárhækkanir, sem rýra kaupmátt almenns launafólks og samkeppnisstöðu fyrirtækja, sem tæki til að greiða fyrir innistæðulausar launahækkanir hjá hinu opinbera.“

Kaupmáttur hefur aukist

Björgólfur sagði ekki hægt að taka bæta lífskjör fólks með stórum stökkum í kjarasamningum. „Slík stökk leiða óhjákvæmilega til falls síðar. Reynsla annarra þjóða sýnir að unnt sé að bæta kjör fólks hægt en örugglega í samræmi við getu atvinnulífs í alþjóðlegri samkeppni. Með þetta að leiðarljósi hófum við undirbúning að kjarasamningum fyrir rúmu ári síðan. Við töldum unnt að ná samningum til skamms tíma sem myndu marka upphaf að nýju tímabili stöðugleika í efnahagsmálum og aukinni samkeppnishæfni og verðmætasköpun atvinnulífsins. Í kjölfarið myndi kaupmáttur aukast og lífskjör almennings batna. Þetta hefur gengið eftir.“

Óvissa framundan
Björgólfur lagði á það ríka áherslu að góðum árangri á vinnumarkaði yrði fylgt eftir og stöðugleikinn sem náðst hefur festur í sessi. „Stöðugleiki er nauðsynlegur til að fyrirtækin geti gert áætlanir til lengri tíma í trausti þess að atvinnulíf, verkalýðshreyfingin og ekki síst stjórnvöld móti efnahagsstefnu sem tryggir stöðugt gengi, lága verðbólgu, afnám gjaldeyrishafta og rekstrarskilyrði sem eru sambærileg því sem best gerist í nágrannalöndunum. En það er ekki gefið að það takist.“

Formaður Samtaka atvinnulífsins sagði fullreynt að semja um launahækkanir langt umfram það sem framleiðni fyrirtækjanna í land leyfir. „Sú leið er löngu fullreynd og leiðir einungis til aukinnar verðbólgu og hækkunar á skuldum heimilanna í landinu.“ Björgólfur sagði jafnframt óeðlilegt að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga semji um mun hærri launahækkanir en á almenna markaðnum. „Sá kostnaður verður á endanum sóttur í vasa skattgreiðenda.“

Launaskrið ógnar stöðugleika

Það er ýmislegt sem getur grafið undan þeirri stefnu sem hefur verið mörkuð. Í kjarasamningum er gert ráð fyrir ákveðnu launaskriði og í síðustu samningum var t.d. miðað við að heildarlaunabreytingar á samningstímanum til loka febrúar 2015 yrðu innan við 4% og þar af væri launaskriðið 0,75%.

„Við sjáum það nú á launavísitölunni að launaskrið á síðustu 12 mánuðum er um 2% meira en gert var ráð fyrir. Launaskrið veldur ekki síður verðbólgu en umsamdar launahækkanir og ógnar verðstöðugleika á komandi misserum. Ekkert tilefni er fyrir svo miklu launaskriði, hvorki aðstæður á vinnumarkaði né aukin framleiðni eða verðmætasköpun. Umtalsvert launaskrið samræmist ekki áherslum Samtaka atvinnulífsins, það knýr upp launahækkanir í kjarasamningum og hækkun launataxta umfram það sem svigrúm er fyrir. Launaskrið grefur undan stefnunni sem hefur verið mörkuð.“

Björgólfur ræddi líka um laun stjórnenda.

„Við heyrum stöðuga gagnrýni á að kjör stjórnenda hækki umfram það sem gildir um almennt launafólk. Þrátt fyrir að laun stjórnenda hafi þróast svipað og heildarlaun á almennum vinnumarkaði  undanfarinn áratug eða svo þá verðum við að sýna gott fordæmi. Ábyrgð hvers okkar er rík. Við getum ekki skilið okkur sjálf frá þeim breytingum sem verið er að innleiða á íslenskum vinnumarkaði.“

Samskipti við verkalýðshreyfingu og ríkisstjórn

Að lokum ræddi formaður SA um samskipti við verkalýðhreyfinguna sem hann sagði hafa verið góð og hreinskiptin.  Björgólfur tók undir gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar á samskipti við ríkisstjórnina.

„Nú bregður svo við að viðsemjendur okkar kvarta vegna erfiðra samskipta við ríkisstjórnina og við getum tekið undir það. Mikilvæg réttindi og hagsmunir á vinnumarkaði eru tryggðir með lögum eftir að samið hefur verið um þá í almennum kjarasamningum til að tryggja að allir fái notið réttindanna. Það þýðir ekki að löggjafinn geti breytt samningsbundnum réttindum að vild. Ríkisstjórnin verður að draga þessar skerðingar til baka. Annars munu launakröfur magnast og stuðla að skipbroti efnahagsstefnunnar. Það er nauðsynlegt að fullur trúnaður og traust ríki í þessum þríhliða samskiptum um málefni vinnumarkaðarins. Allir verða að vinna saman til að farsæl niðurstaða náist.“

Samtök atvinnulífsins