Efnahagsmál - 

06. janúar 2010

Minnkandi líkur á hagvexti 2010

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Minnkandi líkur á hagvexti 2010

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, setur spurningarmerki við að hagvöxtur náist á þessu ári, í ljósi ákvörðunar forseta Íslands um að skrifa ekki undir Icesave-lögin. "Eftir því sem óvissan varir lengur þá minnka líkurnar á því að við komumst upp úr kreppunni á þessu ári."

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, setur spurningarmerki við að hagvöxtur náist á þessu ári, í ljósi ákvörðunar forseta Íslands um að skrifa ekki undir Icesave-lögin. "Eftir því sem óvissan varir lengur þá minnka líkurnar á því að við komumst upp úr kreppunni á þessu ári."

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en Vilhjálmur hefur sagt að ákvörðun forseta Íslands valdi mikilli óvissu og töfum í íslensku atvinnulífi auk þess að valda að öllum líkindum miklu tjóni.

Í Fréttablaðinu í dag segir ennfremur:

"Lykillinn að endurreisninni er að Ísland hafi aðgang að fjármálamörkuðum. Með þessu er óvissa um aðgang ríkisins að lánsfé sem og opinberra fyrirtækja sem hafa verið að leita eftir fyrirgreiðslu. Svo snertir þetta bankana sem þurfa erlent lánsfé til að endurlána inn í atvinnulífið," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

Í Morgunblaðinu í dag segir Vilhjálmur fólk vera áhyggjufullt.  Stórar framkvæmdir, t.d. orkufyrirtækja, séu háðar lánsfé. Nú sé lánshæfismatið farið að lækka og spurning hvort lán frá Evrópska fjárfestingabankanum og Norræna fjárfestingabankanum verði afturkölluð með einhverjum hætti eða kjörum breytt.  "Ég óttast að allt tefjist út af þessu og þá er ég fyrst og fremst að vísa til endurskipulagningar fjármálakerfisins, opnunar landsins gagnvart erlendum fjármálamörkuðum, gjaldeyrishaftanna og alls sem því fylgir. Landið á mikið undir því að íslenska ríkið fái eðlilegan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum. Það sama á við um bankana sem er verið að koma á laggirnar og fyrirtæki beint. Hættan er sú þegar þetta mál er áfram í óvissu að það frestist allt saman."

Sjá einnig fleiri fréttir um málið hér á vef SA

Samtök atvinnulífsins