07. maí 2025

Minna aðhald, hærri skattar og vafasamar forsendur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Minna aðhald, hærri skattar og vafasamar forsendur

Samtök atvinnulífsins hafa sent inn umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030. Síðastliðin ár hafa verið krefjandi í opinberum rekstri. Fordæmalaus áföll hafa kallað á kostnaðarsamar aðgerðir og skapað ójafnvægi í hagkerfinu sem hefur gert yfirvöldum erfitt fyrir við áætlanagerð. Hagkerfið nálgast nú jafnvægi á ný eftir stormasama tíma en erfiðlega gengur að ná afgangi í ríkisrekstri og verðbólgu í markmið.

Ríkisstjórnin leggur höfuðáherslu á að ná stjórn á ríkisfjármálum og skapa skilyrði til lækkunar vaxta með stöðvun hallarekstrar, eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu hennar. Því er gagnrýnisvert að aðhald ríkisfjármálanna skuli minnka frá seinustu áætlun, einkum á fyrsta árinu þegar þörfin er mest. Þannig minnkar stuðningur við peningastefnuna, sem birtist í meiri verðbólgu og hærri vöxtum en ella – þvert á yfirlýst markmið.

Ríkisstjórnin hyggst aftur á móti ná afgangi í ríkisrekstri fyrr en áður var ráðgert. Að mati SA byggja fyrirætlanir um rekstrarafgang á óraunhæfum forsendum um útgjaldaþróun, þar sem ríkisstjórnin hefur ekki boðað markvissar aðgerðir til að styðja við slíka þróun, einkum breytingar á vinnulöggjöf. Þvert á móti hafa þegar tilkynntar aðgerðir falist í enn frekari útgjaldaaukningu en áður var ráðgert, s.s. beintengingu bóta við launavísitölu.

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi í orði boðað hagræðingu í ríkisrekstri er lítið hald í þeim óljósu aðgerðum sem fjallað er um, sem eru ýmist til skoðunar eða ógjörningur að fylgja eftir. Þær eru hvorki sannfærandi né nægilegar enda minnkar skuldahlutfall ríkissjóðs ekkert á kjörtímabilinu. Alfarið er treyst á fordæmalaust góða afkomu sveitarfélaga til að ná fram lækkun á skuldahlutfalli hins opinbera. Á sama tíma er lagt til að tölusett viðmið um lækkun skuldahlutfalls verði fjarlægt úr lögum um opinber fjármál. Eigi markmið um skuldalækkun að ganga eftir krefst það frekari afkomubata eða sölu ríkiseigna.

Rekstrarbati á að nást fram með aukinni verðmætasköpun. Það er því mótsagnakennt að ráðast eigi í aukna skattheimtu á undirstöðuútflutningsgreinar landsins, nú þegar umgjörð alþjóðaviðskipta er í fullkominni upplausn. Tímasetning slíkra skattahækkana er illskiljanleg og síst til þess fallin að styðja við verðmætasköpun.

Auk þess er ljóst að vandi ríkisfjármálanna er útgjaldavandi, ekki tekjuvandi, og því ekki þörf á auknum álögum á landsmenn. Umsvif hins opinbera á Íslandi eru með því mesta sem þekkist á heimsvísu, þrátt fyrir að hér búi ung og herlaus þjóð. Raunveruleg hagræðing og bætt forgangsröðun í ríkisrekstri eru nauðsyn, ekki val, ef tryggja á sjálfbærni opinberra fjármála og réttlátar byrðar milli kynslóða.

Samtökin leggja til að Alþingi geri breytingar á áætluninni áður en hún verður samþykkt.

Hægt er að lesa umsögnina í heild sinni hér.

Samtök atvinnulífsins