Miklar launahækkanir eru meginástæða verðbólgunnar á Íslandi

Áratugum saman hefur verðbólga verið miklu meiri og sveiflukenndari hér á landi en í viðskiptalöndum okkar, að undanteknum fáeinum árum á fyrri hluta tíunda áratugarins. Mikil verðbólga veldur margvíslegu tjóni. Verðskyn brenglast, aðhald að verðlagi og samkeppni minnkar og fjárhagsáætlanir bregðast. Síðast en ekki síst veldur mikil og óstöðug verðbólga háum vöxtum. Verðbólgan dregur þannig úr skilvirkni og samkeppnishæfni atvinnulífsins og heldur niðri lífskjörum fólksins í landinu.

Verðbólga er viðvarandi hækkun verðlags, ekki hækkun í eitt skipti, og er samspil margra þátta. Agaleysi í stjórn opinberra fjármála getur valdið þenslu í efnahagslífinu og verðbólgu. Mistök í stjórn peningamála geta einnig stuðlað að þenslu og sveiflum í gengi krónunnar sem leiðir til verðbólgu. Megin birtingarmynd þenslu á hverjum tíma eru of miklar launahækkanir sem fyrr eða síðar brjótast út í verðhækkunum. En hvað eru of miklar launahækkanir? Svarið er að það eru launahækkanir sem leiða til verðhækkana. Í markmiði um 2,5% verðbólgu á ári felst að launahækkanir umfram það þurfi að mæta með framleiðniaukningu starfsfólks.

Ísland er í alþjóðlegri samkeppni og algerlega háð utanríkisviðskiptum. Útflutningsverðmæti vöru og þjónustu sem framleidd er hérlendis nemur 60% af verðmætasköpuninni (landsframleiðslunni). Útflutningurinn er undirstaða lífskjara og velferðar í landinu. Íslensk fyrirtæki verða að vera samkeppnisfær við keppinauta á erlendum og innlendum markaði. Ef þau eru það ekki bresta undirstöður lífskjaranna.

Of miklar launahækkanir valda mikilli verðbólgu sem að lokum skilar launafólki litlum árangri í formi aukins kaupmáttar og bættra lífskjara. Miklar launahækkanir á tilteknum tíma, sem ekki eru efnahagslegar forsendur fyrir, geta aukið kaupmátt til skamms tíma en þegar til lengdar lætur kemur til kasta efnahagslögmálanna sem segja að kaupmáttur geti ekki aukist meira en framleiðnin, afköst á vinnustund. Miklar launahækkanir leiða til verri samkeppnisstöðu fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni og þegar hún versnar þá leiðir það til þess að eftirspurn eftir vörum þeirra og þjónustu minnkar.

Launahækkanir í viðskiptalöndum Íslendinga eru á bilinu 1,5-2% árin 2012-2013 þegar allt er talið, kjarasamningar og önnur launamyndun. Ef laun á Íslandi hækkar meira en það þá versnar samkeppnisstaðan, að því gefnu að framleiðniþróun sé svipuð á Íslandi og í viðskiptalöndunum. Það er þó ástæða til að ætla að framleiðniþróun sé lakari á Íslandi en í viðskiptalöndunum vegna lítilla fjárfestinga undanfarin ár.

Misheppnuð tilraun 1986 til að kveða niður verðbólgu

Í tengslum við kjarasamninga til tveggja ára, sem undirritaðir voru í febrúar 1986, var gerð tilraun til þess að kveða verðbólgu niður með því að halda gengi krónunnar sterku, þ.e. að gengi krónunnar lækkaði ekki sem nam verðbólgu eða launahækkunum eins og raunin hafði verið um árabil því ella hefðu öll útflutningsfyrirtæki orðið gjaldþrota. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar þann 27.2. 1986 um gengið var eftirfarandi: "Gengi krónunnar verður haldið sem stöðugustu og vextir á óverðtryggðum lánum lækkaðir um rúmlega þriðjung þegar í kjölfar kjarasamninganna, t.d. á almennum skuldabréfum úr 32 í 20 af hundraði. Vextir munu síðan fara lækkandi á næstu mánuðum með hliðsjón af verðlagsþróun". Ríkisstjórnin lofaði einnig að auka útgjöld og lækka skatta, m.a. bílatolla.

Þessi tilraun tókst ekki betur en það að verðlag hækkaði um 40% frá 4. ársfjórðungi 1985 til 4. ársfjórðungs 1987, tímakaup landverkafólks hækkaði um 90% en ríkisstjórnin, sem réði gengi krónunnar, stóð við yfirlýsingu sína og lækkaði gengið aðeins um 9% á þessu tveggja ára tímabili. Niðurstaða þessa ferlis var að útflutningsgreinarnar voru reknar með miklum halla. Rekstrargrundvelli var síðan komið undir þær með gengislækkunum árin 1988 og 1989.

Á meðfylgjandi mynd er þessari þróun lýst fyrir tímabilið 1986-1990. Hún sýnir annars vegar hækkun launakostnaðar á framleidda einingu á Íslandi umfram viðskiptalöndin og hins vegar gengislækkun krónunnar. Í skilgreiningu launakostnaðar á framleidda einingu er framleiðniaukning dregin frá hækkun launakostnaðar, bæði á Íslandi og í viðskiptalöndunum. Tölurnar sýna meðaltöl áranna og uppsafnaðar breytingar frá árinu 1985 til ársins 1990. Myndin sýnir að árið 1986 hækkaði launakostnaður á Íslandi um 20% umfram viðskiptalöndin en gengi krónunnar lækkaði álíka mikið þannig að samkeppnisstaðan var óbreytt það árið.

Á árinu 1987, skattlausa árinu, hafði launakostnaður hækkað um 54% umfram viðskiptalöndin en gengið lækkað um 26%. Á því ári var því mikill kaupmáttur launa og slæm samkeppnisstaða atvinnulífs. Staðan var enn verri árið 1988 þegar launakostnaður hafði hækkað um 87% umfram viðskiptalöndin en gengislækkunin var orðin 45%. Gengislækkanir frá miðju ári 1988 til ársloka 1989 leiðréttu að mestu það misvægi sem átt hafði sér stað en þó þannig að umframhækkun launakostnaðar var ekki að fullu gengin til baka árið 1990. Samandregið þá mistókst þessi tilraun til þess að kveða verðbólguna niður hrapallega. Fyrirliggjandi gögn svara því hvort kom á undan, hænan eða eggið, launabreytingar eða gengislækkanir, á þessum árum. Tilraun til þess að koma á stöðugu gengi brotnaði niður vegna mikilla launahækkana.

Smelltu til að stækka!

Þjóðarsáttin 1990 - tilraun sem skilaði tímabundum en ekki varanlegum árangri

Í tengslum kjarasamninga í febrúar árið 1990 ("Þjóðarsáttin") var á ný gerð tilraun til þess að kveða verðbólguna niður með því að taka upp fast gengi krónunnar. Meðal tilgreindra forsendna samninganna var eftirfarandi ákvæði: "Gengi krónunnar verði stöðugt á samningstímanum, enda standist forsendur samningsins um launa- og verðlagsbreytingar". Þessi forsenda var ekki úr lausi lofti gripin því um fast gengi hafði verið samið í viðræðum aðila vinnumarkaðarins við Seðlabankann og ríkisstjórn. Fastgengisstefnan gekk eftir á árunum 1990-1991, en laun hækkuðu (launavísitala) um 8-9% hvort árið. Gengi krónunnar var síðan fellt nokkuð árin 1992 og 1993 en um mitt það ár var gengisvísitala krónunnar fest við gildið 115 og var svo til óbreytt uns fastgengisstefnan beið skipbrot árið 2001.

Á árinu 2000 hafði launakostnaður á Íslandi á framleidda einingu hækkað um 25% umfram viðskiptalöndin frá árinu 1994 en gengi krónunnar styrkst um 3%. Eftir slíka þróun hlaut gengi krónunnar undan að láta enda hafði viðskiptahalli þjóðarinnar náð áður ókunnum hæðum og nam 10% af landsframleiðslu. Seðlabankinn lét fastgengisstefnuna fyrir róða og tók upp fljótandi gengi og verðbólgumarkmið, eins og gefist hafði vel í ýmsum löndum. Í framhaldinu féll gengi krónunnar og samkeppnisstaða atvinnulífsins lagaðist um skamma hríð. Árið 2002 hófst síðan styrkingartímabil krónunnar sem stóð yfir allt fram að hruni hennar árið 2008.

Á hverju einasta ári á tímabilinu 1995-2007 jókst launakostnaður á framleidda einingu á Íslandi langt umfram það sem gerðist í viðskiptalöndunum. Árið 2007 hafði launakostnaður á Íslandi aukist um 68% umfram viðskiptalöndin frá árinu 1994 en gengið var 2% veikara árið 2007 en 1994. Þessi þróun leiddi til mikils viðskiptahalla stærstan hluta þessa tímabils. Sá viðskiptahalli var fjármagnaður með miklu innstreymi erlends fjármagns, meðal annars með svonefndum vaxtamunarviðskiptum á síðustu árum þenslunnar. Því féll gengi krónunnar ekki fyrr en raun bar vitni. 

Stórfelld hækkun launakostnaðar umfram efnahagslegar forsendur fékk ekki staðist til lengdar og leiðrétting á samkeppnisstöðu atvinnulífsins hlaut að fara fram. Það gerðist árið 2008, bæði í aðdraganda bankahrunsins og eftir það. Meginástæða gengisfallsins lá því ekki í falli bankanna heldur í þeirri þróun sem hér er lýst, að launakostnaður hafði aukist allt of mikið og kaupmáttur launa var svo mikill að viðskiptahalli þjóðarbúsins var algerlega ósjálfbær. Gengi krónunnar hefði fallið mikið þótt bankarnir hefðu ekki farið í þrot.

Þegar litið er yfir þróunina frá 1990 til 2007 þarf enginn að velkjast í vafa um hvort það voru launahækkanir eða gengi krónunnar sem olli verðbólgunni. Það kom hins vegar mikil verðbólgualda í kjölfar þeirrar leiðréttingar á genginu sem átti sér stað árið 2008. Það er öllum ljóst.

Smelltu til að stækka

Samningarnir 2011: Misheppnuð tilraun

Kjarasamningarnir 2011 fólu í sér miklar almennar launahækkanir og tvöfalt meiri sérstakar hækkanir kauptaxta. Auk þess fólust í þeim ýmis konar sérstakar hækkanir til tiltekinna hópa launafólks. Slík hönnun kjarasamninga er uppskrift að launaskriði. Sú varð einnig raunin því launaskrið var mikið á því ári þrátt fyrir að engar sérstakar vinnumarkaðslegar eða efnahagslegar forsendur væru fyrir því. Launahækkanir kjarasamninganna voru ekki byggðar á mati á fyrirliggjandi efnahagsforsendum heldur markmiðum samningsaðila um auknar fjárfestingar og hagvöxt sem ekki varð og fyrirheitum um lækkun tryggingagjalds sem ekki gekk eftir.

Fyrstu kjarasamningarnir voru ekki undirritaðir fyrr en í maí 2011 þrátt fyrir að síðastgildandi samningar hefðu runnið út í nóvemberlok 2010. Í aðdraganda kjarasamninganna var verðbólgukúfurinn í kjölfar hruns gengis krónunnar árin 2008 og 2009 hjaðnaður og verðbólgan í desember 2010 komin undir 2,5% markmið Seðlabankans og hélst þar fyrstu mánuði ársins 2011. Síðan voru gerðir kjarasamningar og þeir framkvæmdir hjá fyrirtækjum og opinberum aðilum. Niðurstaðan varð 9% hækkun launavísitölu og 5% verðbólga árið 2011.

Á meðfylgjandi mynd er sýnd þróun launakostnaðar á framleidda einingu á Íslandi umfram viðskiptalöndin frá árinu 2009 til 2012. Launakostnaðurinn á Íslandi hækkaði um 21% umfram viðskiptalöndin en gengi krónunnar var 1% sterkara árið 2012 en árið 2009. Verðbólgan var að jafnaði um 5% á ári á þessu tímabili.

Ekki verður dregin önnur ályktun af þróuninni eftir efnahagshrunið að Íslendingar séu á sömu vegferð og áður. Laun hækka á hverju ári langt umfram það sem gerist í viðskiptalöndunum, þar sem þau hækka um 2% árlega. Kaupmáttur launa hefur aukist umtalsvert, einkum í lægri enda launaskalans. Þjóðin er skuldsett og þarf að greiða stóran hluta tekna sinna í afborganir og vexti af erlendum skuldum. Undirliggjandi viðskiptajöfnuður nægir ekki til þess að standa í skilum með þessar greiðslur. Haldi sú þróun undanfarinna ára áfram sem hingað til, að launakostnaður á framleidda einingu hækki umfram það sem gerist í viðskiptalöndunum, gerist hið óumflýjanlega, að gengi krónunnar lætur undan og landsmenn fá yfir sig enn eina verðbólgugusuna.

Smelltu til að stækka