Mikilvægt að samkeppni ríki milli háskóla

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, flutti erindi um menntun og atvinnulíf á rannsóknarstefnu Reykjavíkurakademíunnar undir yfirskriftinni "Háskóli í hvert kjördæmi? - hvert stefnir með uppbyggingu háskóla í landinu?"

Í erindi sínu fjallaði Ari m.a. um mikilvægi samkeppnishugsunar í menntakerfinu og þau jákvæðu áhrif sem aukin samkeppni hefði haft á háskólaumhverfið hér á landi, háskóla "án landamæra", breyttar áherslur og möguleika varðandi rannsóknir og samstarf og áhrif fjármögnunar og rekstrarforms.

Kostnaðarþátttaka nemenda vinnur gegn offjárfestingu
Ari sagði mikil takmörk á því að hægt væri að miðstýra þeirri þróun sem til umfjöllunar væri á rannsóknar-stefnunni. Þá væru þjónustusvæði einstakra skóla ekki landfræðilega afmörkuð. Ekki væri æskilegt að reyna að reyna að "stýra" námsvali enda vissi enginn hvaða eftirspurn yrði til staðar í framtíðinni en reyna þyrfti að miðla sem bestum upplýsingum um líklega framtíðarþróun. Ari fjallaði um skólagjöld og sagði kostnaðarþátttöku nemenda m.a. vinna gegn offjárfestingu á háskólasviðinu.

Framboð og eftirspurn
Að lokum sagði Ari æskilegt að uppbygging náms mótaðist á grundvelli framboðs og eftirspurnar og að samkeppni ríkti á milli aðila. Samkeppnin leiddi væntanlega til verkaskiptingar en að sértæk viðbrögð við "markaðsbrestum" kynnu að vera nauðsynleg.

Sjá glærur Ara.