Efnahagsmál - 

12. febrúar 2008

Mikilvægt að fjármálamarkaðir rétti úr kútnum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikilvægt að fjármálamarkaðir rétti úr kútnum

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, ræddi um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag. Sagði hann mikilvægt að fjármálamarkaðir nái að rétta úr kútnum á næstu mánuðum. Takist það hins vegar ekki gæti ástandið orðið erfitt næsta haust. Vilhjálmur segir að það muni hægja smá saman á og ef takist ekki að snúa þróuninni við geti beðið okkar verulegur skellur næsta haust.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, ræddi um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag. Sagði hann mikilvægt að fjármálamarkaðir nái að rétta úr kútnum á næstu mánuðum. Takist það hins vegar ekki gæti ástandið orðið erfitt næsta haust. Vilhjálmur segir að það muni hægja smá saman á og ef takist ekki að snúa þróuninni við geti beðið okkar verulegur skellur næsta haust.

Vilhjálmur undirstrikaði að í tengslum við yfirstandandi kjarasamninga hafi Samtök atvinnulífsins lagt áherslu á að ríkisstjórnin myndi  hefja undirbúning nýrra framkvæmda eða viðhaldsverkefna sem hægt yrði að ráðast í næsta haust með stuttum fyrirvara ef atvinnuleysi fer vaxandi.  Einnig hafi verið lögð áhersla á að ríkið greiði fyrir stórfjárfestingum í atvinnulífinu, t.d. byggingu álvera á Bakka og Helguvík og framleiðsluaukningu í Straumsvík svo eitthvað sé nefnt. Þannig myndi ríkið vinna með atvinnulífinu í gegnum djúpa hagsveiflu og treysta hagvöxtinn til lengri tíma.

Varðandi fjármálageirann segir Vilhjálmur mikilvægast að treysta trúverðugleikann út á við, að það sé ótvírætt að gjaldeyrisvarasjóðir og ríkissjóður geti veitt bönkunum lán og hægt sé að segja að íslenska fjármálakerfið hafi lausafjárstöðu til tveggja ára en ekki eins árs eins og bankarnir eru með. Mikilvægt sé að taka upp heildarumræðu milli ríkisins og Seðlabankans og jafnvel lífeyrissjóðanna um það hvernig hægt er að ná niður skuldatryggingarálögum á íslenska aðila sem séu allt of há miðað við stöðu mála - mikilvægt sé að ná álögunum niður í eðlilegan farveg.

Ennfremur sagði Vilhjálmur  skynsamlegt að lækka skatta á fyrirtæki niður í a.m.k. 15% - það hafi sýnt sig að fyrri skattalækkanir hafi aukið tekjur ríkissjóðs til lengri tíma.

Þá ræddi Vilhjálmur um árangurslausa vaxtastefnu Seðlabankans. Sagði hann að háir stýrivextir séu farnir að skaða ímynd Íslands erlendis og hafi auk þess verið stórskaðlegir íslensku atvinnulífi. Það sé orðið tímabært fyrir bankann að hefja lækkun vaxta. Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er á fimmtudaginn - 14. febrúar.

Horfa má á viðtalið í heild á vef Vísis

Samtök atvinnulífsins