Mikilvæg verkefni næstu ára

Með nýjum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði hefur tekist að afstýra víðtækum verkföllum  og lágmarka tjón af einum hörðustu vinnudeilum á Íslandi í áratugi. Ef rétt er á málum haldið geta samningarnir lagt grunn að auknum kaupmætti og efnahagslegum uppgangi hér á komandi árum. Það er þó ljóst að í samningunum felst mikill kostnaðarauki fyrir atvinnulífið og því er brýnt að aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtækin í landinu og stjórnvöld leggist á eitt um að tryggja að kostnaðarhækkanir vegna kjarasamnings fari ekki beint út í verðlag. Það má gera með hagræðingu fyrirtækja, aukinni áherslu á framleiðni og áherslu stjórnvalda á því að létta byrðum af fyrirtækjum með verulegri einföldun regluverks og lægri skattbyrði.

Auka verður framleiðni
Kjarasamningarnir ná til um 70 þúsund manns á almennum vinnumarkaði Samningarnir eru til langs tíma sem veitir fyrirtækjum svigrúm til að horfa fram á veginn. Framleiðni á Íslandi er undir meðallagi og eitt af því sem þarf að gera til að mæta hærri launakostnaði er að finna leiðir til að auka framleiðni í atvinnulífinu. Vöxtur í hagkerfinu ætti að sama skapi að hjálpa atvinnulífinu að takast á við aukinn kostnað vegna kjarasamninga. Með hagræðingu og aukinni áherslu á framleiðni geta fyrirtækin spornað gegn verðbólguáhrifum kjarasamninga.

Að sama skapi er mikilvægt að stjórnvöld einbeiti sér að því að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins til þess að fyrirtækin geti staðið undir auknum launakostnaði án mikilla verðhækkana eða uppsagna starfsfólks. Vegna stöðu ríkisfjármála er svigrúm ríkisins takmarkað en engu að síður er nauðsynlegt að að lækka tryggingagjaldið sem allir stjórnmálaflokkar voru sammála um fyrir síðustu alþingiskosningar. Þó svo umfangsmiklar aðgerðir ríkisins til að liðka fyrir undirskrift kjarasamninga nú geri það að verkum að lækkun tryggingagjaldsins muni bíða enn um sinnverður aldrei sátt um þá miklu hækkun sem orðið hefur á tryggingagjaldinu hér á undanförnum árum. Atvinnulífið telur sig eiga inni liðlega 2% lækkun tryggingagjalds hið minnsta.

Fjölmörg verkefni
Vonandi tekst að ljúka sem fyrst kjaradeilum sem enn eru í hnút bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði þannig unnt sé að beina kröftunum að öðrum brýnum verkefnum.

Reynslan af hinum hörðu vinnudeilum undanfarinna mánaða undirstrikar að endurskoða þarf fyrirkomulag kjarasamninga á Íslandi og taka upp ný og breytt vinnubrögð. Nærtækast er að horfa til Norðurlandanna og þess fyrirkomulags sem þar er við lýði eins og aðilar vinnumarkaðarins og ríkissáttasemjari hafa fjallað ítarlega um í tveimur nýlegum skýrslum.

Afnám gjaldeyrishafta er eitt mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar og hafa SA ítrekað hvatt til þess á undanförnum árum. Nú virðist vera að rofa til í þeim efnum og er það mikið fagnaðarefni. Losun gjaldeyrishafta er eitt stærsta skrefið í að endurreisa hér alþjóðlega samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir atvinnulífið.

Vonandi verður skipan nýs þjóðhagsráðs til þess að allir aðilar, stjórnvöld og vinnumarkaður, vinni að sömu markmiðum um efnahagslegan stöðugleika og móti nýja peningastefnu sem tryggi að vextir geti verið eins lágir og kostur er og gengi krónunnar stöðugt.

Annað brýnt verkefni er að draga úr kostnaði fyrirtækjanna með endurskoðun eftirlitskerfis hins opinbera sem smám saman hefur vaxið án þess að heildarsýn hafi ráðið. Unnt er að hagræða verulega á þessu sviði án þess að draga úr kröfum sem fyrirtækin þurfa að uppfylla og öryggi almennings verði tryggt. Með einföldun leyfisveitinga og að fyrirtækjum verði þar sem við á heimilt að tilkynna um starfsemi í stað þess að þurfa formleg leyfi, auk  samræmingu krafna á að vera unnt að draga úr reglubyrði sem kemur harðast niður á litlu fyrirtækjunum en þau eru ein helsta uppspretta nýrra starfa. Nóg hefur verið um þetta mikilvæga mál ritað, nú er tími aðgerða runninn upp.

Við réttar aðstæður í atvinnulífinu, getur fólk látið hugmyndir sínar verða að veruleika, og notið þess þegar vel gengur.  Rætist þetta þá erum við á réttri leið. Lítil fyrirtæki vilja og geta skapað þúsundir nýrra starfa á næstu árum ef þau fá til þess aukið svigrúm, minni reglubyrði og léttari skattbyrði. Stóra lausnin er smá.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfs SA, Af vettvangi í júní 2015.