Vinnumarkaður - 

09. Desember 2009

Mikilvæg starfsendurhæfing á vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikilvæg starfsendurhæfing á vinnumarkaði

Á síðustu 10 árum hefur einstaklingum sem ekki taka þátt á vinnumarkaði vegna skertrar starfsgetu fjölgað mikið. Fjöldi örorkulífeyrisþega er um 15.000 og hefur fjölgað um ríflega 6.000 manns á síðustu 10 árum. Kostnaður samfélagsins vegna þessa nemur tugum milljarða króna á ári auk þess sem lífsgæði hjá viðkomandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra eru skert. Kostnaður á vinnumarkaði vegna veikinda og slysa nemur að auki milljörðum króna á ári en draga má verulega úr þessum kostnaði með stjórnun og fyrirbyggjandi aðgerðum.

Á síðustu 10 árum hefur einstaklingum sem ekki  taka þátt á vinnumarkaði vegna skertrar starfsgetu fjölgað mikið. Fjöldi örorkulífeyrisþega er um 15.000 og hefur fjölgað um ríflega 6.000 manns á síðustu 10 árum. Kostnaður samfélagsins vegna þessa nemur tugum milljarða króna á ári auk þess sem lífsgæði hjá viðkomandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra eru skert. Kostnaður á vinnumarkaði vegna veikinda og slysa nemur að auki milljörðum króna á ári en draga má verulega úr þessum kostnaði með stjórnun og fyrirbyggjandi aðgerðum.  

Þetta kemur fram í grein Vigdísar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Starfsendurhæfingarsjóðs, sem birt er á vef sjóðsins (www.virk.is). Hún bendir jafnframt á að greiðslur TR vegna örorkulífeyris námu 17,2 milljörðum króna á árinu 2008 og lífeyrissjóðanna um 8,4 milljörðum, sem er um 17% af heildargreiðslum þeirra til lífeyrisþega.  "Það er því hagsmunamál einstaklinga, atvinnurekenda og samfélagsins í heild að snúa þessari þróun við. Rannsóknir hafa sýnt að öflug starfsendurhæfing skilar verulegum ávinningi - bæði fjárhagslegum og ekki síst í betri lífsgæðum þátttakenda," segir Vigdís m.a. í greininni.

Vigdís segir hlutverk Starfsendurhæfingarsjóðs m.a. að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu starfsendurhæfingar og öðrum úrræðum.

"Til að stuðla að breyttum vinnubrögðum í þessum málaflokki og tryggja aukna þjónustu við einstaklinga sem búa við heilsubrest af einhverjum toga þá ákváðu aðilar vinnumarkaðarins - öll helstu samtök launamanna og atvinnurekenda hér á landi - að semja um stofnun og starfsemi Starfsendurhæfingarsjóðs í kjarasamningum á árinu 2008.  Það er ekki nýtt að aðilar vinnumarkaðar semji um mikilvæg mál velferðarkerfisins í kjarasamningum - hvorki hér á landi né á hinum Norðurlöndunum. Samtök launamanna hafa einnig í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki við að byggja upp það velferðarkerfi sem við búum við í dag og auk þess er stór hluti velferðarkerfisins hér á landi til staðar vegna samstarfs verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda og má þar t.d. nefna lífeyrissjóðina, atvinnuleysistryggingar og rétt til launa og bótagreiðslna í veikindum. Með stofnun Starfsendurhæfingarsjóðs hafa aðilar vinnumarkaðarins ákveðið að taka meiri ábyrgð á þessum málaflokki og byggja upp öfluga starfsendurhæfingu á vinnumarkaði - samfélaginu öllu til heilla."

Sjá nánar:

Smellið hér til að lesa greinina í heild

Samtök atvinnulífsins