Efnahagsmál - 

13. október 2010

Mikilvæg ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna yfirtöku Arion banka á B.M. Vallá

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikilvæg ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna yfirtöku Arion banka á B.M. Vallá

Virk samkeppni er mikilvæg við endurreisn atvinnulífsins og því er ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna yfirtöku Arion banka á B.M. Vallá (nr. 31/2010) jákvæð. Þar eru sett fram skýr viðmið um hvernig yfirtöku banka á fyrirtækjum skuli háttað þannig að endurskipulagning þeirra geti tekist vel án þess að raska samkeppni eða fyrirtækjum sé alvarlega mismunað.

Virk samkeppni er mikilvæg við endurreisn atvinnulífsins og því er ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna yfirtöku Arion banka á B.M. Vallá (nr. 31/2010) jákvæð. Þar eru sett fram skýr viðmið um hvernig yfirtöku banka á fyrirtækjum skuli háttað þannig að endurskipulagning þeirra geti tekist vel án þess að raska samkeppni eða fyrirtækjum sé alvarlega mismunað.

Skil milli Arion og B.M. Vallár
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er m.a. kveðið á um að Arion banka sé skylt að selja fyrirtækið eins fljótt og mögulegt er. Þá er bankanum skylt að tryggja að fyrirtækið starfi óháð bankanum og gerð er eðlileg arðsemiskrafa til B.M. Vallár til að koma í veg fyrir undirboð sem ætlað er að auka markaðshlutdeild. Aðkoma stafsmanna Arion banka að rekstri B.M. Vallár er jafnframt takmörkuð þannig að fyrirtækið getur ekki treyst á að Arion banki sé bakhjarl þess á hverju sem dynur. Aðskilnaði milli Arion banka og B.M. Vallár er jafnframt ætlað að tryggja að trúnaðarupplýsingar um keppninauta berist ekki til fyrirtækisins.

Virkt eftirlit óháðs aðila
Arion banka er gert að velja trúverðugan óháðan aðila til að fylgjast með B.M. Vallá, m.a. hvort markmiðum í rekstri er náð eða ekki. Niðurfelling skulda skal vera hófleg þannig að fyrirtækið fái ekki óeðlilegt samkeppnisforskot á keppinauta sína. Þá er Arion banka óheimilt að sameina rekstur B.M. Vallár og fyrirtækja í eigu bankans eða beina viðskiptum sérstaklega til fyrirtækisins. Á það bæði við um fyrirtæki í eigu bankans og fyrirtæki í viðskiptum við bankann.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að eftirlitið geri ríka kröfu um upplýsingagjöf um stöðu mála fyrirtækisins hverju sinni, bæði til stofnunarinnar og til almennings.

Virk samkeppni mikilvæg
Virk samkeppni er ætíð mikilvæg og ekkert síður þegar þjóðir kljást við efnahagsleg áföll. Aðgerðir stjórnvalda og markaðshegðun fyrirtækja, sem takmarka eða raska samkeppni, tefja endurreisn og draga efnahagslægðina á langinn. Umhverfi samkeppnismála og samkeppniseftirlits er hins vegar krefjandi á Íslandi vegna smæðar markaðarins og þörf á því að fyrirtæki nái lágmarksstærð til að njóta rekstrarhagkvæmni. Fákeppni er því óhjákvæmileg á mörgum sviðum en við slíkar aðstæður er skilvirkt samkeppniseftirlit mikilvægt sem getur fyrirbyggt ólögmæta samtryggingu á markaðnum og að markaðsráðandi fyrirtæki misnoti sterka stöðu sína.

Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 31/2010 hafa verið sett viðmið um hvernig yfirtöku banka á fyrirtækjum skuli háttað þannig að endurskipulagning þeirra geti tekist vel. Mál þessi eru flókin og vandmeðfarin en mikilvægt er að staðið sé málefnanlega að skuldameðferð og endurskipulagningu fyrirtækja, þar sem skýrum verklagsreglum er fylgt og byggt á faglegum vinnubrögðum.

Sjá nánar:

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 31/2010 - birt 11. október 2010

Samtök atvinnulífsins