1 MIN
Mikilvægt skref í rétta átt
Sameiginleg yfirlýsing Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins var undirrituð í dag. Yfirlýsingin markar mikilvægt skref í átt að varanlegri lausn á jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða og úrbótum á samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða.
Með yfirlýsingunni lýsa aðilar sameiginlegri sýn á viðfangsefnið og skýrum ásetningi um að hrinda breytingum í framkvæmd á komandi ári. Markmiðið er að tryggja sjálfbærni kerfanna og bæta stöðu einstaklinga á vinnumarkaði.
Í framhaldinu verður lögð upp verkefnaáætlun um hvernig bæta megi samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða og auka virkni á vinnumarkaði. Áhersla verður lögð á starfsendurhæfingu og endurkomu til vinnu, án þess að heildarkostnaður samfélagsins vegna veikinda og örorku aukist.
Verkefnið verður unnið í samstarfi fjármála- og efnahagsráðherra, félags- og húsnæðisráðherra og aðila vinnumarkaðarins, í samráði við sérfræðinga á sviði starfsendurhæfingar.
Yfirlýsinguna undirrituðu Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
„Með þessari yfirlýsingu er stigið mikilvægt skref í átt að varanlegri lausn á áskorunum í örorkukerfinu. Samstaða ríkis og aðila vinnumarkaðarins er lykilforsenda þess að ná raunhæfum og sjálfbærum úrbótum. Það er brýnt að við tryggjum fólki farsæla endurkomu á vinnumarkað,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. „Nú skiptir máli að fylgja yfirlýsingunni eftir með skýrri verkefnaáætlun og markvissri framkvæmd.“