18. ágúst 2025

Mikilvægt að beina stuðningi ríkisins þangað sem hans er mest þörf

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikilvægt að beina stuðningi ríkisins þangað sem hans er mest þörf

Samtök atvinnulífsins telja að fyrirhuguð hækkun á frítekjumarki ellilífeyris, úr 36.500 krónum í 60.000 krónur á kjörtímabilinu, sé ekki skynsamleg leið til að styðja við þá sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda. Í umsögn sem samtökin hafa skilað í samráðsgátt stjórnvalda er lögð áhersla á að beita fremur sértækum aðgerðum sem styðja tekjulægri hópa.

Frítekjumarkið á að hækka í áföngum, fyrst um 5.000 krónur 2026 og 2027 og síðan um 13.500 krónur árið 2028. Það nýtist á móti öllum tekjum, þar á meðal lífeyrissjóðstekjum, atvinnutekjum og fjármagnstekjum. SA benda hins vegar á að ráðstöfunartekjur eldra fólks hafi hækkað mest frá aldamótum, á meðan yngri kynslóðir hafi setið eftir – sérstaklega þær sem eru að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði.

„Efnahagsástandið bitnar hvað síst á lífeyrisþegum en mest á þeim sem eru að reyna að koma sér upp heimili,“ segir í umsögninni. Hærri vextir hafi jafnvel leitt til aukinna fjármagnstekna hjá elsta aldurshópnum, á meðan þeir leggjast þungt á ungt fólk með háar skuldir.

Auk þess minna samtökin á að ellilífeyrir og aðrar bætur almannatrygginga hækki í takt við laun, þó aldrei minna en sem nemur hækkun neysluverðsvísitölu, sem tryggi að tekjur eldri borgara haldi áfram að vaxa.

Kostnaður ríkissjóðs við hækkun frítekjumarksins er áætlaður 5,6 milljarðar króna, um 600 milljónum króna umfram fjármálaáætlun. SA vara við að slíkt auki þenslu og halla ríkissjóðs og standi í vegi fyrir lækkun vaxta.

Samtökin hvetja stjórnvöld til að beina kröftum sínum að markvissum aðgerðum sem bæta sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa, í stað almennra ráðstafana sem valda verðbólguþrýstingi.

Samtök atvinnulífsins