Vinnumarkaður - 

18. janúar 2013

Mikill brottflutningur Íslendinga af landinu árið 2012

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikill brottflutningur Íslendinga af landinu árið 2012

Árið 2012 fluttu 935 fleiri Íslendingar brott af landinu en til þess eða sem nam 0,3% af íbúafjölda. Í heild fluttu rúmlega fjögur þúsund Íslendingar frá landinu en rúmlega þrjú þúsund til þess. Nettó brottflutningurinn var mestur á þriðja ársfjórðungi og minnstur á þeim fjórða eins og verið hefur undanfarin ár og sést á meðfylgjandi línuriti.

Árið 2012 fluttu 935 fleiri Íslendingar brott af landinu en til þess eða sem nam 0,3% af íbúafjölda. Í heild fluttu rúmlega fjögur þúsund Íslendingar frá landinu en rúmlega þrjú þúsund til þess. Nettó brottflutningurinn var mestur á þriðja ársfjórðungi og minnstur á þeim fjórða eins og verið hefur undanfarin ár og sést á meðfylgjandi línuriti.

Smelltu til að stækka

Á móti þessum mikla brottflutningi Íslendinga á árinu kom umtalsverður aðflutningur útlendinga, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 680 umfram brottflutta á árinu sem nemur 3,2% af fjölda þeirra. Í heild fluttu tæplega 2.900 útlendingar til landsins en tæplega 2.200 frá því. Athygli vekur mikill aðflutningur útlendinga á 4. ársfjórðungi 2012 en þá voru þeir nettó rúmlega 600 og tæplega 1.000 í heild.

Samtals voru því brottfluttir íbúar um 250 umfram aðflutta á árinu 2012, þar sem nettó brottflutningur Íslendinga nam rúmlega 900 íbúum en aðfluttir útlendingar nettó voru tæplega 700.

Á síðustu tveimur áratugum hefur flutningsjöfnuður Íslendinga einungis verið jákvæður í þrjú ár, þ.e. árin 1999, 2000 og 2005 en hin árin 17 hefur hann verið neikvæður. Á þessu tímabili voru brottfluttir Íslendingar umfram aðflutta rúmlega 14.000 eða sem nam 0,24% af íbúafjölda að meðaltali árlega. Langmestur var nettóbrottflutningurinn árið 2009, 0,8% af íbúafjölda, en þar á eftir koma árin 1995 og 2010 með 0,6% og 0,5% íbúafjölda. Nettó brottflutningurinn árið 2012 var sjötta mesta brottflutningsárið þegar litið er tvo áratugi aftur í tímann og það fimmtánda hæsta frá 1960.

Smelltu til að stækka

Almennt má gera ráð fyrir því að Íslendingar sem flytja til annarra landa fái þar vinnu og séu því sérmenntaðir því ella er erfitt að hasla sér völl á vinnumarkaði erlendis. Á móti má ætla að flestir aðfluttir erlendir ríkisborgarar séu ekki með starfsmenntun, og þó þeir hafi hana eiga þeir oft erfitt með að nýta sér hana vegna tungumálaerfiðleika.

Um menntun að- og brottfluttra liggja því miður ekki fyrir opinberar upplýsingar, en líkur standa til þess að frá Íslandi flytjist að mestu leyti sérmenntað vinnuafl og til landsins flytjist og setjist að fólk í miklum mæli án framhalds- eða starfsmenntunar. Flest bendir því til þess að neikvæður flutningsjöfnuður íslenskrar ríkisborgara og streymi útlendinga til landsins lækki menntunarstig íbúa á landinu og dragi úr framboði sérhæfðs starfsfólks á vinnumarkaði.

Samtök atvinnulífsins