Fréttir - 

02. Desember 2014

Mikill ávinningur heimila af hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikill ávinningur heimila af hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta

„Hjöðnun verðbólgu á árinu ber árangri síðustu kjarasamninga glöggt vitni. Þar lögðu aðilar vinnumarkaðar upp með að hóflegar launahækkanir myndu stuðla að minni verðbólgu og meiri kaupmáttaraukningu en ella.“ Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, í pistli sem hann flutti í sjónvarpsþætti Eyjunnar en ársverðbólga mælist nú 1% og hefur ekki verið lægri í 16 ár.

„Hjöðnun verðbólgu á árinu ber árangri síðustu kjarasamninga glöggt vitni. Þar lögðu aðilar vinnumarkaðar upp með að hóflegar launahækkanir myndu stuðla að minni verðbólgu og meiri kaupmáttaraukningu en ella.“ Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, í pistli sem hann flutti í sjónvarpsþætti Eyjunnar en ársverðbólga mælist nú 1% og hefur ekki verið lægri í 16 ár.

Björgólfur þakkar árangurinn samstilltu átaki launafólks, atvinnulífs og stjórnvalda. „Aukinn kaupmáttur þýðir einfaldlega að við keypt meira fyrir sömu laun. Það er það sem telur í heimilisbókhaldinu. Það er raunveruleg kjarabót sem allir finna á eigin skinni. Okkur hefur miðað í rétta átt og við getum haldið áfram á sömu braut.“

Lykill að betri lífskjörum

Lítil verðbólga er lykill að betri lífskjörum og tók Björgólfur í pistli sínum dæmi.

„Íslensk heimili skulda um tvö þúsund milljarða króna, hver prósenta verðbólgu leggur 20 milljarða greiðslubyrði á heimilin en 1% hækkun launa skilar heimilunum fimm milljörðum eftir skatta.  Ávinningur af 1% hjöðnun verðbólgu er því fjórfalt meiri en af 1% launahækkun fyrir heimilin í landinu.“

Formaður SA benti á að þegar saman fer hjaðnandi verðbólga og lægri vextir magnist þessi áhrif upp og auki kaupmátt ráðstöfunartekna heimila verulega. Hann tók annað dæmi.

„Fyrir heimili sem skuldar 30 milljónir króna þá er 1% vaxtalækkun ígildi rúmlega 500 þúsund króna launahækkunar á ári eða rúmlega 40 þúsund króna á mánuði. Niðurstaðan er þessi: Við höfum úr meiru að moða í daglegu lífi.“

Stærsta hagsmunamálið
Björgólfur segir að árangurinn sem hafi náðst á árinu sé mikilvægur og á honum verði að byggja til framtíðar. „Þegar ég tók við formennsku í Samtökum atvinnulífsins í mars 2013 lýsti ég því yfir að baráttan gegn verðbólgu væri stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Ég er enn þeirrar skoðunar,“sagði hann og vísaði til nýrrar könnunar Capacent sem sýnir að yfirgnæfandi stuðning þjóðarinnar er við efnahagslegan stöðugleika. Tveir af hverjum þremur sem taka afstöðu styðja áherslu á efnahagslegan stöðugleika í stað þess að leggja áherslu á miklar launahækkanir í næstu kjarasamningum.

„Við erum komin á ákjósanlegan stað en ákvarðanir aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda á næstu vikum og mánuðum munu ráða því hvort árangurinn verði varanlegur. Launakröfur margra hópa um tugaprósenta launahækkanir valda  áhyggjum því fyrir þeim er engin innistæða. Verði gengið að þessum kröfum verður verðbólgunni hleypt af stað óbeislaðri með tilheyrandi tjóni.“

Lægri vexti - aukna velferð

Í pistlinum ræddi Björgólfur um hvað bíður okkar ef launakostnaður heldur áfram að hækka umfram það sem þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar.

„Ef launakostnaður á Íslandi heldur áfram að hækka tvöfalt til þrefalt meira en í viðskiptalöndunum mun það skerða lífskjör á Íslandi í stað þess að bæta þau.“ Það þyrfti hins vegar ekki að verða að veruleika. „Ef haldið er rétt á málum getum við komst í hóp þjóða þar sem lífskjör eru hvað best á næstu tíu árum.“

Björgólfur lagði ríka áherslu á að vextir lækki, en þeir eru allt of háir á Íslandi -margfalt hærri en í Evrópu.

„Íslensk heimili og fyrirtæki greiða aukalega 200 milljarða króna á ári vegna mikils vaxtakostnaðar. Það er jafnmikið og öll útgjöld ríkisins til heilbrigðis- og menntamála. Hár vaxtakostnaður dregur mátt úr atvinnulífinu og þrengir að heimilunum. Þetta verður að breytast.“

Að lokum sagði Björgólfur velferð Íslendinga byggja á því hversu vel takist að leysa verkefni dagsins sem væru bæði fjölmörg og krefjandi.

„Við þurfum að  stuðla að aukinni verðmætasköpun og fjárfestingu í atvinnulífinu. Við eigum að hvetja unga fólkið til að stofna til eigin rekstrar og fagna því þegar vel gengur. Litlu fyrirtækin okkar eru með stór áform og við eigum að styðja þau. Á þeim byggir hagvöxtur morgundagsins. Velferð okkar til lengri tíma verður að byggja á athafnaþrá og hugmyndaauðgi. Það er okkar að skapa forsendur til að sá kraftur finni sér farveg á Íslandi - öllum til hagsbóta.“

Tengt efni:

Pistill Björgólfs Jóhannssonar á Eyjunni

Samtök atvinnulífsins