Efnahagsmál - 

08. maí 2009

Mikil samneysla á Íslandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikil samneysla á Íslandi

Af pólitískri umræðu mætti stundum ætla að Ísland ætti langt í land með að flokkast sem norrænt velferðarríki. Það er þó fjarri sanni þegar litið er á mælikvarða á borð við hlutdeild samneyslu og heildartekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu.

Af pólitískri umræðu mætti stundum ætla að Ísland ætti langt í land með að flokkast sem norrænt velferðarríki. Það er þó fjarri sanni þegar litið er á mælikvarða á borð við hlutdeild samneyslu og heildartekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu.

Samneysla er samanlögð neysla ríkissjóðs, sveitarfélaga og almannatrygginga. Til samneyslu teljast laun og tengd gjöld þessara aðila, kaup þeirra á vöru og þjónustu, að frádreginni sölu, og afskriftir. Dæmi um samneyslu eru launaútgjöld í heilbrigðis- og menntaþjónustu og kaup þessara greina á þjónustu. Önnur dæmi um samneyslu eru rekstur stjórnsýslustofnana ríkis og sveitarfélaga, dómstólar og löggæsla. Tekjutilfærslur til lífeyrisþega og atvinnuleysisbætur flokkast hins vegar ekki undir samneyslu.

Hlutdeild samneyslu í verðmætaráðstöfuninni er há hér á landi í samanburði við önnur lönd. Árið 2006 var Ísland í fjórða sæti meðal ríkja OECD og voru aðeins Danmörk, Svíþjóð og Holland með hærra hlutfall samneyslu af landsframleiðslu. Hlutfall Svíþjóðar það ár var 26,3% og Danmerkur 25,6% en hlutfall Íslands 24,6%. Ísland hefur raunar verið í þriðja sæti í þessum samanburði frá árinu 2000 þegar landið fór upp fyrir Frakkland en árið 2006 skaust Holland upp í þriðja sætið. Hlutfall samneyslu á hinum Norðurlöndunum, Finnlandi og Noregi var töluvert lægra árið 2006, eða 21,7% og 19,3%.

Hlutfall samneyslu af landsframleiðslu í ríkjum OECD árið 2006

Á Íslandi var hlutfall samneyslu af landsframleiðslu árin 2007 og 2008 svipað og það var árið 2006 en nýrri tölur liggja ekki fyrir hjá OECD um önnur aðildarríki.

Þegar horft er til tekna hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu þá var Ísland í sjötta sæti meðal OECD-ríkja með 49,1% á eftir Norðurlöndunum og Frakklandi. Á toppnum trónir olíuríkið Noregur með 59% hlutfall en þar af eru skatttekjur þess einungis 35%. Í samanburði við aðrar þjóðir ætti Ísland að vera með talsvert lægra hlutfall en aðrar þjóðir sem samanburður nær yfirleitt til vegna hagstæðrar aldurssamsetningar og tiltölulega fárra aldraðra auk þess sem fyrirkomulag lífeyrismála Íslendinga er frábrugðið því sem algengast er annars staðar, þar sem lífeyrisgreiðslur eru fjármagnaðar með sköttum, en að stórum hluta með lífeyrissparnaði í lífeyrissjóðum hér á landi.

Tekjur hins opinbera í % af landsframleiðslu í ríkjum OECD árið 2006

Samtök atvinnulífsins