Mikil óvissa í atvinnulífinu vegna ákvörðunar forseta Íslands í Icesave-málinu

Ákvörðun forseta Íslands um að staðfesta ekki Icesave-lögin veldur mikilli óvissu og töfum í íslensku atvinnulífi auk þess að valda að öllum líkindum miklu tjóni. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA. Hann segir mikilvægt að ná aftur eðlilegum aðgangi að erlendum fjármagnsmörkuðum bæði fyrir hið opinbera og almenn fyrirtæki.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 en þar sagði Vilhjálmur ljóst að Bretar og Hollendingar geti valdið Íslandi miklu tjóni beiti þeir sér gegn þjóðinni eins og þeir hafi þegar gert. Vilhjálmur segir ákvörðun forsetans óheppilega og ekki sé rétt að forsetinn taki fram fyrir hendurnar á Alþingi. Forseti Íslands hljóti í framhaldinu að taka á sig einhverja ábyrgð á framhaldi málsins.

Einnig var rætt við Vilhjálm í kvöldfréttum RÚV kl. 19 þar sem hann sagði ákvörðun forsetans mikil vonbrigði og hún skapi erfiðleika í atvinnulífinu þar sem eðlilegur aðgangur að erlendu lánsfé skipti miklu máli til að koma hagkerfinu aftur af stað og í fullan gang. Mikilvægt sé að Icesave málið verði nú leyst með viðunandi hætti og tjón lágmarkað.

Undir kvöld áttu aðilar vinnumarkaðarins fund með leiðtogum ríkisstjórnarinnar. Á fréttavef Morgunblaðsins er haft eftir Vilhjálmi að staða mála hafi almennt verið rædd eftir ákvörðun forseta Íslands um að synja Icesave-lögunum staðfestingar. Stöðugleikasáttmálinn hafi ekki verið ræddur sérstaklega, heldur hafi verið farið vítt og breitt yfir málin. Þó væri ljóst að atvinnulífið standi frammi fyrir gríðarlegri óvissu.

Í kvöldfréttum RÚV kl. 22 kom fram að óvissan snúi t.d. að fjármögnun orkufyrirtækjanna og framgangi stórframkvæmda sem beðið sé eftir. Vilhjálmur segir mestu máli skipta að koma hjólum atvinnulífsins af stað og ná þjóðinni út úr kreppunni. Ákvörðun forsetans hjálpi ekki til í þeim efnum.

Sjá nánar:

Frétt Stöðvar 2

Frétt RÚV - Sjónvarps kl. 19

Frétt RÚV - Sjónvarps kl. 22

Frétt mbl.is

Viðtal við Vilhjálm Egilsson í hádegisfréttum RÚV

Umfjöllun RÚV - Útvarps um málið