Vinnumarkaður - 

07. nóvember 2002

Mikil og almenn þátttaka í viðbótarsparnaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikil og almenn þátttaka í viðbótarsparnaði

Viðbótar lífeyrissparnaður hefur bæði reynst meiri og jafnari milli starfsstétta en áætlað var við gerð kjarasamninga, skv. úrvinnslu SA á gögnum Kjararannsóknarnefndar. Einkum hefur mikil þátttaka verkafólks komið á óvart. Kostnaður atvinnulífsins er þegar orðinn um 4 - 4,5 milljarðar á ári, um einum og hálfum milljarði meiri en reiknað var með.

Viðbótar lífeyrissparnaður hefur bæði reynst meiri og jafnari milli starfsstétta en áætlað var við gerð kjarasamninga, skv. úrvinnslu SA á gögnum Kjararannsóknarnefndar. Einkum hefur mikil þátttaka verkafólks komið á óvart. Kostnaður atvinnulífsins er þegar orðinn um 4 - 4,5 milljarðar á ári, um einum og hálfum milljarði meiri en reiknað var með.


Í kjarasamningunum árið 2000 var tekið upp það nýmæli að vinnuveitendur skyldu greiða mótframlag gegn viðbótarframlögum launamanna til lífeyrissparnaðar. Frá miðju ári 2000 og til ársloka 2001 námu mótframlögin 1% gegn 2% sparnaði launamanns en á árinu 2002 hækkaði mótframlagið í 2%. Áður hafði verið sett í lög að viðbótarframlög launamanna, allt að 2% fyrst og síðar 4%, væru skattfrjáls. Auk þess skyldu vinnuveitendur greiða mótframlag sem næmi tíunda hluta viðbótarframlags launamannsins. Þetta viðbótarframlag, tíundin, er frádráttarbært hjá launagreiðendum við uppgjör tryggingagjalds. Verji launamaður 4% launa sinna til viðbótar lífeyrissparnaðar fær hann nú 2% mótframlag frá launagreiðenda auk tíundarinnar, 0,4%, og renna því samtals 6,4% af launum til viðbótarsparnaðar í því  tilviki. Loks fólst þáttur í kjarasáttinni í desember 2001 í því að festa helminginn af mótframlagi vinnuveitenda til lífeyrissparnaðar, þannig að frá 1. júlí á þessu ári fá þeir launamenn sem ekki hafa tekið þátt í viðbótarlífeyrissparnaði 1% framlag frá vinnuveitenda til ráðstöfunar í séreignasjóð.

Reiknað var með 0,9% kostnaðarauka við samningsgerð
Við samningsgerðina var lagt mat á kostnað atvinnulífsins vegna þessara nýju ákvæða. Gengið var út frá því að 15% launamanna hefðu þegar tekið upp viðbótarsparnað en að þessi nýju samningsákvæði myndu kosta atvinnulífið mismikið eftir því um hvaða hópa væri að ræða. Í samningunum við Flóabandalagið var reiknað með að ríflega þriðjungur verkafólks hefðu tekið upp viðbótarsparnað á samningstímanum og það myndi valda atvinnulífinu 0,7% kostnaðarauka í heild á samningstímanum öllum. Heldur meiri þátttöku, og þar með kostnaði, var vænst hjá verslunarmönnum og mestri hjá iðnaðarmönnum. Í heild var reiknað með tæplega helmings þátttöku í lok samningstímans sem valdið hefði um 0,9% kostnaðarauka fyrir atvinnulífið. Þessar áætlanir við samningsgerðina koma fram í eftirfarandi töflu.

 

Könnun á viðbótarsparnaði á grundvelli gagna Kjararannsóknarnefndar <"o" ns="urn:schemas-microsoft-com:office:office" />

Í gögnum þeim sem berast Kjararannsóknarnarnefnd (KRN) er að finna upplýsingar um framlög fyrirtækjanna í úrtakinu til lífeyrissjóða, bæði samningsbundin framlög, yfirleitt 6%, og viðbótarframlög. Framlögin eru ósundurliðuð í einni tölu þannig að ekki er unnt að greina nákvæmlega á milli kjarasamningbundinna framlaga, mótframlaga gegn viðbótarlífeyrissparnaði eða annarra viðbótarframlaga. Það kemur þó ekki mikið að sök þar sem kjarasamningsbundin lífeyrisframlög eru yfirleitt 6%, en þó eru á því nokkrar mikilvægar undantekningar, s.s. hjá félagsmönnum Samvinnulífeyrissjóðsins. Í þeim sjóði er framlag vinnuveitenda 7%.

Forvitnilegt er að kanna hvernig mótframlög atvinnurekenda gegn viðbótar lífeyrissparnaði launamanns hafa þróast frá upphafi samningsákvæðanna um það efni.  Í því skyni var gagnasafn KRN tekið til skoðunar fyrir marsmánuð árin 2000, 2001 og 2002. Í marsmánuði 2000 höfðu ákvæðin um mótframlög ekki tekið gildi, en þau tóku gildi 1. maí 2000, í mars 2001 var mótframlagið 1% og í mars 2002 var mótframlagið orðið 2%. Fyrirfram var búist við hægfara aukningu í byrjun, en að mikil aukning yrði á sparnaðinum í ársbyrjun 2002 þegar mótframlagið hækkaði í 2%. Könnunin bendir hins vegar til þess að þátttakan hafi orðið mjög mikil frá upphafi en einnig að veruleg aukning hafi orðið á sparnaðinum á þessu ári.

 

Framlög vinnuveitenda til lífeyrissparnaðar

 í mars árin 2000-2002

(smellið á myndina)

Kostnaður atvinnulífsins 1,5 milljörðum meiri en ætlað var
Árið 2000 nam meðalframlag vinnuveitenda til lífeyrissparnaðar 6,8% af launum.  Skýring þess hvers vegna framlagið er hærra en 6% má einkum  rekja til félagsmanna Samvinnulífeyrissjóðsins auk kjarasamninga nokkurra tiltölulega fámennra stétta sem samið hafa um hærra framlag vinnuveitenda en almennt gerist. 

Í mars 2001, þegar samningsákvæðin höfðu verið í gildi í 10 mánuði var mótframlag vinnuveitenda orðið 7,5% að meðaltali og hafði hækkað um 0,8%. Þetta er mun meiri aukning sparnaðar en gert var ráð fyrir í kjarasamningunum, en þá var búist við að þetta samningsákvæði myndi kosta atvinnulífið 0,2-0,3% á árinu 2001.

Í mars 2002 var framlag vinnuveitenda orðið 8,2% að meðaltali og aukning launakostnaðar orðin 1,4% á samningstímanum vegna viðbótarframlaga í lífeyrissjóði, eða 4-4,5 milljarðar króna á ársgrundvelli. Kostnaður atvinnulífsins er orðinn mun meiri en búist var við að hann yrði á öllum samningstímanum, eða 1,4% í stað 0,9%, og nemur viðbótin um einum og hálfum milljarði króna á ári. Samningurinn um 1% framlag til viðbótar lífeyrissparnaðar, sem gekk í gildi 1. júlí í ár, mun væntanlega hækka þessa tölu um a.m.k. einn milljarð til viðbótar.

Jafnt eftir starfsstéttum
Það kemur bæði á óvart hve mikill sparnaðurinn er og hve jafn hann er eftir starfsstéttum. Algengast er að mótframlögin séu í kringum 1,5% en það má túlka sem svo að þrír af hverjum fjórum launamönnum í þessum stéttum hafi að jafnaði lagt fé til viðbótar lífeyrissparnaðar. Þá hefur verið talið var að þátttaka verkafólks í þessum sparnaði væri hverfandi, og mun minni en annarra stétta, en annað kemur í ljós skv. þessari könnun. Af lítilli þátttöku verkafólks í séreignarsparnaðardeild Lífeyrissjóðsins Framsýnar hefur verið dregin sú ályktun að viðbótar lífeyrissparnaður þess væri lítill og minni en annarra stétta, en vera kann að verkafólk hafi í talsverðum  mæli kosið að fela öðrum vörsluaðilum ávöxtun lífeyrissparnaðar síns. Nýlegar tölur frá Fjármálaeftirlitinu renna frekari stoðum undir að svo sé, en samkvæmt þeim eru rúm 60% viðbótarlífeyrissparnaðar í vörslu annarra aðila en lífeyrissjóða.

Hlutfallsleg þátttaka í viðbótarsparnaði
Gögn KRN benda til þess að þetta sparnaðarform hafi fengið mjög góðan byr enda fjárhagsleg hvatning mikil, sem og kynning lífeyrissjóða og banka. Launamenn hafa tekið vel við sér í byrjun og áhrifin af hækkun framlagsins úr 1% í 2% í ársbyrjun 2002 valdið því að fjölmargir hafi tekið ákvörðun um þátttöku. Gögn KRN benda til þess að 55% launamanna hafi í mars á þessu ári fengið framlög umfram 6% samanborið við 22% tveimur árum áður. Skýring þess að hlutföllin eru ekki hærri en raun ber vitni bendir til þess að þeir sem hafa lægstu tekjurnar og minnsta vinnuframlagið, séu t.d. í aukastörfum, taki ekki þátt í viðbótar lífeyrissparnaði.

Hlutfall launamanna sem fékk meira en 6% lífeyrisframlag frá vinnuveitenda í mars árin 2000, 2001 og 2002
(smellið á myndina)


Samtök atvinnulífsins