Mikil kaupmáttaraukning
Gífurleg verðhækkun hefur orðið á húsnæði á síðustu mánuðum, en veigamikill þáttur í vísitölu neysluverðs er útreiknaður kostnaður við að búa í eigin húsnæði. Sá reiknaði kostnaður hækkar í takt við hækkun fasteignaverðs en á síðustu 12 mánuðum hefur sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 35% en fjölbýli um 26,5%. Þessi reiknaði kostnaður hefur hækkað um 21,3% síðastliðna 12 mánuði og hefur þessi liður hækkað vísitölu neysluverðs undanfarna 12 mánuði um 2,53%. Hækkun hans ein og sér hefur haft þau áhrif að vísitala neysluverðs hefur hækkað umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Flestir fasteignaeigendur hafa setið kyrrir í sínum fasteignum og upplifa ekki verðhækkun eigna sinna sem skerðingu á kaupgetu sinni. Þvert á móti hefur eignaaukningin skapað aukið veðrými fasteigna og gert fólki kleift að taka lán með veði í eignum sínum til að greiða upp óhagstæðari lán eða til að fjármagna aukna neyslu. Þær miklu kjarabætur sem felast í lækkun fjármagnskostnaðar mælast reyndar ekki með sama hætti og hækkun fasteignaverðs í neysluverðsvísitölunni, eins og nánar er fjallað um í þessu fréttabréfi. Það mun eflaust vera vandfundinn sá íbúðareigandi sem upplifir verðhækkun fasteignar sinna sem kjararýrnun.
Aðeins 2% verðbólga í vöru og þjónustu
Verðbólga í mars síðastliðnum, miðað við síðustu 12 mánuði, var
4,7% samkvæmt vísitölu neysluverðs en aðeins 2,0% samkvæmt vísitölu
neysluverðs án húsnæðis. Af þeirri staðreynd hafa margir dregið þá
ályktun að verulega hafi sigið á ógæfuhliðina hvað kaupmátt launa
varðar, þ.e. að kaupmáttur hafi lítið aukist. Rök standa þó til
þess að það gefi ekki rétta mynd af þróun kaupmáttar launa
undanfarið, að draga verðbólgu, eins og hún birtist í vísitölu
neysluverðs, frá launahækkunum. Þá má geta þess að aðgerðir
stjórnvalda á borð við lækkun tekjuskatts og hækkun barnabóta auka
enn kaupmátt en koma ekki inn í þessa mælingu. Mikil aukning
einkaneyslu á undanförnum mánuðum og misserum er ótvírætt merki um
mikla aukningu á kaupgetu landsmanna.
Mikil kaupmáttaraukning orðið á samningstímanum
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru að stærstum
hluta endurnýjaðir til fjögurra ára fyrir ári síðan. Þó nokkur
hluti samninga á almennum markaði hefur þó verið endurnýjaður á
fyrstu mánuðum þessa árs og samningar stéttarfélaga opinberra
starfsmanna og ríkisins hafa verið endurnýjaðir á undanförnum
vikum. Samningalotan er þar af leiðandi langt komin, en þó er
mörgum samningum sveitarfélaga ólokið. Launavísitala Hagstofunnar
hækkaði um 6,7% í febrúar 2005 frá sama tíma árið áður. Hækkun
vísitölu neysluverðs án húsnæðis var 2,3% á sama tíma og var
kaupmáttaraukningin því 4,3%. Rétt er að hafa í huga í þessum
samanburði að tvær samningsbundnar hækkanir koma þarna inn á
stærstum hluta almenna markaðarins en á móti er engin hækkun þar
inni í opinbera geiranum, að grunn- og leikskólakennurum
undanskildum. Þessu til viðbótar koma aukin framlög atvinnurekenda
í lífeyrissjóði sem ekki eru meðtalin í mælingum á
launabreytingum.
Skoðun kjarasamninga
Fyrir liggur að aðilar að kjarasamningum hafa valið vísitölu
neysluverðs sem grundvöll skoðunar á framvindu kjarasamninga. Undan
því verður ekki vikist. Við allar umræður um baksvið slíkra mælinga
og eðlileg viðbrögð hljóta menn þó að hafa öll þessi atriði í huga
sem hér hafa verið tilfærð.
Ari Edwald