Efnahagsmál - 

08. janúar 2004

Mikil fjölgun opinberra starfsmanna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikil fjölgun opinberra starfsmanna

Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands taldist starfandi fólk vera 156.700 árið 2002. Til starfandi fólks teljast allir sem gegnt hafa starfi, hvort sem það var hluta úr ári eða allt árið, fullt starf eða hlutastarf. Ef skiptingin milli hins opinbera og atvinnulífsins er skoðuð kemur í ljós að starfsfólki í einkageiranum fækkaði um tæp 4% en opinberum starfsmönnum fjölgaði um 5% milli áranna 2001 og 2002. Þessi fækkun starfsfólks í einkageiranum varð samhliða samdrætti í atvinnulífinu á árinu 2002 og vaxandi atvinnuleysi.

Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands taldist starfandi fólk vera 156.700 árið 2002. Til starfandi fólks teljast allir sem gegnt hafa starfi, hvort sem það var hluta úr ári eða allt árið, fullt starf eða hlutastarf. Ef skiptingin milli hins opinbera og atvinnulífsins er skoðuð kemur í ljós að starfsfólki í einkageiranum fækkaði um tæp 4% en opinberum starfsmönnum fjölgaði um 5% milli áranna 2001 og 2002. Þessi fækkun starfsfólks í einkageiranum varð samhliða samdrætti í atvinnulífinu á árinu 2002 og vaxandi atvinnuleysi.

8% fjölgun í einkageira, 17% hjá hinu opinbera
Ef litið er á fjölgunina yfir lengra tímabil, t.d. árin 1998 til 2002, kemur í ljós að starfandi fólki fjölgaði í heild um 14.700 (frá árinu 1997) eða 10,4%, og þar af um 8% í einkageiranum en um rúm 17% hjá hinu opinbera. Tímabilið einkennist þannig af örri fjölgun opinberra starfsmanna og vaxandi hlutdeild hins opinbera á vinnumarkaðnum. Sé nánar litið á helstu þætti í starfsemi hins opinbera þá fjölgaði starfsfólki í opinberri stjórnsýslu um 1.800 sem er um 30% aukning og um 3.700 í fræðslustarfsemi sem var 40% aukning, en minnst var hún í heilbrigðis- og félagsþjónustu eða um 700 manns sem var 3% aukning.

(smellið á myndina)

Fækkun í framleiðslu, fjölgun í þjónustu
Þróun starfsmannafjölda í atvinnulífinu hefur einnig verið mjög mismunandi eftir atvinnuvegum. Þannig hefur starfandi fólki fækkað mikið í framleiðslugreinunum en á móti hefur mikil fjölgun verið í þjónustugreinunum. Í landbúnaði hefur fjöldi starfandi staðið nokkurn veginn í stað en í sjávarútvegi hefur starfsfólki fækkað verulega, eða um 18%, og var fækkunin mikil bæði í veiðum og vinnslu.

Á tímabilinu var einnig fækkun í framleiðsluiðnaði en á móti  fjölgaði starfsfólki mikið í mannvirkjagerð. Starfsfólki í  verslunar-, veitinga og hótelrekstri fjölgaði verulega en fjöldi starfsfólks í samgöngum og flutningum stóð í stað. Langmest var aukningin í "annarri þjónustu" en undir hana heyra m.a. fjármálastarfsemi, hugbúnaðarþjónusta og viðskiptaþjónusta, svo helstu greinar séu nefndar. 

(smellið á myndina)


 

Samtök atvinnulífsins