Mikil aukning tekjuskattsgreiðslna fjármálafyrirtækja

Álagður tekjuskattur fyrirtækja árið 2006 vegna tekna á árinu 2005 nam 34,7 milljörðum króna. Þar af nam álagður tekjuskattur á fjármálafyrirtæki 13 milljörðum króna eða tæplega 40% af tekjuskatti fyrirtækja í heild. Álagður tekjuskattur fjármálafyrirtækja hefur rúmlega sexfaldast frá árinu 2004 þegar hann nam rúmum tveimur milljörðum króna. Þessar upplýsingar er að finna á vef RSK sem nýlega hefur birt sundurliðun álagningar á fyrirtæki eftir atvinnugreinum.

Álagður tekjuskattur fyrirtækja 2004-2006

Álagður tekjuskattur 2004-2006

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Næst á eftir fjármálafyrirtækjunum kemur atvinnugrein sem nefnist fasteignaviðskipti, leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta þar sem álagður tekjuskattur nam rúmum sex milljörðum króna. Til hennar heyrir m.a. leiga atvinnuhúsnæðis, starfsemi tengd tölvum og hugbúnaðargerð, endurskoðun, lögfræðiþjónusta, rekstrarráðgjöf, starfsemi arkitekta, auglýsingastofa, verkfræðiráðgjöf og starfsemi eignarhaldsfélaga. Álagður tekjuskattur af starfsemi eignarhaldsfélaga einna nam rúmum 2,2 milljörðum króna. Í þriðja sæti var verslun og ýmis viðgerðarþjónusta með 4,6 milljarða króna í álagðan tekjuskatt, en sú atvinnugrein greiddi um langt árabil hæsta tekjuskatta. Í fjórða sæti kemur byggingariðnaður með 3,5 milljarða sem er mikil aukning frá fyrri árum og í fimmta sæti er iðnaðurinn með tvo milljarða í álagðan tekjuskatt. Þá koma samgöngur og flutningar með einn og hálfan milljarð, sem er mikil aukning frá fyrri árum og síðan kemur sjávarútvegurinn með tæpa 1,2 milljarða króna í álagðan tekjuskatt.

Álagður tekjuskattur fyrirtækja 2005 og 2006

Tekjuskattur á fyrirtæki 2 litil

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu