Efnahagsmál - 

31. maí 2007

Mikil áhrif álvers í Helguvík á atvinnulíf og sveitarfélög á Reykjanesi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikil áhrif álvers í Helguvík á atvinnulíf og sveitarfélög á Reykjanesi

Norðurál Helguvík sf. áformar að reisa álver á iðnaðarsvæðinu við Helguvík á Reykjanesi. Áhrif þess á atvinnulíf, vinnumarkað, atvinnutekjur, íbúafjölda og tekjur sveitafélaganna á Suðurnesjum verða umtalsverð. Áhrifin verða mest á svæðinu næst Helguvík en þeirra mun þó gæta allt til höfuðborgarsvæðisins þar sem gert er ráð fyrir nokkurri atvinnusókn þaðan.

Norðurál Helguvík sf. áformar að reisa álver á iðnaðarsvæðinu við Helguvík á Reykjanesi. Áhrif þess á atvinnulíf, vinnumarkað, atvinnutekjur, íbúafjölda og tekjur sveitafélaganna á Suðurnesjum verða umtalsverð. Áhrifin verða mest á svæðinu næst Helguvík en þeirra mun þó gæta allt til höfuðborgarsvæðisins þar sem gert er ráð fyrir nokkurri atvinnusókn þaðan.

Langur framkvæmdatími - litil hætta á ofþenslu

Áformað er að byggja álverið í áföngum og er stefnt að því að ná allt að 250.000 tonna ársframleiðslu árið 2015. Áætlað er að hefja undirbúningsframkvæmdir fyrir árslok 2007 og gangsetja fyrsta áfanga árið 2010, en áfangaskipting fer eftir því hvernig til tekst með orkuöflun. Gert er ráð fyrir því að bygging álversins krefjist 1.650 ársverka, eða sem nemur 250-300 ársverkum á ári að jafnaði á 6-8 ára framkvæmdatíma.[1] Þessi langi framkvæmdartími mun draga úr hættu á því að framkvæmdirnar stuðli að ofþenslu á byggingamarkaði. Búast má við að stór hluti starfsmanna muni koma frá Suðurnesjum, bæði á meðan byggingaframkvæmdum stendur og á rekstrartíma.  Áætlað er að skiptingin verði þannig að 65% starfsmanna komi frá Reykjanesbæ, 20% frá öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum og 15% frá höfuðborgarsvæðinu.

Varanleg fjölgun um 900 störf - beint og óbeint

Þegar álverið verður komið í fulla stærð árið 2015 munu þar starfa 300 starfsmenn og má varlega áætla að auk þeirra myndist a.m.k. tvö afleidd störf utan álversins á móti hverjum starfsmanni í álverinu. Afleidd störf eru því hér áætluð 600 á ársgrundvelli og heildarfjöldi nýrra starfa 900 vegna tilkomu álversins. Í eftirfarandi umfjöllun er gengið út frá þeirri forsendu að bein og óbein áhrif álversins á verðmætasköpun verði hrein viðbót við þá starfsemi sem fyrir er á svæðinu, en ryðji ekki burt neinu sem fyrir er. Þá er ekki gert ráð fyrir að á svæðinu sé völ á annarri sambærilegri fjárfestingu sem kæmi í stað álversins.  Ef um slíka fjárfestingakosti verður að ræða munu þeir hæglega geta orðið að veruleika samhliða uppbyggingu álversins.

Áætlað er að búsetuskipting þeirra starfsmanna sem fylla muni þessi 900 störf verði þannig að 585 verði búsettir í Reykjanesbæ, 180 í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum og 135 á höfuðborgarsvæðinu.

Skipting starfa vegna reksturs álvers í Helguvík eftir sveitarfélögum

Smellið töfluna til að sjá stærri útgáfu

Álver í Helguvík mun stuðla að íbúafjölgun á Suðurnesjum. Forsendur fyrir fjölgun íbúa eru þær að fyrir hvert 1 nýtt starf sem skapast vegna álversins fjölgi íbúum um 2 og er þá tekið mið af fyrri rannsóknum sem hafa verið gerðar hér á landi[2]. Áætluð íbúafjölgun alls er því tæplega 2.000 og miðað við núverandi íbúafjölda er aukningin 10% í Reykjanesbæ en 8% á Reykjanesinu öllu.

Áætluð íbúafjölgun af völdum fyrirhugaðs álvers í Helguvík

Starfsemi álvers á Suðurnesjum sem og annars staðar hefur þá kosti að störf í álveri eru langtímastörf sem eru óháð sveiflum á innlendum markaði. Þá greiða álver hærri laun en að jafnaði í landinu og því eru störfin eftirsótt hvort sem litið er til starfsgreina sem krefjast lítillar formlegrar menntunar, fagærðra eða háskólagenginna. Þetta mun stuðla að því að ungir Suðurnesjabúar, sem annars hefðu flust af svæðinu að aflokinni menntun t.d. í háskólum í Reykjavík eða erlendis, muni eiga þess kost að búa áfram í sinni heimabyggð.

Auknar tekjur sveitarfélaga

Sveitarfélögin í nágrenni álversins munu fá auknar skatttekjur vegna fjölgunar íbúa og þar með hærra útsvar, fasteignagjöld auk hafnargjalda. Meðaltekjur allra starfsgreina í álverinu eru áætlaðar um 390.000 kr. á mánuði á grundvelli launakönnunar Hagstofu Íslands[3] og framreiknings til kaupgjalds á árinu 2007 með launavísitölu. Meðaltekjur í afleiddum störfum eru áætlaðar fjórðungi lægri en í álverinu. Heildarlaunagreiðslur álvers í Helguvík, án launatengdra gjalda, munu samkvæmt því verða um 1,4 milljarður króna á ári og 2,1 milljarðar króna í afleiddum störfum. Auknar launagreiðslur sem leiða munu af starfrækslu álversins munu því samtals nema 3,5 milljörðum króna á ári. Útsvarstekjur sveitarfélaga vegna þessara launatekna munu aukast um 440 m.kr. á ári og skiptast þannig að hlutur Reykjanesbæjar verður 280 m.kr., hlutur annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum 90 m.kr. og 70 m.kr. fellur í hlut sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Útsvarstekjur vegna beinna og afleiddra starfa í tengslum við fyrirhugað álver í Helguvík. Milljónir kr.

  Smellið töfluna til að sjá stærri útgáfu

Fasteignagjöld, hafnar- og skipagjöld

Um fasteignagjöld vegna álvers er samið sérstaklega en ætla má að þau verði svipuð og gildir um álverið á Grundatanga, eða um 100 milljónir króna á ári fyrir 250.000 tonna álver. Einnig greiðast hafnar- og skipagjöld en þau eru áætluð rúmlega 150 milljónir á ári.

Fólksfjölgun í tengslum við aukið framboð starfa vegna starfsemi álversins mun verða mætt með auknu framboði íbúðarhúsnæðis sem ætla má að nemi 900 íbúðum á áhrifasvæðinu öllu. Við áætlun fasteignagjalda af þessum íbúðafjölda var stuðst við upplýsingar Fasteignamats ríkisins. Samkvæmt framangreindum forsendum munu fasteignagjöld í tengslum við íbúafjölgun af völdum álversins aukast um 39 m.kr. árlega í Reykjanesbæ, 12 m.kr. í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum og um 11 m.kr. á höfuðborgarsvæðinu.

Auknar árlegar tekjur af fasteignagjöldum vegna íbúafjölgunar í tengslum við fyrirhugað álver í Helguvík.

Smellið töfluna til að sjá stærri útgáfu

Tekjuaukning sveitarfélaganna í heild

Ætla má að starfræksla 250 þús. tonna álvers í Helguvík leiði til fjölgunar starfa, beint og óbeint, um a.m.k. 900, hækkunar atvinnutekna um rúma þrjá milljarða króna og fjölgunar íbúða á Suðurnesjum um 750-800. Skatttekjur Reykjanesbæjar munu verða tæplega 600 m.kr. hærri en ella, á verðlagi í maí 2007, frá árinu 2015 ef áform um álver í Helguvík ná fram að ganga. Til samanburðar voru skatttekjur Reykjanesbæjar 3,1 milljarður króna í fjárhagsáætlun fyrir 2006 og nemur því aukning skatttekna af völdum álversins tæpum fimmtungi, eða 18%. Skatttekjur annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum munu væntanlega aukast um 100 m.kr. en skatttekjur þeirra árið 2006 námu samtals um 1,9 milljarði króna. Loks munu skatttekjur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu aukast um 80 m.kr.

 

Skatttekjur sveitarfélaga vegna beinna og afleiddra starfa í tengslum við fyrirhugað álver í Helguvík. Milljónir króna.  

Smellið töfluna til að sjá stærri útgáfu

Áhrifin á skatttekjur ríkissjóðs verða einnig umtalsverð.  Ætla má að tekjuskattur til ríkisins vegna aukinna launatekna muni nema um 750 m.kr. árlega, tryggingagjald um 200 m.kr. og tekjuskattgreiðslur fyrirtækisins gætu numið 1-2 milljörðum króna árlega.


[1] HRV Engineering 2007, Úttekt á samfélagslegum áhrifum fyrirhugaðs álvers í Helguvík.

[2] Nýsir hf. 2002, Athugun á samfélagslegum áhrifum af stækkun álvers ISAL í Straumsvík.

[3] Stuðst er við sambærileg hlutföll starfsfólks og starfa í álverinu í Straumsvík. Þar starfa verkamenn (63%), iðnaðarmenn (18%), stjórnendur og sérfræðingar (17%) og skrifstofufólk (2%). Gögn um laun frá Hagstofu Íslands.

Samtök atvinnulífsins