Fréttir - 

12. Mars 2018

„Mig langaði ekki til að dansa í Kreml“

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

„Mig langaði ekki til að dansa í Kreml“

Sigríður Snævarr, fyrsti kvensendiherra Íslands, flutti áhrifamikið ávarp í Kauphöll Nasdaq á Íslandi á Alþjóðadegi kvenna. Í kjölfarið hringdi hún bjöllu kauphallarinnar í þágu jafnréttis. Erindi Sigríðar má lesa í heild á vef SA.

Sigríður Snævarr, fyrsti kvensendiherra Íslands, flutti áhrifamikið ávarp í Kauphöll Nasdaq á Íslandi á Alþjóðadegi kvenna. Í kjölfarið hringdi hún bjöllu kauphallarinnar í þágu jafnréttis. Erindi Sigríðar má lesa í heild á vef SA.

Viðburðurinn var samstarfsverkefni 50 kauphalla Nasdaq út um allan heim, UN Women og Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Samtök atvinnulífsins eru tengiliður Íslands við Global Compact.

„Kæru gestir,

Press for Progress er yfirskrift þessa dags á alþjóðlega vísu og ég þakka heiðurinn og hlakka til að hamast á bjöllunni og hringja henni með mikla framfaravon í brjósti til handa atvinnulífinu og óska konum af öllu hjarta frama og velgengni í íslenskum fyrirtækjum.

Press for Progress 8. mars er frábært vígorð, en ég fór að skellihlæja þegar Páll Harðarson bað mig að hringja inn daginn,  sagði að það kæmi vel á vondan, því ég hefði aldrei þolað þennan dag eftir fyrstu kynni mín af 8.mars.

Ég  lofaði Páli  sögu og hér kemur hún: 8.mars 1980 upplifði ég daginn nefnilega í Sovétríkjunum undir millumerkinu Status Quo með stórum stöfum og lifi stöðnunin eða millumerkið:  Lifi kerfið sem viðheldur sjálfu sér!


Í fyrirmyndarríki feminismans réðu konur engu
Ég var  27 ára gömul og starfaði sem staðgengill sendiherra við sendiráðið okkar í Sovétríkjunum –Í tilefni dagsins sem við höfðum aldrei áður  heyrt um, 8. mars-  héldum helst að Stalín hefði fundið hann  upp-, var sendiherrafrúnni íslensku og erlendum sendiherrafrúm boðið að mæta í Kreml og dansa við hina 72 ára gömlu forsetafrú Sovétríkjanna, Breznevu og  aðrar eiginkonur valdamanna í Kreml!. -karla í valdastéttarinni Nomenklaturunni sem stjórnaði öllu –öllu, viðskiptum einstakra fyrirtækja, lagasetningu, réðu því hverjir máttu rita bækur, mála málverk eða sleppa við Gulagið- öllu í Sovétríkjunum í nafni stöðnunar og andstætt me too, time’s up, égerhér og Islandlika.

Þetta var algjör afskræming. Baráttukonur fyrir óbreyttu ástandi dönsuðu þarna í Kreml, enda höfðu þær allt að vinna, eigin stöðu og framtíð barna sinna, bara, Góði guð, bara að ekkert breyttist. Erlendu sendiherrafrúrnar misnotaðar til að gefa þessum fáranlega dansi alþjóðlegt yfirbragð. Illa með þær farið, því þeirra á meðal voru konur sem auðveldlega hefðu getað haslað sér völl sjálfar. Myllumerkið Status Quo, baráttan fyrir vígorðinu ,,breytum engu”.

Ég hló ekki bara að tilhugsuninni um dansinn, ég tók þetta nærri mér. Margir sem voru mér svo kærir, þar með taldir miklir og glæsilegir feministar, höfðu  aðhyllst kommúnismann og fyrirgefið margt, vegna þess einmitt að konurnar í Sovétinu höfðu svo öfluga stöðu!  En það var nú öðru nær. Meðan hinar öflugu sovésku konur af áróðursspjöldunum voru að  bora í vegg, hamast úti á götu með loftborana, vinna á lyftara, vinna á skurðgröfu ... minnir smá á lagið hennar Röggu Gísla---,  dönsuðu frúrnar. Hetjurnar ... konurnar sem alls staðar voru til sýnis á áróðursspjöldum falsfréttanna-. réðu þær einhverju? Ó, nei, ekki nokkrum sköpuðum hlut og síst af öllu yfir eigin líkama, skutlað í fóstureyðingu til að komast á vaktina á lyftaranum. Í fyrirmyndarríki feminismans réðu konur engu.

Mig langaði ekki til að dansa í Kreml.

Geta menn mælt valdið og áhrifin umfram hlutföll eða hausatalningu í stjórnum viðskiptalífsins?   
Ég má auðvitað ekki láta afskræminguna villa mér sýn. Press for Progress gæti verið yfirskrift norsku  aðgerðarinnar fyrir  tíu árum síðan þegar Norðmenn settu fyrstir reglur um hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja. The Economist upplýsti um miðjan febrúar s.l. í greininni The old-girls’network að norskum konum hefði ekki snarfjölgað í lykilstöðum viðskiptalífsins á þessum tíu árum, þær eru 7% forstjóra í Noregi-  hjá okkur 8% og í Bandaríkjunum 5%. Ég fer ekki nánar út í efni stórfróðlegrar greinar í Economist, en hún vekur áleitnar spurningar um það hvaða hnífar bíta til að draumurinn um  völd og áhrif í atvinnulífinu verði að raunveruleika fyrir bæði kynin.

Duga þá ekki aðgerðir? Byggja þær á ofurtrú okkar á fyrirsjáanlegum afleiðingum? Hvaða mynd á að bregða upp af breytingum á móti myndinni af stöðnuninni í upphafi míns máls.

Við hér heima erum í engum vafa um að  aðgerðir skipta máli til að byggja það hús sem við viljum reisa fyrir alla sem hér búa og starfa, konur og karla, fólk sem fætt er hér og þá sem kjósa að verja starfsævinni á Íslandi. Við eigum margar vörður, 19. júní 1915, kvennafrídaginn, kvennasögusafnið hennar Önnu Sigurðardóttur móðursystur minnar, kjör Vigdísar, Kvennalistann, fléttulistana, feðraorlofið, dagvistun, jafnlaunavottorðið, Press for Progress, HeforShe, jafnréttissendiherrann  og allt mögulegt að baki. En við eigum líka mikið að verja, erum 9.árið í röð efst á lista World Economic Forum’s Global Gender Gap Index. En stöldrum við og hugsum um danska orðið “selvfed” sem oftast er ávísun á stöðnun. Hvað mæla  matsfyrirtækin? Mæla þau raunveruleg áhrif og völd eða rammann einan, lagalegar forsendur?  Eigum við innistæðu að teknu tilliti til áhrifa kvenna í atvinnulífinu? Það læðist nefnilega að mér grunur að Sovétríkin sem ég lýsti í byrjun, hefðu  trónað  efst á priki matsfyrirtækja, ef mælt hefði verið fyrir nær 40 árum. Lagaleg staða kvenna var mjög sterk í Sovétríkjunum og réttindin er auðvelt að mæla. En geta menn mælt valdið, áhrifin, umfram hlutföll eða hausatalningu í stjórnum viðskiptalífsins?   


Fyrsta forsendan fyrir því að draumurinn rætist  er að viðskiptalífið dragi til sín metnaðargjarnar konur í stórum stíl.
Ég spyr aftur: Hvaða hnífar bíta? Stöldrum við. Var metoo hrundið af stað sem aðgerð? Svarið er já, en sá einhver fyrir að netið frá Hollywood hríslaðist inn á hvert heimili? Þau áhrif eru hluti af  Lögmáli hinna ófyrirsjáanlegra afleiðinga; Nærtækara dæmi um sama lögmál er gosið í Eyjafjallajökli -  bara gerðist í boði náttúruaflanna og almættisins og gaus hagvexti. Við byggðum Helguvík til að tryggja atvinnustig á Suðurnesjum. Það endaði  allt þannig að atvinnustigið snarbatnaði á Suðurnesjum þrátt fyrir Helguvík.

Lögmál hinna ófyrirsjáanlegu afleiðinga. Kvennafrídagurinn 1975 snerti rétt eins og metoo hjartað í brjósti okkar. Ég man húsmóður sem geislaði þegar hún sagðist aldrei fyrir þann dag hafa upplifað að gera ekkert á heimili. ,,Veistu ég þurfti ekki einu sinni að vaska upp eftir matinn!- Þennan eina dag.

Áhrif kvennafrídagsins snertu samfélagið í heild sinni. Boraði gat á vegg einsleitninnar- ekki lengur sjálfgefið að staða konunnar væri bak við eldavélina- kúst og fæjó. Spurt hvort allir þyrftu endilega að vera eins í forystunni, male and pale.

En hver er draumsýnin okkar? Hvað þarf til  að það eitt bíti sem máli skiptir fyrir fyrirtækin-að konur flykkist til starfa í viðskiptum og kveðji örugg störf hjá hinu opinbera, í háskólasamfélaginu og víðar, þar sem þær hafa haslað sér völl og víða sem máttarstólpar? Aukin háskólamenntun er grundvöllur í þekkingarsamfélaginu og þar tikka konurnar í öll box. En hver er að dansa stöðnunardansinn?

Fyrsta forsendan fyrir því að draumurinn rætist  er að viðskiptalífið dragi til sín metnaðargjarnar konur í stórum stíl.

Önnur aðferð er sú að öflugir aðilar velji að eiga eingöngu viðskipti við þau fyrirtæki þar sem  hlutfallið milli karla og kvenna í samsetningu stjórnar og lykilstjórnenda er þeim að skapi. Ég gríp þetta ekki úr lausu lofti, en sagt var frá því í greininni í Economist að við opnun viðskiptadags í Kauphöllinni í London fyrir mánuði síðan, hafi 27 alþjóðleg fjárfestingarfyrirtæki lýst yfir stuðningi við hóp sem kemur fram  undir vígorðinu 30% klúbburinn sem vísar auðvitað  í hlutfall kvenna sem þeir vilja sjá í stjórnum  fyrirtækja. Ekki fylgir sögunni hvort þessum stuðningi fylgir hótun um að eiga ekki viðskipti  við fyrirtæki með lægra hlutfall kvenna í stjórn, en vissulega er þetta áhugaverður þrýstingur.

Mun þetta duga eða þurfum við nýjan arkitektúr, að stilla áttavitann upp á nýtt? Ég skil ykkur eftir með þessa spurningu.

Nú nálgast ég bjölluna og klukkuna. En áður en ég hringi henni spyr ég með smáorðaleik að spurningu Hemingways forðum: hverjum klukkan glymur. Mitt svar er að klukkan glymur fjölbreytninni í hópi þeirra sem geta og vilja hafa völd og áhrif í íslensku viðskiptalífi.

Tengt efni:

Frétt stöðvar 2 - viðtal við Sigríði

Samtök atvinnulífsins