Fréttir - 

20. Oktober 2016

Metnaðarfull áform um eflingu starfsmenntunar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Metnaðarfull áform um eflingu starfsmenntunar

Fyrirtækin í landinu leggja sífellt meiri áherslu á menntun og þjálfun starfsmanna sinna og að þeir nýti þekkingu og reynslu sem þeir hafa aflað með skólagöngu en ekki síður með námi tengdu starfi. Vinnustaðurinn er námsstaður þar sem mikilvæg hæfni verður til, starfsþróun og nýsköpun. Fólk lærir nýja hluti alla ævi, tileinkar sér tækni og fylgist með þróun samfélagsins og þess sem hæst ber í eigin fyrirtæki og atvinnugrein. Samtök atvinnulífsins hafa endurspeglað þessa áherslur í sínu starfi með stefnumótun, þátttöku í fjölmörgum verkefnum, fundahöldum og með árlegum menntadegi atvinnulífsins.

Fyrirtækin í landinu leggja sífellt meiri áherslu á menntun og þjálfun starfsmanna sinna og að þeir nýti þekkingu og reynslu sem þeir hafa aflað með skólagöngu en ekki síður með námi tengdu starfi. Vinnustaðurinn er námsstaður þar sem mikilvæg hæfni verður til, starfsþróun og nýsköpun. Fólk lærir nýja hluti alla ævi, tileinkar sér tækni og fylgist með þróun samfélagsins og þess sem hæst ber í eigin fyrirtæki og atvinnugrein. Samtök atvinnulífsins hafa endurspeglað þessa áherslur í sínu starfi með stefnumótun, þátttöku í fjölmörgum verkefnum, fundahöldum og með árlegum menntadegi atvinnulífsins.

Nýlega undirrituðu Samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfingin og mennta- og menningarmálaráðuneytið tvær stefnumarkandi yfirlýsingar á sviði starfsmenntamála. Fyrri yfirlýsingin er um innleiðingu á svokölluðum hæfniramma fyrir íslenskt menntakerfi og sú síðari  um þróun  námsbrauta  fyrir framhaldsmenntun faglærðra á háskólastigi. Það er lykilatriði fyrir samkeppnishæfni íslensks  atvinnulífs að áform tengd þessum yfirlýsingum nái fram að ganga. 

Hæfnirammi um íslenskt menntakerfi á sér langan aðdraganda og á sér samsvörun í öðrum Evrópuríkjum. Með honum eykst gagnsæi menntakerfisins hér á landi og samanburður við evrópskt menntakerfi verður auðveldari.  Hvort tveggja skiptir íslenskt atvinnulíf miklu máli. Menntun við nám og störf alla ævi verður sýnilegri og tenging milli formlegs og óformlegs náms verður greinilegri. Þegar erlendu starfsfólki fjölgar jafn hratt og raun ber vitni verður æ nauðsynlegra að geta borið saman hæfni einstaklinga sem starfað hafa og menntað sig í mismunandi löndum.  Þrep rammans varpa ljósi á hæfni sem einstaklingur býr yfir og endurspegla stigvaxandi kröfur sem gerðar eru óháð því hvar menntunarinnar er aflað.  Upplýsingar um hæfni má nota þegar raunfærni innlendra jafnt sem erlendra einstaklinga er metin og þær má nýta við gerð ferilskrár, við starfsþróun og við umsóknir um nám.

Markmið menntunar á fagháskólastigi  er að mæta þörf starfsmenntaðs fólks fyrir viðbótarmenntun og sívaxandi eftirspurn atvinnulífsins eftir starfsfólki með starfstengt nám að baki. Á fagháskólastigi er ekki lögð sama áhersla á rannsóknir og í almennum háskólum. Með eflingu fagháskólanáms verður fjölbreytni aukin í háskólanámi og tenging við síbreytilegan vinnumarkaðinn verður skýr þannig að saman fer þörf fólks fyrir að efla hæfni sína og þörf atvinnulífs fyrir hæft starfsfólk. Stefnt er að því að haustið 2018 verði boðið upp á slíkt nám í nokkrum greinum í tilraunaskyni og að námskrár sem verða til mæti eftirspurn eftir framhaldsmenntun á viðkomandi fagsviði.  

Vakning hefur orðið hjá fyrirtækjum um mikilvægi menntunar og skilningur á menntun er að breytast. Þótt flestir staldri fyrst við skólagöngu þegar þeir hugsa um menntun, hefur hugsunin þróast yfir í að menntun sé ævistarf sem fer fram á svo fjölmarga vegu, m.a. vegna stórstígra framfara í stafrænum heimi.  Engin vafi er á að framundan er spennandi, mikilvæg og lærdómsrík vegferð.

Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í október 2016

Samtök atvinnulífsins