1 MIN
Mest aukning kaupmáttar á Íslandi
Á tímabilinu 1995-2003 jókst kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði meira á Íslandi en í þeim ríkjum sem við berum okkur yfirleitt saman við. Þetta kemur fram í gögnum OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. Kaupmáttur launa jókst um rúm 27% á Íslandi á tímabilinu samanborið við tæp 12% í OECD-ríkjunum að meðaltali. Kaupmáttaraukning á almennum vinnumarkaði á Íslandi var þannig meira en tvöföld á við það sem gerðist að jafnaði í OECD-ríkunum. Á þessu tímabili stóð kaupmáttur nánast í stað á evrusvæðinu, þ.e. í þeim tólf ríkjum sem tekið hafa upp evruna. Þar vegur þyngst að í stærsta ríkinu, Þýskalandi, jókst kaupmátturinn aðeins um 1% á þessu átta ára tímabili.
Á tímabilinu 1995-2003 jókst kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði meira á Íslandi en í þeim ríkjum sem við berum okkur yfirleitt saman við. Þetta kemur fram í gögnum OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. Kaupmáttur launa jókst um rúm 27% á Íslandi á tímabilinu samanborið við tæp 12% í OECD-ríkjunum að meðaltali. Kaupmáttaraukning á almennum vinnumarkaði á Íslandi var þannig meira en tvöföld á við það sem gerðist að jafnaði í OECD-ríkunum. Á þessu tímabili stóð kaupmáttur nánast í stað á evrusvæðinu, þ.e. í þeim tólf ríkjum sem tekið hafa upp evruna. Þar vegur þyngst að í stærsta ríkinu, Þýskalandi, jókst kaupmátturinn aðeins um 1% á þessu átta ára tímabili.
(Smellið á myndina)
Fast á hæla Íslendinga koma Grikkir og Svíar með rúmlega 25% kaupmáttaraukningu á þessu tímabili. Grikkir náðu þessum árangri með svipuðum launa- og verðlagshækkunum og Íslendingar, þar sem launin í báðum löndunum hækkuðu um 67%, en verðlag um 31% á Íslandi, en um 33% í Grikklandi á umræddu tímabili. Svíar náðu þessum árangri hins vegar með mun minni launa- og verðlagshækkunum þar sem launin hækkuðu um 39% en verðlag aðeins um 11,5%.
Kaflaskipt vegna verðbólguþróunar
Þróunin á þessu átta ára tímabili var nokkuð kaflaskipt, eins og fram kemur á meðfylgjandi súluriti. Fyrstu árin, þ.e. 1995-1998, jókst kaupmátturinn mikið af völdum tiltölulega mikilla launahækkana en lítillar verðbólgu. Síðan tók við tímabil hægt vaxandi kaupmáttar á árunum 1999-2001. Á því tímabili voru launahækkanir svipaðar og á fyrra tímabilinu en verðbólgan jókst verulega samfara mikilli þenslu í efnahagslífinu. Síðasta tímabilið, sem nær til síðasta og þessa árs, einkennist enn af miklum launahækkunum en verðbólgan hefur hjaðnað á ný, einkum vegna styrkingar krónunnar.
(Smellið á myndina)
Að baki þessari miklu kaupmáttaraukningu á Íslandi stendur kraftmikill hagvöxtur síðustu árin, að því síðasta frátöldu. Samkvæmt nýjustu áætlunum, sem gera ráð fyrir 2% hagvexti í ár, hefur hagvöxturinn numið 36,5% frá árinu 1995 og um 24,6% á hvern íbúa þar sem fólksfjölgunin er u.þ.b. 7,5% á tímabilinu.
Meiri hækkanir í raun, einkum hjá hinu opinbera
Í raun hafa launahækkanir á Íslandi verið mun meiri en hér kemur fram. Þar kemur einkum tvennt til. Í fyrsta lagi hafa laun opinberra starfsmanna hækkað um hvorki meira né minna en 90% á tímabilinu 1995-2003, ef marka má launavísitölu Hagstofunnar og sé gert ráð fyrir 5% hækkun á þessu ári. Það felur í sér 45% kaupmáttaraukningu á tímabilinu. Þá hafa sjómannalaun hækkað mikið, einkum allra síðustu ár, vegna mikillar hækkunar fiskverðs innanlands en einnig afurðaverðs erlendis. Loks bendir margt til þess að opinber gögn um launaþróun hafi vanmetið hækkun launa á almennum vinnumarkaði á árunum 1998-2000, en líkt og tölur Kjararannsóknarnefndar eru tölur OECD fyrir almennan vinnumarkað ívið hærri en tölur Hagstofu Íslands.
Hlutur launa hærri en fær staðist til lengdar
Eðlilega ríkir mikil ánægja með þessa þróun kaupmáttar í samfélaginu. Hún hefur þó að öllum líkindum gengið of langt með þeim afleiðingum að hlutur launa í verðmætasköpuninni er orðinn hærri en fær staðist til lengdar. Í því ljósi eru þau fyrirtæki, sem búa við alþjóðlega samkeppni, fjarri því að vera í stakk búin til að standa undir þeirri hækkun á gengi krónunnar sem átt hefur sér stað undangengna mánuði. Því mun of hátt gengi og of mikill kaupmáttur raska nýfengnu jafnvægi í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar og viðskiptahalli taka að vaxa á ný.
______________
1) OECD Economic Outlook nr. 72, desember 2002. Tölur ársins 2002 eru áætlanir og 2003 spár. Rétt er að taka það fram að tölur OECD eru heldur hærri en launavísitala Hagstofu Íslands fyrir almennan vinnumarkað, sem gild rök eru fyrir sbr. tölur Kjararannsóknarnefndar. Til einföldunar er fjallað um tímabilið eins og það sé liðið þótt árið 2003 sé nýhafið og byggt sé á spám um þróun launa og verðlags á árinu. Þá er rétt að halda því til haga að kaupmáttur jókst meira í tveimur nýjum aðildarríkjum OECD, Póllandi og Ungverjalandi, en á Íslandi, en í samanburði OECD eru þau undanskilin sem "háverðbólgulönd."