Menntakerfið grunnur að samkeppnishæfni atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA vilja veg menntunar sem mestan. Þetta segir Margrét Kristmannsdóttir, varaformaður SA, en hún setti Menntadag atvinnulífsins sem fram fór í vikunni. Hún segir menntamálum vera gert jafnhátt undir höfði í starfi samtakanna eins og kjaramálum og efnahagsmálum en eitt af fjórum meginsviðum SA er helgað mennta- og nýsköpunarmálum. Margrét segir að aukinn kraftur hafi verið settur í menntamálin hjá samtökum í atvinnulífinu og aðildarfyrirtækjum þeirra - það sé fítonskraftur að leysast úr læðingi.

"Það eru gríðarlega spennandi tímar framundan og tækifærin svo til óþrjótandi. Það eitt á að fylla alla sem koma að þessum málum miklum eldmóði."

Margrét Kristmannsdóttir, varaformaður SA.

Margrét benti á að í sumum greinum atvinnulífsins sé gríðarleg vöntun á starfsfólki með tiltekna menntun á meðan offramboð sé á öðrum stöðum.

"Það er ekki gott - og ekki þjóðhagslega hagkvæmt að framboð og eftirspurn úr menntakerfinu skuli ekki haldast betur í hendur.  Úr því þarf að bæta.

En á sama tíma þarf að tryggja að rekstrarumhverfi íslensks atvinnulífs sé stórlega bætt, og úr flestum greinum þess er ákall til stjórnvalda um breytingar.  Íslenskt atvinnulíf getur aldrei orðið samkeppnishæft innilokað í höftum. Því það er ekki nóg að menntakerfið taki við sér og skili vel menntuðu starfsfólki út á vinnumarkaðinn - ef störfin eru síðan ekki til staðar þegar fólk kemur úr námi - að störfin séu flest komin til útlanda.  Við erum því miður að horfa allt of mikið upp á það í dag.

Við verðum því sem þjóð að huga að báðum þessum þáttum. Að tryggja að atvinnulífinu standi til boða starfsfólk, sem það vantar til  að auka verðmæti og bæta lífskjör hér á landi.   En á sama tíma að atvinnulífinu sé skapað það umhverfi að geta tekið við öllum þessu fólki.   Því það eru engin ný sannindi að fjölbreytt og öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar og lífsgæða. Og menntakerfið er grunnur að samkeppnishæfni atvinnulífsins."

Margrét hvatti gesti Menntadags atvinnulífsins til að vinna í sameiningu að verkefnum sem tengjast menntamálum atvinnulífsins en þetta var í fyrsta sinn sem sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag.

"Við ætlum að snúa bökum saman og vinna saman að þeim verkefnum sem blasa við. Það er nefnilega ekki frá því að það hafi örlítið borið á misklíð í þjóðfélaginu undanfarna daga - en við ætlum að taka allt annan pól í hæðina."

Um 300 manns úr atvinnulífi, stjórnmálum og menntakerfi tóku þátt í menntadeginum á Hilton Reykjavík Nordica auk þeirra fjölmörgu sem fylgdust með dagskránni í beinni útsendingu.

Nánar verður fjallað um Menntadag atvinnulífsins hér á vef SA á næstu dögum og á vefjum aðildarsamtaka SA sem stóðu að Menntadegi atvinnulífsins.

Lógó - öll

Tengt efni:

Samskip og Nordic Visitor hljóta Menntaverðlaun atvinnulífsins 2014