Menntadagur atvinnulífsins er í dag

Í dag er menntadagur atvinnulífsins og af því tilefni efna samtök í atvinnulífinu til opinnar ráðstefnu Hilton Reykjavík Nordica. Þar verður  fjallað um deigluna í menntakerfinu, breytingar á starfsnámi, framlag fyrirtækja til menntamála og ávinning af menntun. Um þrjú hundruð þátttakendur úr atvinnulífi, stjórnmálum og menntakerfinu hafa nú þegar boðað komu sína. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra mun afhenda menntaverðlaun atvinnulífsins 2015.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni SAF, SFF, SFS, Samorku, SI, SVÞ og SA en þetta er annað árið  í röð sem samtök úr atvinnulífinu halda sameiginlegan menntadag. Í upphafi dagsins kl. 12.30 munu samtökin efna til fjölbreyttra málstofa þar sem þau kynna áherslur sínar í menntamálum og svara fyrirspurnum en kl. 14 hefst sameiginleg dagskrá sem stendur til kl. 16.30. Allir eru velkomnir á daginn og er ekkert þátttökugjald, en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA.

Á við þrjá framhaldsskóla
Framlag atvinnulífsins til menntamála er umtalsvert. Framlag fyrirtækja í fjölbreytta starfsmenntasjóði, sem um 100 þúsund manns á vinnumarkaði eiga aðild að, nemur til dæmis álíka upphæð á hverju ári og framlag ríkisins til tveggja framhaldsskóla. Sjóðina nýta bæði fólk og fyrirtæki en til viðbótar leggja mörg fyrirtæki háar upphæðir á hverju ári í menntun starfsmanna sem meta má sem ígildi þriðja framhaldsskólans. Ætla má að upphæðin sé um þrír milljarðar króna í heildina en þar að auki varði ríkið nærri einum og hálfum milljarði króna á síðasta ári til að auðvelda ófaglærðu fólki á vinnumarkaði að ljúka prófi á framhaldsskólastigi því atvinnulífið kallar á fleira fagmenntað fólk.

Hvað getum við gert betur?
Gestur menntadagsins að þessu sinni er Henning Gade, forstöðumaður hjá DA, samtökum atvinnulífsins í Danmörku, en hann mun ræða um breytingar á starfsnámi í Danmörku sem taka gildi í haust og hvað Íslendingar geti af því lært.

Þá munu fulltrúar íslenskra fyrirtækja ræða um stöðu mála og hvað megi gera betur og  Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálamálaráðherra mun fjalla um viðhorf atvinnulífsins til starfsmenntunar.

Hver fær Menntaverðlaun atvinnulífsins 2015?
undefined
Á menntadeginum verða menntaverðlaun atvinnulífsins veitt til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum, annars vegar er menntafyrirtæki ársins verðlaunað og hins vegar menntasproti ársins. Menntaverðlaunin voru afhent í fyrsta skipti fyrir ári. Samskip var valið menntafyrirtæki ársins 2014 og Nordic Visitor menntasproti ársins 2014.  Illugi Gunnarsson mun afhenda verðlaunin.

Ráðstefnustjóri er  Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.

Dagskrá menntadags atvinnulífsins 2015 má sjá hér