Meirihluti vill léttvín og bjór í matvöruverslanir

51,2% fólks á aldrinum 20-67 ára vill að leyfð verði sala á léttvíni og bjór í matvöruverslunum og 37,6% eru andvíg. Þessar niðurstöður koma fram í nýrri könnun sem Pricewaterhouse Coopers gerðu fyrir SVÞ. Einnig kemur fram að 68,5% þeirra sem eru á aldrinum 20 - 30 ára vilja heimila  sölu léttvíns og bjór í matvöruverslunum en fylgið fer dvínandi eftir því sem svarendur eru eldri.

Í fréttapósti SVÞ segir að þessi könnun sýni, eins og allar aðrar kannanir sem gerðar hafi verið undanfarin misseri um viðhorf til meira frjálsræðis í áfengissölu, að meirihluti fullorðinna vilji sömu þróun í þessum málum og sé í nágrannaríkjum okkar, þ.e. að afnema ríkiseinkasöluna. Léttvín og bjór séu í augum æ fleiri neytenda eðlilegur hluti af góðri máltíð og því sé gerð krafa um að geta keypt þessa vöru með annarri matvöru. Þetta viðhorf kemur skýrar fram hjá ungu fólki en þeim sem  eldri eru. 

Könnunin, sem fór fram í lok október og byrjun nóvember, byggir á slembiúrtaki úr þjóðskrá hjá fólki á aldrinum 20 - 67 ára. Heildarfjöldi svarenda var 705 alls staðar af landinu.