Vinnumarkaður - 

04. Júní 2012

Meiri lífsgæði og tugmilljarða ávinningur vegna starfsendurhæfingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Meiri lífsgæði og tugmilljarða ávinningur vegna starfsendurhæfingar

Ótvíræður árangur hefur náðst með átakinu um starfsendurhæfingu sem rekja má til samkomulags aðila vinnumarkaðarins og staðið hefur yfir sl. tæp þrjú ár á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Markmiðið er að tryggja fólki sem misst hefur starfsgetuna vegna veikinda eða slysa endurhæfingu og aðstoð við að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Í byrjun maí höfðu um 3.400 einstaklingar leitað til ráðgjafa VIRK á þessum tæpu þremur árum sem liðin eru. Um 72% þeirra sem hafa útskrifast frá VIRK eru með fulla starfsgetu og hafa horfið til vinnu eða náms.

Ótvíræður árangur hefur náðst með átakinu um starfsendurhæfingu sem rekja má til samkomulags aðila vinnumarkaðarins og staðið hefur yfir sl. tæp þrjú ár á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Markmiðið er að tryggja fólki sem misst hefur starfsgetuna vegna veikinda eða slysa endurhæfingu og aðstoð við að fara aftur út á vinnumarkaðinn.  Í byrjun maí höfðu um 3.400 einstaklingar leitað til ráðgjafa VIRK á þessum tæpu þremur árum sem liðin eru. Um 72% þeirra sem hafa útskrifast frá VIRK eru með fulla starfsgetu og hafa horfið til vinnu eða náms.

Þetta kemur fram í fréttaskýringu Morgunblaðsins um málið föstudaginn 1. júní 2012. Þar segir meðal annars:

"Verði stjórnarfrumvarp um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsendurhæfingarsjóði lögfest á yfirstandandi þingi verður enn stærra skref stigið og komið á fót heildarkerfi starfsendurhæfingar fyrir alla sem eru á vinnufærum aldri en geta ekki stundað vinnu vegna heilsubrests. Verja á um 3,5 milljörðum árlega til starfsendurhæfingar sem komi frá atvinnulífinu, lífeyrissjóðum og ríkinu."

Samtök á vinnumarkaði og lífeyrissjóðir eru mjög áfram um að frumvarpið verði lögfest og taki gildi 1. júlí. Í umfjöllun Morgunblaðsins segir ennfremur:

"Samtök atvinnulífsins segja til mikils að vinna og benda á að 1. apríl sl. biðu 1.067 einstaklingar eftir varanlegum úrskurði um örorku og þar af voru rúmlega 300 yngri en 30 ára. Samtökin áætla að í fyrra hafi greiðslur Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða til örorkulífeyrisþega aukist í 35 milljarða kr. vegna bótahækkana og fjölgunar lífeyrisþega.

Í umsögn SA er lagasetningin tengd yfirstandandi endurskoðun laga um almannatryggingar sem hljóti að fela í sér gerbreyttar áherslur þannig að litið verði til starfsgetu einstaklinga en ekki almennrar vangetu þeirra. "Þá verður að afnema það fyrirkomulag að einstaklingar geti beint sótt um örorkulífeyri. Í stað þess komi sú umsókn frá teymi sérfræðinga, ekki einungis tryggingalækni [...]" segja SA.

VIRK fékk Talnakönnun til að meta fjárhagslegan ávinning af starfsendurhæfingu sem komst að þeirri niðurstöðu að í dæmi 40 ára einstaklings, sem tekur fullan þátt á vinnumarkaði og fær meðallaun í stað þess að fara á örorkulífeyri, sé samanlagður ávinningur hans, lífeyrissjóðs og ríkisins 105 milljónir kr. Í umfjöllun SA segir að ef næðist að helminga nýgengi örorku úr 1.100 einstaklingum á ári í 550 yrði ávinningurinn 36 milljarðar á ári."

Tengt efni:

Umsögn SA  um frumvarp til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða (heildarlög), 735. mál.

Vefur Virk - starfsendurhæfingarsjóðs

Samtök atvinnulífsins