Efnahagsmál - 

01. nóvember 2007

Meginviðfangsefni kjarasamninga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Meginviðfangsefni kjarasamninga

"Viðræður um nýja kjarasamninga eru nú komnar vel af stað en flestir samningarnir á samningssviði SA renna út um næstu áramót. Viðræðuáætlanir eru að mestu frágengnar og áherslur samningsaðila hafa verið að mótast. Meginviðfangsefni samninganna stefna í að tryggja þeim, sem setið hafa eftir við launaskrið síðustu missera, tiltekna lágmarks launaþróun og taka ákvarðanir um nýtt fyrirkomulag áfallatrygginga.

"Viðræður um nýja kjarasamninga eru nú komnar vel af stað en flestir samningarnir á samningssviði SA renna út um næstu áramót. Viðræðuáætlanir eru að mestu frágengnar og áherslur samningsaðila hafa verið að mótast. Meginviðfangsefni samninganna stefna í að tryggja þeim, sem setið hafa eftir við launaskrið síðustu missera, tiltekna lágmarks launaþróun  og taka ákvarðanir um nýtt fyrirkomulag áfallatrygginga.

Hæsti launakostnaður í Evrópu

Upplýsingar Hagstofunnar um laun og launaþróun gefa til kynna að íslenskt atvinnulíf búi nú við að jafnaði hæsta launakostnað í Evrópu, sem í sjálfu sér er mikið afrek og lýsir styrk atvinnulífsins, ef hægt er að rísa undir því til lengri tíma. Á undangengnu fjögurra ára samningstímabili hefur launavísitalan almennt hækkað um 7-11% árlega. Til samanburðar hafa launabreytingar á evrusvæðinu verið innan við 2% árlega að jafnaði síðustu ár. Gögn um dreifingu launahækkana sýna að verulegur hluti vinnumarkaðarins hérlendis hefur notið jákvæðrar kaupmáttarþróunar vegna kjarasamninga eða launaskriðs. Mikil eftirspurn eftir starfsfólki og fjölgun starfa og hverfandi atvinnuleysi bendir allt til þess að íslenskt atvinnulíf standi almennt vel um þessar mundir. Á því eru þó vissulega veigamiklar undantekningar s.s. í greinum þar sem meirihluta tekna er í erlendri mynt og kostnaður í krónum og sérstaklega í sjávarútvegi vegna minnkandi þorskveiða.

Samkeppnishæfni verði tryggð

Við þessi skilyrði er brýnt að varðveita samkeppnishæfni atvinnulífsins og gera ekkert sem gæti dregið úr þeim árangri sem náðst hefur. Launakostnaður á Íslandi getur ekki endalaust hækkað langt umfram það sem er í nágrannalöndunum. Fyrr eða síðar mun það leiða til óhóflegrar verðbólgu, veikingar atvinnulífsins og þeirra góðu lífskjara sem náðst hafa. Þess vegna hafa SA lagt áherslu á að í stað almennra launahækkana sé allt svigrúm notað til þess að færa kauptaxta nær greiddum launum, hækka lágmarkslaun og nota launaþróunartryggingu til þess að ná til þeirra sem annars sætu eftir. Samningsbundin launakerfi geta með þessum hætti þróast með hliðsjón af almennum breytingum á vinnumarkaðnum.

Fjárfest í endurhæfingu og þjónustu

Stjórnvöld hafa iðulega komið að málum í tengslum við gerð kjarasamninga eða endurnýjun þeirra. Á undarförnum árum hafa SA almennt ekki farið fram með mikla kröfugerð á hendur stjórnvöldum. Það sem nú mun koma helst til umræðu er hugsanleg aðkoma stjórnvalda vegna áfallatrygginga og hin skaðlega peningastefna Seðlabankans. Kostnaður atvinnulífsins nú vegna áfallatrygginga, þ.e. greiðslur vegna veikinda, slysa, sjúkrasjóða og örorku er nú um 7% af launum. Verði ekkert að gert munu á næstu árum koma fram þungar kröfur um stórum hærri kostnað vegna þessa málaflokks. Uppstokkun áfallatrygginga gengur út á það að fjárfesta í endurhæfingu, þjónustu, stuðningi og aðhaldi og ná þannig að lækka kostnaðinn fyrir atvinnulífið og allt samfélagið til lengri tíma. Farið verður fram á að ríkið leggi fram til málsins upphæð sem er rúmlega 1% af launum en njóti á móti sparnaðar vegna fækkunar örorkulífeyrisþega sem þiggja bætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Vaxtahækkun Seðlabanka hluti af mynstri

SA hafa mjög gagnrýnt vaxtastefnu Seðlabankans sem er í hreinni sjálfheldu og virðist svo sem bankinn muni ekki telja sig geta lækkað vexti í fyrirsjáanlegri framtíð. Vaxtahækkunin í dag er hluti af þessu mynstri. Afleiðingin er hærra gengi krónunnar en samrýmist hagsmunum þjóðarbúsins og miklar gengissveiflur sem eru mjög skaðlegar fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni en áhrifin á verðbólguna eru hverfandi. SA hafa m.a. viljað skoða þá leið að verðbólguviðmiðun bankans taki ekki mið af hækkunum á eignaverði, þ.á.m. verðbreytingum á íbúðarhúsnæði. Þetta er í samræmi við vinnubrögð bæði evrópska og bandaríska seðlabankans sem reyndar hafa hvorugur yfirlýst verðbólgumarkmið eins og Seðlabanki Íslands. Þannig tekur Seðlabanki Evrópu (ECB) mið af samræmdri neysluverðsvísitölu Evrópusambandsins sem undanskilur verðbreytingar á eigin húsnæði. Samkvæmt þessari vísitölu stefnir í að meðalverðbólga á Evrusvæðinu síðustu fjögur árin verði rúmlega 2%. Meðalverðbólga á Íslandi á sama mælikvarða stefnir í að verða um 3% eða innan við 1% hærri en verðbólgan á Evrusvæðinu þrátt fyrir allan uppganginn og þensluna í íslensku efnahagslífi. Íslenska neysluverðsvísitalan hækkar væntanlega að meðaltali um nálægt 5% árlega á þessum tíma en aðeins fjögur önnur ríki af OECD ríkjunum 30 meðhöndla verðbreytingar á eigin húsnæði með sambærilegum hætti.  Eitt er hvernig verðbreytingar á eigin húsnæði eru reiknaðar inn í vísitölu neysluverðs og annað hvernig þær eru hafðar til hliðsjónar í verðbólgumarkmiðum seðlabanka. Ljóst er að Seðlabanki Íslands hefur ákveðna sérstöðu í þessu efni.  (Svo er önnur spurning hvort vinnubrögð ECB verða talin hindrun fyrir hugsanlegri upptöku Evru á Íslandi).

 

Atvinnulífið getur ekki unað við núverandi ástand

Vaxtastefna Seðlabankans og verðbólgumarkmið hans munu óhjákvæmilega koma til umræðu við gerð kjarasamninganna. Breiðfylking atvinnulífsins, SA og öll aðildarsamtökin, standa að þeirri stefnu sem SA hefur kynnt varðandi verðbólgumarkmið bankans og úrbætur á peningastefnunni. Atvinnulífið getur ekki unað við þær gengissveiflur sem peningastefnan hefur haft í för með sér.  Breyting þar á er ein af meginforsendunum fyrir því að atvinnulífið geti axlað áfram þá byrði að bera hæsta launakostnað í Evrópu."

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins