Efnahagsmál - 

12. Janúar 2011

Meginmarkmið að þjóðin nái fyrri styrk

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Meginmarkmið að þjóðin nái fyrri styrk

Viðræður aðila vinnumarkaðarins um nýja kjarasamninga eru nú komnar á skrið eftir að hafa legið niðri yfir jól og áramót. Í gær áttu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins fund með samninganefnd Alþýðusambands Íslands og í hádeginu í dag funduðu SA með leiðtogum ríkisstjórnarflokkanna, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Á fundum Samtaka atvinnulífsins með ASÍ og ríkisstjórninni lögðu SA fram samantekt vegna kjaraviðræðnanna þar sem sett eru fram meginmarkmið SA og yfirlit um þau mál sem samtökin vilja að ríkisstjórn og Alþingi taki til umfjöllunar og afgreiðslu samhliða gerð nýrra kjarasamninga.

Viðræður aðila vinnumarkaðarins um nýja kjarasamninga eru nú komnar á skrið eftir að hafa legið niðri yfir jól og áramót. Í gær áttu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins fund með samninganefnd Alþýðusambands Íslands og í hádeginu í dag funduðu SA með leiðtogum ríkisstjórnarflokkanna, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Á fundum Samtaka atvinnulífsins með ASÍ og ríkisstjórninni lögðu SA fram samantekt vegna kjaraviðræðnanna þar sem sett eru fram meginmarkmið SA og yfirlit um þau mál sem samtökin vilja að ríkisstjórn og Alþingi taki til umfjöllunar og afgreiðslu samhliða gerð nýrra kjarasamninga.

Samtök atvinnulífsins kröfðust þess á fundi með leiðtogum ríkisstjórnarinnar í dag að atvinnutryggingargjald verði lækkað um tæpt 1% í samræmi við lög þar sem gjaldið er nú of hátt.

Samstaða um atvinnusókn

Samantekt SA um kjarasamningana má nálgast hér að neðan í heild sinni en þar kemur m.a. fram að meginmarkmið Samtaka atvinnulífsins í komandi kjarasamningum er að skapa skilyrði fyrir auknar fjárfestingar, fyrst og fremst í útflutningsgreinum, til þess að atvinnulífið og þjóðin öll nái fyrri styrk.  Þannig skapast ný störf til skemmri og lengri tíma, atvinna verður í boði fyrir alla sem vilja vinna og atvinnuleysi minnkar hratt.

Skynsamlegir kjarasamningar til þriggja ára með launakostnaðarhækkunum á svipuðu róli og í nágrannalöndum okkar (7-8% á þremur árum) eru nauðsynlegir til að skapa stöðugleika, draga úr óvissu og hvetja til ákvarðana um fjárfestingar í atvinnulífinu. Ennfremur þurfa ríkisstjórn og Alþingi að koma að málum. Allt þarf að miðast við að laða fram auknar fjárfestingar með hagstæðum skilyrðum, stöðugleika og minni óvissu.

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að gerðir verði kjarasamingar til þriggja ára. Launastefna verði samræmd og viðmið sett vegna launakostnaðarhækkana. Útfærsla fyrir einstaka viðsemjendur geti þó verið sveigjanleg.

Ríkisstjórn og Alþingi þurfa að koma að málum

Yfirlit yfir þau mál sem SA leggja áherslu á gagnvart ríkisstjórn og Alþingi eru eftirfarandi:

Varðandi auknar fjárfestingar leggja SA áherslu á:

  • Afnám gjaldeyrishafta og trúverðugar væntingar um hækkandi gengi

  • Opnun fjármagnsmarkaða og lækkandi vextir og fjármagnskostnaður

  • Sátt um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á grundvelli niðurstöðu endurskoðunarnefndar

  • Lækkun atvinnutryggingagjalds til samræmis við minna atvinnuleysi

  • Breytingar á skattamálum fyrirtækja sbr. tillögur SA og VÍ

  • Átak til að koma stórum fjárfestingarverkefnum í atvinnulífinu á skrið

Varðandi ýmis önnur atriði leggja SA áherslu á eftirfarandi þætti:

  • Yfirstjórn og framkvæmd atvinnuleysistrygginga til aðila vinnumarkaðarins

  • Afgreiðsla á frumvarpi um greiðsluskyldu til Starfsendurhæfingarsjóðs

  • Aðgerðir til jöfnunar lífeyrisréttinda á vinnumarkaðnum

  • Átaksverkefni í menntamálum í þágu atvinnulífsins og ferðaþjónustu utan sumartíma

Næsti fundur SA og ASÍ mánudaginn 17. janúar
Næsti fundur samninganefnda SA og ASÍ hefur verið boðaður mánudaginn 17. janúar hjá ríkissáttasemjara. Fram að þeim fundi þarf að skýrast hvort og með hvaða hætti ríkisstjórnin er tilbúin að koma að gerð nýrra kjarasamninga.

Sjá nánar:

Samantekt SA um kjarasamningana - 12. janúar 2011

Bréf SA til fjármálaráðherra - 12. janúar 2011

Samtök atvinnulífsins