”Meet the winners”: Ísland

Aðalfundur dönsku samtaka iðnaðarins, Dansk Industri (DI), fór fram þann 29. september í Bella Center í Kaupmannahöfn. Ísland var þar í sviðsljósinu en yfirskrift fundarins var: Meet the Winners. Að mati Dana eru Íslendingar í hópi þeirra þjóða sem hafa náð framúrskarandi árangri á sviði viðskipta og efnahagsmála og var fjallað sérstaklega um árangur Íslands á fundinum og hvað Danir gætu lært af Íslendingum. Um eitt þúsund manns sóttu fundinn - stjórnendur, stjórnmálamenn og alþjóðlegir gestir.

Íslandingar eru meðal þeirra þjóða í Evrópu sem hafa náð hvað mestum árangri á undanförnum árum og samkvæmt úttekt DI er hvergi betra að eiga viðskipti í heiminum en á Íslandi og í Bandaríkjunum, en þessar þjóðir deila fyrsta sætinu á lista DI yfir besta viðskiptaumhverfið á heimsvísu. Þetta má lesa á forsíðu sérútgáfu fréttabréfs DI sem kom út 29. september en þar er fjallað um Ísland, Írland og Massachusetts í Bandaríkjunum. Þetta eru hagkerfi og landsvæði sem Danir horfa til sem fyrirmynda og því var sjónum beint að þeim á aðalfundi DI.

Mikill áhugi á Íslandi sem fyrirmynd
Fjallað var um árangur Íslands, Írlands og Massachusetts í sérstökum málstofum á aðalfundi DI, og sóttu flestir málstofuna um Ísland þar sem Danir spurðu sig að því hvað þeir gætu lært af Íslendingum til að geta staðið sig betur í sífellt harðnandi alþjóðlegri samkeppni. Á fimmta hundrað manns tóku þátt í umræðum og horfðu á stuttmynd um Ísland og árangur þess. Í myndinni var m.a. rætt við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, Tryggva Þór Herbertsson, forstöðumann Hagfræðistofnunar,  Lárus S. Ásgeirsson. sölu- og markaðsstjóra hjá  Marel og Jón Ágúst Þorsteinsson framkvæmdastjóra Marorku. Hægt er að horfa á myndina á vef DI.

Einstæður árangur Íslands og áskoranir framtíðarinnar
Það sem Dönum þykir til fyrirmyndar á Íslandi er m.a. hagstætt og samkeppnishæft skattaumhverfi, ríkur frumkvöðlakraftur (íslensk framkvæmdagleði), og vilji Íslendinga til að vinna. DI reiknast það til að ef Danir ynnu jafn mikið og Íslendingar og væru jafnlengi á vinnumarkaðinum gætu tekjur danska þjóðarbúsins aukist um allt að 85 milljarða danskra króna. Dönum þykir lofsvert að á Íslandi er atvinnuþátttaka eldra fólks um 40% meiri en í Danmörku, eldra fólk hafi hér vinnu og atvinnuleysi sé lítið. Innan OECD er atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 60-69 ára raunar hvergi meiri en á Íslandi. Á fundinum virtist rík samstaða um það að helsta vandamálið í þessu sambandi í Danmörku væru háir jaðarskattar. Aukin vinna skilaði fólki litlum viðbótartekjum, einkum í efri launastigum.

Þrátt fyrir jákvæða umfjöllun benda DI þó á að Ísland standi líkt og Danmörk frammi fyrir áskorunum í framtíðinni og ef Íslendingar ætli að halda stöðu sinni meðal ríkustu þjóða heims verði að auka enn frekar framleiðni atvinnulífsins og leggja jafnframt aukna áherslu á menntun.

Umfjöllun DI um Ísland, Írland og Massachusetts (PDF skjal).


Yfirlit yfir erindi og efni frá aðalfundi DI.

Umfjöllun um efni aðalfundar DI á ensku.

Mynd um sigurvegarann: Ísland.