Vinnumarkaður - 

22. október 2015

Meðaltekjur á Íslandi næst hæstar á Norðurlöndum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Meðaltekjur á Íslandi næst hæstar á Norðurlöndum

Ísland er hálaunaland samkvæmt alþjóðlegum samanburði OECD, Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunarinnar í París. Í umræðu um kjaramál er því hins vegar sífellt haldið fram að Ísland sé láglaunaland, einkum í samanburði við Norðurlönd. Samkvæmt gögnum OECD eru meðaltekjur á Íslandi næst hæstar á Norðurlöndunum og því er nær sanni að segja að Ísland sé hálaunaland. Við samanburð launa milli landa er algengast að látið sé nægja að umreikna þau í sama gjaldmiðil. Sá einfaldi útreikningur dregur upp skakka mynd af mismun á kaupmætti launa og þar með lífskjörum í viðkomandi löndum.

Ísland er hálaunaland samkvæmt alþjóðlegum samanburði OECD, Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunarinnar í París. Í umræðu um kjaramál er því hins vegar sífellt haldið fram að Ísland sé láglaunaland, einkum í samanburði við Norðurlönd. Samkvæmt gögnum OECD eru  meðaltekjur á Íslandi næst hæstar á Norðurlöndunum og því er nær sanni að segja að Ísland sé hálaunaland. Við samanburð launa milli landa er algengast að látið sé nægja að umreikna þau í sama gjaldmiðil. Sá einfaldi útreikningur dregur upp skakka mynd af mismun á kaupmætti launa og þar með lífskjörum í viðkomandi löndum.

Ástæðurnar eru einkum tvær. Skattkerfi ríkja eru mismunandi sem hefur áhrif á ráðstöfunartekjur og kaupmátt þeirra og þar sem laun eru há er verðlag einnig hátt og þar sem laun eru lág er verðlag lágt. Af síðarnefndu ástæðunni er mismunur á launum milli landa meiri en á kaupmætti launa.

Launahækkanir á Íslandi eru miklu meiri á þessu ári en í öðrum löndum OECD. Útlit er fyrir að kaupmáttur aukist um 6% á Íslandi en framleiðni minnki um 0,4%. Það gengur þvert gegn efnahagslögmálum og getur ekki gengið til lengdar.

Bestu launakjörin í Sviss – Ísland í tíunda sæti
OECD,  birtir árlega samanburð á launum í aðildarríkjum stofnunarinnar þar sem tillit er tekið til mishás verðlags og ólíkra skatt- og bótakerfa. Samanburður er gerður á kaupmætti meðalárstekna launafólks fyrir og eftir skatta og bótagreiðslur í sameiginlegri mynt, bandaríkjadollurum (USD). Mismunandi fjölskyldugerðir eru bornar saman, þ.e.  barnlausir einstaklingar, einstæðir foreldrar og sambýlisfólk með börn og án þeirra, með meðaltekjur og þriðjungi hærri eða lægri tekjur en þær.

Samanburðurinn sem er gerður á grundvelli meðalárstekna nær til 34 ríkja OECD og eru nýjustu tölur frá árinu 2014. Langhæstu meðalárstekjur einstaklinga eftir skatta og bætur voru greidd í Sviss, 55 þúsund kaupmáttarleiðréttir USD. Þar á eftir komu Noregur og Lúxemborg með 42 þúsund USD en Ísland var í tíunda sæti með 36 þúsund USD.

undefined

Ísland nálgast Noreg
Árið 2014 voru meðalárstekjur barnlauss einstaklings á Íslandi eftir skatta og bætur næst hæstar á Norðurlöndum, eða 36 þúsund USD, samanborið við 42 þúsund í Noregi, 35 þúsund í Svíþjóð og 32 þúsund í Danmörku og Finnlandi.

Miklar breytingar hafa orðið á gengi gjaldmiðla frá árinu 2014. Íslenska krónan hefur styrkst, evran veikst gagnvart USD og norska krónan fallið mikið. Í október 2015 hafði evran veikst um 16% gagnvart USD og norska krónan um 28%. Íslenska krónan hafði styrkst um 20% gagnvart norskri krónu, um 9% gagnvart evru en veikst um 7% gagnvart USD. Auk mikilla breytinga á gengi gjaldmiðla hafa laun á Íslandi hækkað mun meira en í öðrum ríkjum. Þessar breytingar gerbreyta alþjóðlegum samanburði á launakjörum. Framreikningur á samanburði OECD fyrir árið 2014 til október 2015, þar sem tekið er tillit til gengisbreytinga og þróunar launa og verðlags milli þessara tímabila, leiðir í ljós að Ísland er í öðru sæti í Norðurlandasamanburði, hvort sem litið er á meðalárstekjur fyrir eða eftir skatta og bætur.

Þegar litið er á árstekjur eftir skatta og bætur  voru meðaltekjurnar orðnar 39 þúsund USD, eða 8% lægri en í Noregi en 2% hærri en í Svíþjóð og 17% hærri en í Finnlandi og 20% hærri en í Danmörku.
undefined

Hálaunaland með hálaunastefnu
OECD áætlar að laun í aðildarríkjunum hækki að meðaltali um 2,2% á þessu ári. Þegar litið er til Norðurlandaer áætlað að laun hækki að meðaltali um 1,3% í Finnlandi, 1,9% í Danmörku, 2,6% í Svíþjóð og 2,9% í Noregi. Á Íslandi er meðalhækkun launa áætluð 7,5% og sker landið sig algerlega úr þar sem launabreytingar í þeim löndum sem næst koma eru í kringum 3%.

Efnahagslögmáli storkað
Það telst til efnahagslögmála að kaupmáttur launa geti ekki aukist til langframa nema framleiðni aukist að sama skapi. Hægt er að víkja frá þessu samhengi kaupmáttar launa og framleiðni til skamms tíma en munurinn jafnast út með tímanum. Frávik frá þessu langtímasambandi geta þó orðið af völdum breyttra viðskiptakjara þannig að bætt viðskiptakjör geta stuðlað að kaupmáttaraukningu umfram vöxt framleiðni en á hinn bóginn leiða versnandi viðskiptakjör til lakari kaupmáttarþróunar.

Framleiðni og kaupmáttur launa þróast nokkurn veginn í takt á ári hverju í þeim löndum sem Íslendingar bera sig saman við. Samkvæmt tölum OECD verður þróun þessara stærða í Danmörku og Svíþjóð svipuð á þessu ári, en í Finnlandi vex kaupmáttur heldur meira en framleiðni en í Noregi heldur minna. Í OECD ríkjunum í heild vex kaupmáttur nokkuð umfram framleiðni sem að mestu má rekja til þróunarinnar í Bandaríkjunum þar sem kaupmáttur eykst um 2,5% en framleiðni stendur í stað. Ísland sker sig úr í þessum alþjóðlegum samanburði þar sem kaupmáttur launa eykst um 6% en framleiðni minnkar um 0,4%.
undefined

Samtök atvinnulífsins