Efnahagsmál - 

28. Janúar 2011

Með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi

Það er mikill misskilningur að kröfur atvinnurekenda í yfirstandandi kjaraviðræðum snúist einungis um fiskveiðistjórnunarkerfið. Þetta segir Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins og stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að reynt sé að gera önnur samtök en sjávarútvegs tortryggileg með því að í viðræðunum sé verið að ganga erinda LÍÚ, eins aðildarfélaga SA.

Það er mikill misskilningur að kröfur atvinnurekenda í yfirstandandi kjaraviðræðum snúist einungis um fiskveiðistjórnunarkerfið. Þetta segir Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins og stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að reynt sé að gera önnur samtök en sjávarútvegs tortryggileg með því að í viðræðunum sé verið að ganga erinda LÍÚ, eins aðildarfélaga SA.

Helgi segir þetta ekki rétt því verið sé að ganga erinda alls alls atvinnulífsins í þeirri vegferð að koma hér á öflugum hagvexti að nýju með því að fara atvinnuleið í stað atvinnuleysisleiðar. Með því að fara atvinnuleiðina megi eyða atvinnuleysinu, auka kaupmátt fólks og bæta hag fyrirtækja. "Þannig göngum við erinda allrar þjóðarinnar."

Helgi segir margt þurfa að koma til svo snúa megi við þeirri óheillaþróun sem við blasir á íslenskum vinnumarkaði með um 14.000 manns á atvinnuleysisskrá. Ef ekki verði brugðist kröftuglega við séu Íslendingar ekki á leið út úr kreppunni. Helgi segir að eyða þurfi óvissu og skapa þannig aðstæður að fjárfestingar sem eru í sögulegu lágmarki hefjist á ný í íslenskum fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum þó sérstaklega í útflutningsgreinum.

Um framtíðarfyrirkomulag fiskveiða við Ísland og auðlindanýtingu segir Helgi:

"Sú var tíð að íslenskur iðnaður og sjávarútvegur tókust á um kvótakerfið og sjávarútvegsstefnu landsmanna. Þeirri umræðu er ekki lokið og mikilvægt er að sem best sátt náist um auðlindastefnu Íslendinga, jafnt til lands og sjávar. Það er viðamikið verkefni að ná breiðri samstöðu um þetta mikilvæga mál. Við lausn þess þarf að beita skipulegum og öguðum  vinnubrögðum sem eru til þess fallin að leiða til sanngjarnrar niðurstöðu og sáttar.

Það gengur ekki að nálgast þetta verkefni með hávaða og látum á pólitískum uppboðsmarkaði. Eins þarf að velja tímann rétt og sá tími er ekki núna þegar þjóðin þarf að forgangsraða þannig að unnt reynist að eyða atvinnuleysi, bæta lífskjör fólks og efla fyrirtækin í landinu til dáða á ný. Til þess þarf myndarlegan hagvöxt strax á þessu ári og hann næst ekki nema allar atvinnugreinar geti virkað af fullum krafti."

Greinina í heild má lesa í Morgunblaðinu 28. janúar 2011.

Samtök atvinnulífsins