1 MIN
Markmiðin geta náðst
Samþykkt stjórnar Samtaka atvinnulífsins:
Samþykkt stjórnar Samtaka atvinnulífsins:
Stjórn Samtaka atvinnulífsins telur afar mikilvægt að það markmið um þróun verðbólgu næstu mánaða, sem sett var með samkomulagi SA og ASÍ í samráði við ríkisstjórnina í desember sl., náist. Í því ljósi fagnar stjórn SA ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 31. janúar um að draga til baka áður ákveðnar hækkanir á opinberum gjaldskrám og sama gildir um sambærilegar ákvarðanir margra sveitarfélaga og fyrirtækja. Þessar aðgerðir, ásamt aðhaldssamri verðlagningu fyrirtækja á markaði, eiga að geta leitt til þess að verðlagsmarkmið í maí nk. náist og þannig verði komist hjá hugsanlegri víxlverkun verðlags- og launahækkana. Lækkanir á opinberum gjaldskrám mega þó ekki leiða til hallareksturs hins opinbera og því verður að ganga lengra í aðhaldi og hagræðingu. Stjórnin hvetur því alla til áframhaldandi vöku til að halda aftur af verðbólgunni.
Undirliggjandi kostnaðarþrýstingur vegna lækkunar gengis krónunnar á síðasta ári og launahækkana undanfarinna missera er ógn við markmið um að verðbólga og fjármagnskostnaður komist á svipað stig og í viðskiptalöndunum. Þessar aðstæður krefjast aukins aðhalds af hálfu hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, en á það hefur skort, samanber launaþróun í þessum geira. Aðhald verður ekki aukið með hækkunum skatta eða gjalda og því krefjast aðstæður nú þess að opinberir aðilar hagræði í rekstri sínum. Einkavæðing er mikilvægur þáttur í þessu sambandi. Samtök atvinnulífsins telja að stjórnvöld eigi ekki að bíða betri tíma í von um að fá sem hæst verð fyrir þau fyrirtæki sem ákveðið hefur verið að einkavæða. Markmið einkavæðingar á ekki að vera að auka ríkistekjur tímabundið heldur að ná fram betri rekstri sem, þegar fram í sækir, eykur tekjur ríkissjóðs og bætir lífskjör.
Stjórn SA hefur trú á því að verðbólgan fari ört minnkandi á næstu mánuðum. Það dregur hratt úr halla í viðskiptum við útlönd og jafnvægi hefur náðst á vinnumarkaðnum. Efnahagslífið hefur þróast í átt til aukins jafnvægis og því hafa skapast skilyrði fyrir verulegri vaxtalækkun.