Markaðsvæðing húsnæðisfjármögnunar á Íslandi

Markaðsvæðing húsnæðisfjármögnunar á Íslandi er heiti nýrrar skýrslu Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) þar sem lagt er til að húsnæðislánamarkaðurinn á Íslandi verði færður í sambærilegt horf og almennt gerist í nágrannalöndunum.

Hlutur ríkisins á íslenskum húsnæðislánamarkaði er mun hærri en almennt þekkist á sömu mörkuðum víðast erlendis. Þannig fara nánast allar lánveitingar til íbúðarhúsnæðis hérlendis í gegnum hinn ríkisrekna Íbúðalánasjóð. Skipting fasteignalána á Íslandi í lán til íbúðakaupa og lán til kaupa á atvinnuhúsnæði er nokkuð jöfn. Þar sem lánafyrirtæki á frjálsum markaði eiga stærstan hluta af lánum til atvinnuhúsnæðis má áætla að hlutur íslenska ríkisins í fasteignalánamarkaði sé um 50%. Til samanburðar nemur hlutur norska Husbanken um 12% af þarlendum húsnæðislánamarkaði, hlutfall ríkisins er enn minna í Finnlandi og ekkert í Svíþjóð og Danmörku.

Í skýrslu SBV eru kynntar megináherslur samtakanna, reifuð almenn sjónarmið um þátttöku ríkisins í íslenskum fjármálamarkaði og fjallað um áhrif húsbréfakerfisins á lántakendur og áhrif flutnings til fjármálafyrirtækja á lánskjör. Loks eru ræddar þrjár mögulegar leiðir til breytinga á núverandi fyrirkomulagi húsnæðislána. Í viðauka er svo m.a. fjallað um húsnæðislánakerfið á hinum Norðurlöndunum og í Þýskalandi og Bandaríkjunum.


 

Sjá skýrslu SBV (pdf-skjal)