Efnahagsmál - 

06. september 2006

Margra vikna bið eftir kennitölu fyrir útlendinga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Margra vikna bið eftir kennitölu fyrir útlendinga

Það tekur um sex vikur fyrir erlent starfsfólk sem kemur hingað til lands að fá úthlutað kennitölu hjá Þjóðskrá. Forsvarsmenn Þjóðskrár hafa varið þennan langa afgreiðslutíma með því að umsóknir um kennitölur séu í ólagi og langan tíma taki fyrir starfsfólk Þjóðskrár að kalla eftir leiðréttingum. Eftirgrennslan SA hefur hins vegar leitt í ljós að mistök við útfyllingu umsókna megi fyrst og fremst rekja til ónógra og villandi upplýsinga frá sjálfri Þjóðskránni.

Það tekur um sex vikur fyrir erlent starfsfólk sem kemur hingað til lands að fá úthlutað kennitölu hjá Þjóðskrá. Forsvarsmenn Þjóðskrár hafa varið þennan langa afgreiðslutíma með því að umsóknir um kennitölur séu í ólagi og langan tíma taki fyrir starfsfólk Þjóðskrár að kalla eftir leiðréttingum. Eftirgrennslan SA hefur hins vegar leitt í ljós að mistök við útfyllingu umsókna megi fyrst og fremst rekja til ónógra og villandi upplýsinga frá sjálfri Þjóðskránni.

Flókið úrlausnarefni?

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá eru ýmsir ágallar á umsóknum um kennitölur. Þjóðskrá segir til dæmis umsóknareyðublað oft undirritað af starfsmanninum sjálfum en ekki vinnuveitanda. Einungis lögaðilar geti sótt um kennitölur en ekki einstaklingarnir sjálfir. Á umsóknareyðublaðinu er hins vegar ekki tilgreint hver skuli undirrita umsóknina eða áréttað að það sé ekki hlutverk einstaklingsins sjálfs að sækja um kennitölu. Á enskri útgáfu eyðublaðsins er beðið um undirskrift  company eða person. Af hverju er óskað eftir undirritun "person" ef einstaklingur getur ekki sjálfur sótt um kennitölu?

Stimpilskortur og faxvandræði

Annað atriði sem tefur afgreiðslu umsókna um íslenska kennitölu er að sögn starfsfólks Þjóðskrár skortur á stimpli fyrirtækis á umsóknareyðublaði. Samt sem áður er ekki tilgreint á eyðublaðinu að það þurfi að stimpla það sérstaklega með stimpli fyrirtækis! Þá tefji það einnig afgreiðslu að umsóknir um kennitölur séu oft sendar sem símbréf til Þjóðskrár. Þær séu oft óskýrar, sérstaklega ljósrit úr vegabréfi. Ef litið er inn á vef Þjóðskrár kemur hins vegar í ljós að sérstaklega er tekið fram að senda megi umsóknir sem símbréf til Þjóðskrár og bréfasímanúmer er tilgreint á umsóknareyðublaðinu. Ef sá sendingarmáti tefur hins vegar fyrir afgreiðslu umsókna þá þarf að taka á því.

 

Skortur á leiðbeiningum

Öll tilvist fólks hér á landi byggir á kennitölunni og því hefur langur umsóknarferill hjá Þjóðskrá í för með sér mikil óþægindi fyrir atvinnurekendur og erlent launafólk sem hingað kemur til starfa. Engar leiðbeiningar er þó að finna á heimasíðu Þjóðskrár um útfyllingu umsókna og engar skriflegar leiðbeiningar eru heldur fáanlegar á skrifstofu Þjóðskrár.

Samtök atvinnulífsins