22. mars 2022

Mannabreytingar hjá Samtökum atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mannabreytingar hjá Samtökum atvinnulífsins

Anna Hrefna Ingimundardóttir verður aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Páll Ásgeir Guðmundsson hefur verið ráðinn sem forstöðumaður sameinaðs efnahags- og samkeppnishæfnissviðs.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, sem gegnt hefur starfi forstöðumanns efnahagssviðs SA, hefur verið ráðin aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hún tekur við af Ásdísi Kristjánsdóttur, sem hefur haslað sér völl í stjórnmálum. Þá hefur Páll Ásgeir Guðmundsson verið ráðinn forstöðumaður sameinaðs efnahags- og samkeppnishæfnissviðs, sem hefur með greiningu efnahagsmála, umsagnagerð og stefnumörkun fyrir atvinnulífið að gera.

Anna Hrefna hefur víðtæka reynslu sem efnahagsgreinandi, bæði innanlands og erlendis. Hún tók við starfi forstöðumanns efnahagssviðs SA árið 2020 en áður vann hún við sérhæfðar fjárfestingar hjá Eldhrímni ehf. Þar áður starfaði hún sem efnahagsgreinandi hjá greiningardeild Arion banka og sem lánastjóri á fyrirtækjasviði bankans. Hún starfaði um margra ára skeið við greiningar á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum. Hún er með BA og MA-gráður í hagfræði frá New York University. Hún hefur auk þess réttindi sem löggiltur verðbréfamiðlari.

Anna Hrefna tekur við starfinu í dag.

Páll Ásgeir hefur undanfarin fimm ár starfað sem aðstoðarmaður ráðherra, fyrst í forsætisráðuneytinu en frá haustinu 2017 í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Páll hefur fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu og hefur m.a. starfað við markaðsmál og stjórn fyrirtækja. Hann var framkvæmdastjóri Telmar á Íslandi og gegndi starfi sviðsstjóra markaðs- og viðhorfsrannsókna hjá Gallup þar sem hann starfaði með mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins, auk þess að leiða viðhorfsrannsóknir og vöruþróun fyrirtækisins.

Páll hefur starfað að mörgum verkefnum á sviði efnahags og vinnumarkaðsmála á undanförnum árum. Hann kom að vinnu stjórnvalda í tengslum við Lífskjarasamningana 2019 og leiddi m.a stýrihóp um endurskoðun á tekjuskattskerfi einstaklinga á árunum 2018-2019. Þá hefur hann unnið að efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Auk þess sat Páll í stýrihópi um Stafrænt Ísland og í stjórnum Flugþróunarsjóðs og Ferðamálaráðs. Páll er er með BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands.

Páll mun hefja störf hjá Samtökum atvinnulífsins í maí.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA:

„Framundan eru krefjandi kjarasamningaviðræður og íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir mörgum áskorunum. Þau Anna Hrefna og Páll Ásgeir hafa áunnið sér mikið traust með fjölbreyttum störfum sínum og við fögnum því að fá að njóta krafta þeirra í nýjum hlutverkum. Við væntum mikils af þeim í störfum fyrir fyrirtækin í landinu í samstarfi við þann öfluga hóp sem starfar hjá Samtökum atvinnulífsins.“

Samtök atvinnulífsins