Mál málanna

Kosningar til Alþingis eru nú afstaðnar eins og hefur varla farið framhjá nokkrum manni. Þreifingar eru hafnar milli flokka um myndun nýrrar ríkisstjórnar og loforðalistar eru mátaðir saman til að sjá hvort mögulegt samstarf gangi upp. Óháð því hvernig eða hvaða ríkisstjórn verður mynduð liggur ljóst fyrir að niðurstöður kjarasamninga munu ráða miklu um lífskjör Íslendinga á næstu misserum.

Í grunninn eru kjaraviðræður samningaviðræður um jákvæða þróun samfélagsins og leiðir til að bæta lífskjör fólks.

Staðan góð en blikur á lofti
Ef horft er til stöðu efnahagsmála á Íslandi er óumdeilt að staðan hefur aldrei verið betri. Góð staða útilokar hins vegar ekki að hægt sé að gera enn betur og mörg brýn verkefni bíða úrlausnar. Til að vel takist til þarf að vanda til verka og þó að menn kunni að greina á um leiðir er mikilvægt að opinberum staðreyndum sé haldið til haga.

Umræður  um efnahags- og kjaramál á Íslandi hafa oftar en ekki einkennst af röngum staðhæfingum og ályktunum og því hafa Samtök atvinnulífsins að undanförnu komið réttum upplýsingum á framfæri.

Staðreyndirnar tala sínu máli eins og lesa má nánar um á www.sa.is/stadreyndir

  • Launajöfnuður er sá mesti innan allra ríkja OECD og hefur aukist á undanförnum árum.
  • Lágmarkslaun hafa tvöfaldast á síðustu sjö árum og eru ein þau hæstu í heimi.
  • Á Íslandi eru að meðaltali greidd næst hæstu heildarlaun í heimi á eftir Sviss, hærri en í t.d. Lúxemborg, Danmörku og Noregi.
  • Kaupmáttur á Íslandi á síðasta ári jókst um rúmlega 7%, sem er fjórtán sinnum meira en innan ríkja ESB.
  • Hlutur launafólks í verðmætasköpun efnahagslífsins er hæstur á Íslandi í samanburði OECD-ríkja.
  • Opinber útgjöld eru mikil á Íslandi, töluvert yfir meðaltali Evrópuríkja.
  • Umsaminn ársvinnutími á Íslandi er hvergi styttri í Evrópu, að Frakklandi undanskildu.
  • Ísland er háskattaland. Þegar kemur að skattgreiðslum trónir Ísland á toppnum, með norrænu velferðarríkjunum Danmörku og Svíþjóð.

Jákvæð þróun samfélagsins
Fréttir af kjaraviðræðum einkennast ofar en ekki af átökum en í grunninn eru þær samningaviðræður um jákvæða þróun samfélagsins og leiðir til að bæta lífskjör fólks. Stundum er mikið til skiptanna og stundum lítið. Á undanförnum misserum hafa laun hækkað margfalt á Íslandi miðað við nágrannalöndin en nú er að hægja á vexti efnahagslífsins og því minna til skiptanna. Verði miklar launahækkanir knúnar fram í vetur þýðir það aðeins eitt, verðlag mun hækka og störfum fækka.

Stærsta hagsmunamálið
Lægri vextir er eitt stærsta hagsmunamál heimila og atvinnulífs en það verður ekki hægt að kalla fram sænska vexti hér á landi með íslenskum launahækkunum. Hóflegar launahækkanir eru almannagæði og að sama skapi er ekkert svigrúm til frekari skattahækkana, enda er Ísland nú þegar háskattaland í alþjóðlegum samanburði. Það verður ekki endalaust seilst í vasa launafólks og atvinnurekenda til að standa undir síauknum útgjöldum hins opinbera.

Öflugt atvinnulíf
Undanfarnar vikur og mánuði hafa Samtök atvinnulífsins ferðast um Ísland og efnt til opinna funda sem hafa verið vel sóttir og umræður verið góðar. Þar hefur komið skýrt fram að öflugt atvinnulíf leggur grunn að góðum lífskjörum á Íslandi og ljóst að framtíðin er björt ef stjórnmálamenn búa atvinnulífinu hagstæð skilyrði. Fjölmargar fyrirtækjaheimsóknir SA staðfesta það, en til að standa undir 3% hagvexti næstu árin - og góðum lífskjörum - þarf að auka útflutning um 50 milljarða á ári. Það er svipuð aukning og ferðaþjónustan hefur lagt til þjóðarbúsins á undanförnum árum.

Það eru áhugaverðir tímar framundan.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í október 2017