Mælt með einu þrepi virðisaukaskatts
Alþjóðavæðingin knýr á um lækkun VSK hlutfalls í Svíþjóð og öðrum háskattalöndum. Nýleg sænsk skýrsla mælir með afnámi undanþága til að auðvelda lækkun almenna hlutfallsins. Fáar undanþágur stuðla að lægri jaðarsköttum og minnka líkur á bjöguðum fjárfestinga- og neysluákvörðunum, sem hafa sóun í för með sér.
VSK og stjórnarsáttmálinn
Í nýja stjórnarsáttmálanum segir að virðisaukaskattkerfið verði
tekið til endurskoðunar með það í huga að bæta kjör almennings. Í
kosningabaráttunni var nokkuð rætt um að lækka neðra þrep skattsins
úr 14% í 7%, en það leggst á matvæli, orkugjafa til húshitunar,
bækur, tímarit, dagblöð, afnotagjöld útvarpsstöðva og útleigu
hótelherbergja. Óháð þessu er hugsanlegt að breytingar á
virðisaukaskatti hér á landi verði knýjandi og koma þá önnur rök og
sjónarmið til sögunnar en þau tekjuskiptingarsjónarmið sem ríkjandi
hafa verið í umræðunni. Þá er einkum horft til áhrifa
alþjóðavæðingar og þróunar innan ESB og þar með á Evrópska
efnahagssvæðinu.
Svíar búa við svipað virðisaukaskattkerfi og Íslendingar. Í nóvember 2002 var gefin út skýrsla á vegum sænska fjármálaráðuneytisins um áhrif alþjóðavæðingarinnar á skattstofna og samsetningu skatttekna hins opinbera í framtíðinni. Skýrslan var unnin undir stjórn Per Olof Edin sem til margra ára var aðalhagfræðingur sænska alþýðusambandsins og til ráðuneytis hafði hann þrjá prófessora og sérfræðinga frá atvinnulífi og verkalýðshreyfingu. Fjöldi rannsóknarverkefna var unninn á vegum þessarar eins manns nefndar, sem gekk undir nafninu skattstofnanefndin, og eru niðurstöðurnar birtar í ritröð sænskra stjórnvalda (SOU 2002:47). Skýrsla þessi er mikil að vöxtum og verður hér greint frá helstu niðurstöðum hennar varðandi virðisaukaskatt.
Fjármögnunarvandi til lengri tíma
Nefndin telur að í framtíðinni verði unnt að fjármagna núverandi
stig velferðarkerfisins í Svíþjóð. Forsenda þess sé þó sú að gerðar
verði ákveðnar breytingar á skattkerfinu og að nokkurn tíma geti
tekið að hrinda þeim í framkvæmd. Að bíða með óhjákvæmilegar
breytingar þar til allir sjá nauðsyn þeirra sé að vísu auðveld leið
en kostnaðarsöm og geti valdið miklu tjóni. Nefndin tímasetur ekki
breytingartillögur sínar en leggur áherslu á að því fyrr sem þær
verði framkvæmdar þeim mun betra fyrir íbúa landsins og velferð
þeirra. Snar þáttur í rannsóknum á skattstofnum framtíðarinnar snýr
að áhrifum lýðfræðilegra breytinga og breytinga í atvinnuþátttöku
sem felast í því að meðalaldur hækkar og íbúum fjölgar en vinnandi
fólki fækkar. Samhliða þessu er búist við að fólk komi síðar inn á
vinnumarkaðinn en nú. Þessir þættir munu skapa þrýsting á
skattstofna og velferðarkerfi. Svíar standa raunar ekki einir
frammi fyrir þessum framtíðarhorfum heldur gildir þetta um flest
V-Evrópulönd, þar með talið Ísland, þótt við séum u.þ.b. áratug á
eftir flestum ríkjum á þessari braut. Af þessum ástæðum er ekki
talin ástæða til að óttast aþjóðlegan þrýsting á lækkun skattbyrðar
í heild þar sem fjöldi Evrópuríkja stendur frammi fyrir því
verkefni að þurfa að auka skatttekur sínar til að viðhalda
velferðarstiginu.
Skynsamleg útfærsla
Sænska skattkerfið er almennt séð skynsamlega útfært séu
hagvaxtarsjónarmið lögð til grundvallar. Því lægri og almennari sem
jaðarskatthlutföllin eru þeim mun minni eru líkurnar á bjöguðum
fjárfestinga- og neysluákvörðunum sem hafa sóun í för með
sér. Lægstu mögulegu jaðarskattar fást með því að hafa
skattstofnana sem breiðasta og forðast eins og unnt er sértækar
lækkanir og undanþágur frá skatti.
Sænskir skattar í alþjóðlegum samanburði
Í Svíþjóð eru skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af
landsframleiðslu hærri en í nokkru öðru OECD-ríki, sem endurspeglar
meiri metnað hvað varðar opinbera velferðarþjónustu en í öðrum
ríkjum. Annað einkenni á sænska skattkerfinu er að nýtingarstig
allra helstu skattstofnanna er hátt og eru undanþágur fáar, t.d. í
formi skattaafslátta og sérstakra lægri þrepa. Afleiðing þessa eru
tiltölulega lágir jaðarskattar þrátt fyrir þunga skattbyrði.
VSK í Svíþjóð
Almenna hlutfall virðisaukaskattsins í Svíþjóð er 25% en að auki
eru tvö lægri þrep sem eru 12% og 6%. Í 12% þrepinu eru matvæli,
önnur en vatn frá vatnsveitum, áfengir drykkir og tóbak, og útleiga
hótelherbergja. Í 6% þrepinu eru einkum bækur, blöð og tímarit og
aðgöngumiðar í bíó, leikhús, tónleika o.þ.h.
VSK í ESB
Svíþjóð og Danmörk eru með hæsta VSK í ESB og er almenna hlutfallið
25% í báðum ríkjunum. Í ESB eru 15% sett sem lágmark fyrir almennt
hlutfall en engin efri mörk eru sett. Aðildarríkjunum er heimilt að
víkja frá almenna hlutfallinu niður á við í tilteknum flokkum vöru
og þjónustu og mega þau þá beita tveimur mismunandi hlutföllum.
Virðisaukaskatturinn er að vissu leyti sameiginlegur skattstofn ESB. Hann myndar grundvöll fyrir greiðslur aðildarríkjanna til sambandsins. Virðisaukaskatturinn er einnig það svið skattamála þar sem áformuð er aukin samvinna milli aðildarríkjanna. Útlit er fyrir að erfitt verði fyrir einstök ESB-ríki að víkja umtalsvert frá því sem almennt gildir hvað hlutfall virðisaukaskatts varðar þegar til lengri tíma er litið. Þetta stafar meðal annars af aukinni milliríkjaverslun innan ESB og aukinni verslun á netinu. En fyrst og fremst verða frávik erfiðleikum háð ef ESB nær settu markmiði um að taka upp svokallaða upprunalandsreglu. Hún myndi hafa það í för með sér að á út- og innflutning innan ESB-ríkja legðist virðisaukaskatthlutfall upprunalandsins á vöru og þjónustu í stað hlutfalls þess ríkis þar sem notkunin á sér stað, eins og nú er raunin.
Skattstofnanefndin sænska leggur því til að undirbúningur hefjist við það að minnka bilið milli þeirra 25 prósentustiga sem vörur bera almennt í Svíþjóð og þeirra 15% sem er lágmarksprósenta ESB. Nefndin telur það hæfilega metnaðarfullt markmið að stefna að 20% hlutfalli. Fyrsta og auðveldasta skrefið í þessa átt telur nefndin vera að afnema undanþágurnar. Ekki séu nægilega traust rök fyrir lægra skatthlutfalli á matvæli og þær aðrar vörur og þjónustu sem undanþegnar eru almenna skatthlutfallinu. Afnám undanþága ætti að skapa möguleika á lækkun almenna hlutfallsins í 22%. Ákvörðun um lækkun VSK úr 22% í 20% beri síðan að taka þegar samkeppnisþrýstingur eykst frá öðrum ríkjum.
VSK á þjónustu
Upprunalandsreglan er meginreglan í ESB þegar neytendur greiða
skatt af þjónustu. Hún felur í sér að meginreglan er sú að
VSK er greiddur þar sem framleiðandinn hefur byggt upp starfsemi
sína og þar af leiðandi óháð búsetu viðskiptavinarins. Þetta gildir
um netverslun, t.d. þegar tónlist, upplýsingar, forrit og
kennsluefni er selt í gegnum netið. Þetta gildir einnig um
vefþjónustu, símaþjónustu, áskriftarsjónvarp, lögmannsþjónustu,
auglýsingar, tölvuþjónustu og leikjaþjónustu.
Ríki með lágan VSK geta hagnast á þessu, bæði í gegnum skatttekjur af neyslu í öðrum ríkjum og með því að þjónustustarfsemi af framangreindum toga flyst þangað. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir ríki með hátt VSK-hlutfall. Þar sem núverandi ESB-reglur fela í sér að þessi þjónusta er skattlögð með almenna hlutfallinu verða Svíþjóð og önnur háskattalönd að lækka almenna hlutfallið hjá sér ef þau ætla sér að standast þessa skattasamkeppni.
Umræða um VSK á Íslandi
Þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin úr umræddri sænskri skýrslu
eiga erindi í umræðu um breytingar á virðisaukaskattkerfinu hér á
landi. Umræða um skattamál er um of yfirgnæfð af
tekjuskiptingarsjónarmiðum með þeim afleiðingum að menn missa
sjónar af meginhlutverki skattheimtunnar, sem er að afla tekna
fyrir hið opinbera til að standa undir velferðarþjónustu.
Aðalatriðið er að skattstofnar séu breiðir og undanþágur fáar eða
engar þannig að skatthlutföll verði sem allra lægst. Þannig eru
skaðleg áhrif skattanna lágmörkuð, hvort sem litið er til áhrifa á
neyslu, fjárfestingar eða undanskot.