Samkeppnishæfni - 

02. ágúst 2001

Lög um opinberar eftirlitsreglur virt að vettugi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lög um opinberar eftirlitsreglur virt að vettugi

Við samþykkt breytinga á lögum um tóbaksvarnir virtu stjórnvöld og löggjafinn að vettugi ákvæði laga um opinberar eftirlitsreglur. Komið var á fót enn einu opinberu eftirlitskerfinu, án þess að nauðsyn þess væri rökstudd með sérstöku mati líkt og kveðið er á um í lögum um opinberar eftirlitsreglur og reglugerð.

Við samþykkt breytinga á lögum um tóbaksvarnir virtu stjórnvöld og  löggjafinn að vettugi ákvæði laga um opinberar eftirlitsreglur. Komið var á fót enn einu opinberu eftirlitskerfinu, án þess að nauðsyn þess væri rökstudd með sérstöku mati líkt og kveðið er á um í lögum um opinberar eftirlitsreglur og reglugerð.

Í vor samþykkti Alþingi breytingar á lögum um tóbaksvarnir þar sem m.a. var mælt fyrir um að sérstakt leyfi heilbrigðisnefndar þurfi til að selja tóbak frá 1. ágúst nk.  Áður var nægilegt að hafa verslunar- eða veitingaleyfi til tóbakssölu.  Lagabreytingarnar heimila einnig sveitarstjórnum að ákveða innheimtu gjalds fyrir leyfi og eftirlit vegna tóbakssölu enda sé gjaldtakan í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í athugasemdum frumvarpsins um tóbaksvarnir í vor var þetta nýja eftirlit eingöngu rökstudd þannig: "Full ástæða er til að kveða á um það með lögum hverjir megi selja tóbak og binda smásölu þess við sérstakt leyfi.  Skráning sú sem leiðir af leyfisskyldu ætti að auðvelda eftirlit með sölustöðum tóbaks og yfirsýn yfir söluna og vænta má að leyfisskylda verði til þess að sölustöðum fækki og við það dragi úr heildarsölu tóbaks."

Markmið þeirra breytinga sem samþykktar vöru á tóbaksvarnarlögum var því að fækka útsölustöðum með sérstöku leyfisgjaldi. Í raun ávinnst hins vegar ekkert með sérstakri skráningu tóbakssöluleyfis. Það hafa fyrst fremst verið verslanir og veitingahús, sem selja tóbak.  Þessi fyrirtæki þurfa að hafa verslunar- eða veitingaleyfi og hugsanlegt væri því að skrá sérstaklega í þær skrár hvort tóbak yrði selt hjá leyfishafa eða ekki.

Lög um opinberar eftirlitsreglur
Árið 1999 voru sett sérstök lög um opinberar eftirlitsreglur (nr. 27/1999) sem hafa það markmið að sporna gegn tilgangslausu og kostnaðarsömu opinberu eftirliti, svokölluðum eftirlitsiðnaði, því umfang þessarar opinberu starfssemi hefur aukist mikið á undanförnum áratugum.  Samkvæmt lögunum (3. gr.)  ber stjórnvöldum skylda til við samningu eftirlitsreglna eða þegar stofnað er til nýs opinbers eftirlits að rökstyðja nauðsyn þess með sérstöku mati.

Verklag við samingu nýrra opinberra eftirlitsreglna
Þegar stjórnarfrumvarp um nýtt opinbert eftirlit hefur verið samið skal því fylgja greinargerð um þetta mat sem leggja skal fyrir ríkisstjórn.  Í reglugerð um opinberar eftirlitsreglur nr. 812/1999 hafa verið settar fram skýrar og auðskiljanlegar reglur um hvernig þetta mat skuli framkvæmt af hálfu stjórnvalds. Greina skal raunverulega þörf á eftirliti, t.d. hvort raunverulegt tjón verði ef ekkert eftirlit yrði framkvæmt eða ef það væri falið öðrum, t.d. fyrirtækinu sjálfu með innra eftirliti. Sérstaklega skal kanna hvort alþjóðlegar skuldbindingar standi að baki nýju opinberum reglum og hvort eftirlit sé fyrir hendi hjá öðrum stjórnvöldum, sem gætu tekið að sér þetta eftirlit með minni kostnaði. Stjórnvaldi ber að meta kostnað við eftirlit og gildi og árangur með því. Reglunum fylgir einnig sérstakur gátlisti til að auðvelda starfsmönnum stjórnsýslunnar þetta lögbunda verk, standi hugur  opinberra aðila til aukins opinbers eftirlits á kostnað fyrirtækja og einstaklinga. Þeim ber þannig sérstaklega að upplýsa almenning um beinan áætlaðan heildarkostnað vegna eftirlitsins sem leggjast muni á einstaklinga, fyrirtæki og ríkissjóð.

Löggjöfin virt að vettugi
Það dylst engum sem les fyrrnefndar athugasemdir sem fylgdu frumvarpi til laga um breytingar á lögum um tóbaksvarnir að sérstakt mat á nauðsyn og gagnsemi nýrra reglna um eftirlit með tóbakssölu lá ekki fyrir samkvæmt frumvarpinu, eins og lögboðið er skv. lögum um opinberar eftirlitsreglur.

Niðurstaðan er því sú að við samþykkt breytinga á lögum um tóbaksvarnir virtu stjórnvöld og löggjafinn að vettugi ákvæði laga um opinberar eftirlitsreglur. Komið var á fót enn einu opinberu eftirlitskerfinu, án þess að nauðsyn þess væri rökstudd með sérstöku mati líkt og kveðið er á um í lögum um opinberar eftirlitsreglur og reglugerð.

Samtök atvinnulífsins