Vinnumarkaður - 

10. júní 2004

Lög á kjaradeilu fiskimanna á dagskrá ILO-þings

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lög á kjaradeilu fiskimanna á dagskrá ILO-þings

Athugasemdir sérfræðinganefndar ILO (Alþjóðavinnumála-stofnunarinnar) vegna afskipta ríkisvaldsins af kjaradeilu fiskimanna vorið 2001voru til umræðu á þingi ILO. Endir var bundinn á verkfall fiskimanna, sem staðið hafði í sex vikur og var m.a. farið að hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar, með lögum og kjaradeilunni vísað til úrlausnar gerðardóms. Sérfræðinganefndin hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd alþjóðasamþykkta stofnunarinnar og er skýrsla hennar lögð fyrir ILO þingið til almennrar umræðu auk þess sem einstök mál eru tekin til umfjöllunnar. Fulltrúar verkalýðsfélaganna á þinginu ráða mestu um það hvaða mál það eru, en vinnuveitendur hafa minni áhrif á þá ákvörðun og ríkisstjórnarfulltrúarnir á þinginu engin.

Athugasemdir sérfræðinganefndar ILO (Alþjóðavinnumála-stofnunarinnar) vegna afskipta ríkisvaldsins af kjaradeilu fiskimanna vorið 2001voru til umræðu á þingi ILO. Endir var bundinn á verkfall fiskimanna, sem staðið hafði í sex vikur og var m.a. farið að hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar, með lögum og kjaradeilunni vísað til úrlausnar gerðardóms. Sérfræðinganefndin hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd alþjóðasamþykkta stofnunarinnar og er skýrsla hennar lögð fyrir ILO þingið til almennrar umræðu auk þess sem einstök mál eru tekin til umfjöllunnar.  Fulltrúar verkalýðsfélaganna á þinginu ráða mestu um það hvaða mál það eru, en vinnuveitendur hafa minni áhrif á þá ákvörðun og ríkisstjórnarfulltrúarnir á þinginu engin.

Ekki alvarlegur áfellisdómur

Athugasemdir sérfræðinganefndarinnar vörðuðu framkvæmd Íslands á samþykkt nr. 87 um félagafrelsi, en ILO hefur talið að verkfallsrétturinn njóti verndar samkvæmt henni, og  4. gr. samþykktar nr. 98 um að aðildarríkjunum beri að stuðla að frjálsum kjarasamningum. Þingið fjallaði einungis um seinni samþykktina þ.e. hvort íslenska ríkið hefði brotið gegn samningsfrelsi aðila. Niðurstaða þingisins felur ekki í sér neinn alvarlegan áfellisdóm og lýtur fyrst og fremst að því að fara þurfi yfir framkvæmd kjarasamningaviðræðna fiskimanna og umgjörð þeirra, en rétt er að hafa í huga að lög nr. 34/2001 eru niður fallin og engar sérreglur í gildi varðandi samninga fiskimanna. Ljóst er hins vegar að mál þetta getur komið á dagskrá aftur nái aðilar ekki samningum sín á milli án utanaðkomandi íhlutunar. Sú skylda hvílir því á sjómannasamtökunum sem eru upphaflegir kærendur þessa máls að leggja sitt af mörkum til þess að samningar geti náðst.

Ósk aðila að ríkisstjórnin haldi að sér höndum 

Nánar tiltekið er í niðurstöðu nefndarinnar vísað til þess að spurning um inngrip stjórnvalda í kjarasamninga fiskimanna sem og í öðrum starfsgreinum hafi áður komið upp. Sú ósk hafi komið fram hjá aðilum vinnumarkaðarins á Íslandi að ríkisstjórnin haldi að sér höndum í framtíðinni hvað varðar hvers kyns inngrip í ferli kjarasamninga. Sérstök athygli er veitt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að hún væri reiðubúin til samráðs við aðila vinnumarkaðarins til að fara yfir þau vandamál sem væru til staðar í sjávarútvegi. Nefndin lét jafnframt í ljós þá von að ríkisstjórnin myndi endurskoða umgjörð og tilhögun kjarasamningaviðræðna og framkvæmd þeirra í sjávarútvegi í nánu samráði við hlutaðeigandi samtök aðila vinnumarkaðarins með það að markmiði að bæta umgjörð frjálsra samningaviðræðna í samræmi við 4. grein samþykktarinnar. Þá óskaði nefndin eftir því að ríkisstjórnin sendi ítarlegar upplýsingar um ráðstafanir hvað þetta varðar í næstu skýrslu sinni til sérfræðinganefndarinnar.

Sjá umfjöllun ILO þingsins í máli Íslands í heild (pdf-skjal, 1,3 MB).

Samtök atvinnulífsins